Fúsi Dags Kára er tilnefnd til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs í ár fyrir hönd Íslands. Verðlaunin verða veitt 27. október í Hörpu og hlýtur sigurvegari að launum 350.000 danskar krónur, eða um 7,5 milljónir íslenskra króna.
Íslenska kvikmynda- og sjónvarpsakademían (ÍKSA) stendur fyrir árlegri kosningu sinni um framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna dagana 2.-7. september næstkomandi. Kosið er á milli fimm kvikmynda.
RIFF, Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, verður sett þann 24. september og er dagskrá hátíðarinnar óðum að taka á sig mynd. Í dag tilkynnir hátíðin um 40 myndir sem verða á dagskrá hátíðarinnar í þremur flokkum hátíðarinnar en stefnt er að því að sýna hátt í 100 myndir í fullri lengd á meðan hátíðinni stendur.
IndieWire fjallar um þær myndir sem miðillinn telur koma til greina sem framlag viðkomandi landa til Óskarsverðlaunanna (besta erlenda myndin), alls vel á fjórða tug. IndieWire telur að valið á Íslandi komi til með að standa á milli Hrúta og Fúsa. Kosning um framlag Íslands til Óskarsins fer fram dagana 2.-7. september. Kosningarétt hafa meðlimir Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar.
Almennar sýningar á Z for Zachariah, sem framleidd er af Sigurjóni Sighvatssyni, Þóri Snæ Sigurjónssyni og Skúla Malmquist og leikstýrt af Craig Zobel, hefjast í dag fimmtudag í Bandaríkjunum. Fjölmargir miðlar hafa fjallað um myndina og fær hún gegnumsneytt jákvæð viðbrögð. Með helstu hlutverk fara Margot Robbie, Chiwetel Eijiofor og Chris Pine.
Freelance kallast nýtt þjónustufyrirtæki sem sérhæfir sig í að gera líf verktaka/einyrkja auðveldara með nýrri nálgun hér á landi þó að þjónustan eigi sér fyrirmyndir til margra ára á hinum Norðurlöndunum. Þeir lesendur Klapptrés sem eru snarir í snúningum að skrá sig fá afslátt af þjónustugjaldi.
Heimildamyndin Ég vil vera skrítin (I Want to be Weird) verður frumsýnd í Bíó Paradís kl. 20 fimmtudaginn 3. september næstkomandi. Stjórnandi myndarinnar er Brynja Dögg Friðriksdóttir og er þetta hennar fyrsta mynd í fullri lengd.
Franska sölu og dreifingarfyrirtækið Versatile Films hefur tryggt sér söluréttinn á Þröstum Rúnars Rúnarssonar. Staðfest hefur verið að myndin verði frumsýnd á Íslandi á RIFF hátíðinni þann 30. september.
Stikla og plakat heimildamyndarinnar Sjóndeildarhrings eða Horizon eftir Berg Bernburg og Friðrik Þór Friðriksson hafa verið opinberuð. Myndin verður frumsýnd á Toronto hátíðinni í september.
Um helgina verður kvikmyndin Hitman: Agent 47 frumsýnd um allan heim, en henni er dreift af 20th Century Fox. Óttar Guðnason er tökumaður myndarinnar en hann hefur meðal annars myndað tvær mynda Baltasars Kormáks, Little Trip to Heaven og Inhale.
Kristín A. Atladóttir framleiðandi tjáir sig um umræðuna um kynjahalla í kvikmyndum í Fréttablaðinu og segir meðal annars: "Það er ekki flókið að komast að óumdeilanlegum niðurstöðum í tölfræði kvikmyndastyrkja á Íslandi, niðurstöðum þar sem forsendur eru ljósar sem og hvaða spurningum er verið að svara. Tilgangslaust er að fleygja ófullnægjandi og misvísandi tölum á milli sín og hártoga um málefni þar sem sýnileg niðurstaða liggur fyrir, en eðli og orsakir eru ókunnar."
Dögg Mósesdóttir formaður WIFT á Íslandi flutti tölu á málfundi RIFF í Tjarnarbíói í gærkvöldi þar sem málefni kvenna í kvikmyndagerð voru rædd. Dögg sagði meðal annars: "Miðað við framgang mála hingað til mun taka okkur 600 ár að ná jafnrétti, við erum ekki lengra komin en það. Við erum öll sammála um að núverandi staða er óþolandi og hvorki bransanum né landinu til sóma. Okkar skoðun er sú að ástandið lagist seint og illa, NEMA það sé farið í sértækar aðgerðir hjá Kvikmyndamiðsttöð. Það sendir út nauðsynleg skilaboð til áhorfenda, framleiðslufyrirtækja, sjónvarpsstöðva, verðandi kvikmyndagerðarkvenna, allra."
Menntamálaráðherra ætlar að hefja vinnu til að stemma stigu við ójöfnum kynjahlutföllum í kvikmyndagerð strax á þessu ári. Þetta kom fram á umræðufundi sem RIFF hélt í Tjarnarbíói í gær um málefnið.
Friðrik Erlingsson leggur út af umræðunni um kynjakvóta í kvikmyndagerð og segir meðal annars: "Stóra vandamálið í kynjahallanum á úthlutun styrkja frá Kvikmyndamiðstöð er ekki hvort umsækjandi er með kynfærin innvortis eða utanáliggjandi. Stóra vandamálið er skorturinn á skýrum og afmörkuðum vinnureglum fyrir ráðgjafa Kvikmyndamiðstöðvar, svo þeir komist ekki lengur upp með að hafa ‘persónulega skoðun’ á umsóknum eða umsækjendum, heldur sé þeim gert að fjalla um þær á faglegan hátt, meta þær samkvæmt faglegri reglu, sem útilokar að persónulegt álit ráðgjafa hafi nokkuð um málið að segja."