Innlendir kvikmyndaframleiðendur segja ekki vanþörf á þeirri aðstöðu sem fyrirhugað er að koma upp í Hafnarfirði, þar sem á að rísa stórt kvikmyndaver og tengd aðstaða. Ekkert formlegt samstarf hefur þó átt sér stað við aðstandendur verkefnsins, segja viðmælendur Vísis, sem fjallar um málið.
Snerting Baltasars Kormáks hlaut á dögunum 2,5 milljónir norskra króna frá Norrræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum. Upphæðin svarar til um 35 milljóna íslenskra króna.
Focus Features mun dreifa Snertingu Baltasars Kormáks í Bandaríkjunum. Universal mun dreifa myndinni á heimsvísu. Egill Ólafsson fer með aðalhlutverkið, en tökur hefjast í London á sunnudag.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Baltasar Kormákur Baltasarsson leikstjóri munu í dag skrifa undir samning um kaup RVK Studios á annarri skemmu Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi sem staðið hefur ónýtt um langt skeið. Kaupverð er 320 milljónir króna.
Baltasar Kormákur framleiðandi og Peter Flinth leikstjóri ræða við Wendy Mitchell um Against the Ice, sem var frumsýnd á Berlínarhátíðinni. Myndin er væntanleg á Netflix 2. mars.
Stikla Netflix myndarinnar Against the Ice er komin út, en myndin verður frumsýnd 2. mars næstkomandi. Baltasar Kormákur framleiðir en Nikolaj Coster-Waldau fer með aðalhlutverkið.
Útflutningsverðlaun forseta Íslands voru veitt á Bessastöðum í gær, en þar hlaut Baltasar Kormákur heiðursviðurkenningu fyrir eftirtektarverð störf á erlendri grundu.
Baltasar Kormákur var meðal þátttakenda í panel á nýafstaðinni Black Nights Film Festival í Tallinn þar sem rætt var um starfstækifæri í kvikmyndagerð fyrir nýliða. Wendy Mitchell hjá Screen stýrði umræðum.
Kvikmyndaframleiðendur segja að tilkoma streymisveita hafi gjörbylt fjármögnunarmöguleikum í kvikmyndaframleiðslu. Á árinu 2020 var mikill hagnaður í íslenskri kvikmyndagerð. Fjallað er um þetta í Fréttablaðinu.
Sögn, fyrirtæki í eigu Baltasars Kormáks Baltasarssonar kvikmyndagerðarmanns, hagnaðist um 163 milljónir króna árið 2020, samanborið við 37 milljóna hagnað árið áður. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu.
Á bransadögum RIFF var einn dagurinn tileinkaður framleiðendum. Hér má horfa á upptöku frá þessu spjalli sem stýrt var af kvikmyndablaðamanninum Wendy Mitchell.
Gunnar Ragnarsson birtir í Morgunblaðinu í dag hugleiðingar sínar um þáttaröðina Kötlu eftir Baltasar Kormák. Hann segir meðal annars: "Með Kötlu er íslenskt sjónvarpsverk komið nær alþjóðlegri meginstraumsmenningu en nokkru sinni fyrr, sem mótar vitanlega fagurfræði og frásagnaraðferðir hennar, en einnig kröfurnar sem gerðar eru."
Þáttaröðin Katla eftir Baltasar Kormák birtist á Netflix í dag, 17. júní. Þetta er í fyrsta sinn sem Netflix framleiðir alfarið íslenska þáttaröð. Í viðtali við RÚV segir Baltasar að það hefði verið óhugsandi fyrir áratug að erlendur aðili á stærð við Netflix hefði haft áhuga á að framleiða íslenska seríu fyrir heimsmarkað og er sannfærður um að þetta sé upphafið að einhverju meira.
Þáttaröðin Katla í leikstjórn Baltasars Kormáks, Þóru Hilmarsdóttur og Barkar Sigþórssonar kemur út á Netflix þann 17. júní næstkomandi. Kitla verksins var frumsýnd í dag.
Netflix hefur sent frá sér nokkrar ljósmyndir úr þáttaröðinni Kötlu, sem væntanleg er á efnisveituna fljótlega. Baltasar Kormákur framleiðir þættina og leikstýrir einnig ásamt Þóru Hilmarsdóttur og Berki Sigþórssyni.
Baltasar Kormákur hefur tryggt sér kvikmyndaréttinn að bókinni Snerting eftir Ólaf Jóhann Ólafsson og hyggst gera mynd eftir henni á næsta ári. Þetta kemur fram á vef RÚV.
RVK Studios framleiðir kvikmyndina Against the Ice fyrir Netflix og er tökum á myndinni nýlokið hér á landi. Hún verður sýnd síðar á árinu. Danski leikarinn Nikolaj Coster-Waldau fer með aðalhlutverkið en þetta er ástríðuverkefni hans. Danski leikstjórinn Peter Flinth (Arn: The Knight Templar) stýrir. Nordic Film and TV News fjallar um myndina.
Baltasar Kormákur leikstjóri og framleiðandi ræðir við Wendy Mitchell hjá Screen um árið sem er að líða og hvernig honum og samstarfsfólki tókst að vinna sig framhjá takmörkunum vegna heimsfaraldursins. Hann ræðir líka um stöðuna í kvikmyndabransanum almennt sem og verkefnin framundan.
Netflix, RÚV og ZDF, ein stærsta sjónvarpsstöð Þýskalands, koma að framleiðslu þriðju syrpu þáttaraðarinnar Ófærð, sem nú kallast Entrapped. Tökur standa yfir.
