Daglegt færslusafn: Dec 18, 2015

„Þrestir“ fá fjarka í Les Arcs

Þrestir Rúnars Rúnarssonar unnu til fernra verðlauna á kvikmyndahátíðinni í Les Arcs í frönsku ölpunum. Myndin var valin besta mynd hátíðarinnar, Atli Óskar Fjalarsson var valinn besti leikarinn, þá var myndataka Sophiu Olsson verðlaunuð og myndin fékk auk þess pressuverðlaunin.

RÚV skorið niður við trog, ráðherrar skammta úr hnefa

Útvarps­gjald mun lækka úr 17.800 krón­um í 16.400 krón­ur á næsta ári samkvæmt nýjustu fréttum. Þetta þýðir um 400 milljóna tekjumissi að sögn RÚV og nemur því heildarhagræðing næsta árs um 500 milljónum. Á móti ákveður ríkisstjórnin að RÚV fái "sérstakt framlag uppá 175 milljónir króna til eflingar inn­lendr­ar dag­skrár­gerðar" eins og það er orðað.

Nýja Stjörnustríðsmyndin slær öll met á Íslandi

Star Wars: The Force Awakens var frumsýnd víða um heim í gær og hefur fengið vægast sagt glimrandi aðsókn. Aðsóknarmet hafa fallið víða en hvergi þó eins og á Íslandi þar sem 10,319 manns sáu myndina í gær, fimmtudag. Það er um 50% fleiri en sáu The Hobbit: The Battle of the Five Armies á fyrsta sýningardegi. Líklegt verður að teljast að myndin slái opnunarhelgarmet sömu myndar, sem er 28,919 gestir.

Eddan: Frestur til innsendinga til 7. janúar

Byrjað er að taka á móti kvikmynda- og sjónvarpsverkum vegna Eddunnar 2016 sem haldin verður um mánaðamótin febrúar/mars. Frestur til að senda inn verk rennur út á miðnætti fimmtudaginn 7. janúar, 2016. Gjaldgeng eru verk sem frumsýnd eru opinberlega á tímabilinu 1. janúar 2015 til 31. desember 2015.

„Hrútar“ ekki á stuttlista vegna Óskars

Bandaríska kvikmyndaakademían hefur opinberað níu mynda stuttlista yfir þær myndir sem gætu orðið tilnefndar til Óskarsverðlauna sem besta erlenda myndin. Það eru óneitanlega vonbrigði að Hrúta sé ekki að finna á listanum, en fjölmargir fagmiðlar, þar á meðal þessi hér, töldu hana eiga góða möguleika á tilnefningu.

Framleiðendur fagna miðastyrkjum en gagnrýna biðina

Kvikmyndaframleiðendur fagna frumvarpi um að veita miðastyrki vegna sýninga íslenskra kvikmynda síðustu ár. Þeir gagnrýna þó hvernig staðið er að úthlutuninni og segja mikinn fjármagnskostnað hafa lagst á framleiðendur vegna þess hversu seint staðið er við samkomulag um styrkina.