Sigurgeir Arinbjarnarson og samstarfsfólk hans hjá myndbrellufyrirtækinu Kontrast hefur opinberað brellustiklu (VFX Breakdown) þáttaraðarinnar Stellu Blómkvist og má skoða hana hér. Næstum 400 brelluskot voru unnin fyrir þáttaröðina.
Handritavinnustofan Midpoint fer fram í tengslum við Stockfish hátíðina dagana 10.-11. mars næstkomandi. Frestur til að senda inn handrit í vinnslu rennur út 9. febrúar. Vinnustofan er ætluð þeim sem eru að vinna að sinni fyrstu eða annarri mynd.
Glassriver, nýtt framleiðslufyrirtæki Baldvins Z., Harðar Rúnarssonar, Arnbjargar Hafliðadóttur og Andra Óttarssonar, mun kynna væntanleg verkefni sín fyrir meðframleiðendum og dreifingaraðilum á Gautaborgarhátíðinni.
Á fréttavef Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins er rætt við handritshöfunda þáttaraðarinnar Stellu Blómkvist; Jóhann Ævar Grímsson, Nönnu Kristínu Magnúsdóttur og Andra Óttarsson. Verkið keppir nú um Norrænu sjónvarpsverðlaunin á Gautaborgarhátíðinni.
Ingvar Þórðarson er í viðtali við Morgunblaðið um finnsku stórmyndina Óþekkta hermanninn (Tuntematon sotilas), sem hann og Júlíus Kemp eru meðframleiðendur að. Myndin er nú sýnd í Bíó Paradís.
Hvítur, hvítur dagur, væntanleg bíómynd Hlyns Pálmasonar, var annað tveggja verkefna í vinnslu sem voru valin á tvo mikilvægustu samframleiðslumarkaði Evrópu, Cinemart í Rotterdam og Berlinale Co-production Market í Berlín. Rotterdam hátíðin er nú hafin en Berlinale hefst 15. febrúar. Um er að ræða sérstakt samstarf þessara tveggja hátíða sem kallast Rotterdam-Berlinale Express og var stofnað 2002.