Vísindaskáldsöguþættirnir Katla úr smiðju leikstjórans Baltasars Kormáks verða framleiddir af efnisveitunni Netflix. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Netflix en þar segir að fallegt landslag Íslands verði fyrirferðarmikið í átta þátta Netflix-seríunni en framleiðsla hefst 2020.
Baltasar Kormákur sagði frá því í Kastljósi RÚV í gærkvöldi að Netflix myndi fjármagna íslenska þáttaröð á hans vegum og að tökur hefjist næsta vor í Gufunesi.
Baltasar Kormákur mun leikstýra kvikmyndinni Arthur the King á næsta ári. Mark Wahlberg fer með aðalhlutverkið, en þetta verður í þriðja sinn sem þeir Baltasar vinna saman.
„Markmiðið var að reyna að gera betur. Mig langaði til að nota tækifærið og fjalla um eitthvað sem skiptir mig máli og nota þrillerinn, án þess að tapa spennu og skemmtanagildi, til þess að fjalla um viðkvæmari mál eins og Ísland og landvernd," segir Baltasar Kormákur um nýja syrpu þáttaraðarinnar Ófærð sem frumsýnd verður á RÚV annan dag jóla.
Ingvar E. Sigurðsson og Hera Hilmarsdóttir munu fara með aðalhlutverkin í fyrirhugaðri kvikmynd og þáttaröð Baltasars Kormáks þar sem byggt er á Sjálfstæðu fólki Halldórs Laxness. Tökur eru fyrirhugaðar undir lok næsta árs eða í byrjun þess þar næsta.
Robert Richardson er einn virtasti tökumaður í bandarískum kvikmyndum síðasta aldarfjórðung eða svo. Hann hefur þrisvar hlotið Óskarsverðlaunin en slíkir eru teljandi á fingrum annarar handar. Richardson var tökumaður Adrift eftir Baltasar Kormák, en hann er kunnastur fyrir samstarf sitt við Oliver Stone, Martin Scorsese og Quentin Tarantino. Ásgrímur Sverrisson ræddi við hann á dögunum um myndina, samstarfið við Baltasar og fyrrnefnda leikstjóra.
Baltasar Kormákur er í viðtali við Variety um nýjustu mynd sína, Adrift, sem frumsýnd verður þann 1. júní vestanhafs, en hér á landi tveimur vikum síðar.
Baltasar Kormákur og Reykjavík Studios opnuðu formlega nýtt kvikmyndaver í Gufunesi á sumardaginn fyrsta, en tökur á annarri syrpu Ófærðar hafa staðið þar yfir að undanförnu. Klapptré ræddi við Baltasar um rekstargrundvöllinn og hvernig hann sér þetta allt fyrir sér.
Fyrsta stiklan úr nýjustu Hollywood-mynd Baltasars Kormáks, Adrift, var frumsýnd í síðustu viku og af því tilefni ræddi RÚV við hann. Baltasar segir að vinnan við myndina hafi verið mjög krefjandi.
Stikla kvikmyndarinnar Adrift í leikstjórn Baltasars Kormáks var opinberuð í dag og má skoða hér. Shailene Woodley og Sam Claflin fara með aðalhlutverk en myndin, sem byggð er á sannri sögu, er væntanleg með haustinu.
Eiðurinn eftir Baltasar Kormák var frumsýnd í 25 kvikmyndahúsum vítt og breitt um Bandaríkin s.l. föstudag 8. september. Dreifingaraðili er Gunpowder & Sky, en óhætt er að segja að þetta sé óvenju víðtæk bíódreifing þar í landi á íslenskri kvikmynd.
Baltasar Kormákur dvelur nú á Fiji-eyjum við tökur á kvikmyndinni Adrift með Shailene Woodley í aðalhlutverki. Tökumaður myndarinnar er engin annar en Robert Richardson, þrefaldur Óskarsverðlaunahafi og einn sá kunnasti sinnar tegundar. Lilja Sigurlína Pálmadóttir, eiginkona Baltasars, birtir þessa mynd á Fésbókarsíðu sinni af þeim Baltasar og Robert Richardson og gaf Klapptré góðfúslegt leyfi til að birta.
Önnur syrpa Ófærðar hlaut vilyrði í júnímánuði fyrir sextíu milljóna styrk frá Kvikmyndasjóði þótt ekki væri búið að skrifa handrit að öllum þáttunum í seríunni. Laufey Guðjónsdóttir, forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar segir reglur ekki hafa verið brotnar, en Snorri Þórisson framleiðandi hjá Pegasus gagnrýnir ákvörðunina. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu.
RÚV og RVK Studios Baltasars Kormáks, hafa gert með sér samkomulag um þróun og undirbúning 6-8 sjónvarpsþátta og kvikmyndar sem byggjast á Sjálfstæðu fólki Halldórs Laxness. Vonast er til að tökur hefjist síðla næsta árs.
RVK Studios, framleiðslufyrirtæki Baltasars Kormáks og breska framleiðslufyrirtækið Buccaneer Media hafa tekið höndum saman um framleiðslu sjónvarpsþáttaraðar sem byggð verður á Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Þáttaröðin mun kallast Reykjavik Confessions.
Deadline skýrir frá því að handritshöfundar Bond myndanna til margra ára, Neal Purvis og Robert Wade, vinni nú að handriti væntanlegrar skáldsögu norska spennuhöfundarins Jo Nesbö, I Am Victor, fyrir Baltasar Kormák.