Dögg Mósesdóttir á málfundi RIFF: Okkur öllum í hag að konur jafnt sem karlar segi sögur

Frá málfundi RIFF í Tjarnarbíói í gærkvöldi um kynjahalla í kvikmyndagerð og leiðir til úrbóta. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra er í pontu.
Frá málfundi RIFF í Tjarnarbíói í gærkvöldi um kynjahalla í kvikmyndagerð og leiðir til úrbóta. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra er í pontu.

Dögg Mósesdóttir formaður WIFT á Íslandi flutti tölu á málfundi RIFF í Tjarnarbíói í gærkvöldi þar sem málefni kvenna í kvikmyndagerð voru rædd. Erindi hennar fer hér að neðan.

Dögg Mósesdóttir kvikmyndaleikstjóri og formaður WIFT á Íslandi.
Dögg Mósesdóttir kvikmyndaleikstjóri og formaður WIFT á Íslandi.

Virðulegi ráðherra, kollegar og aðrir fundargestir

Hæ, ég heiti Dögg og ég er karlremba.

Ég hef þó eitt meirhluta ævinnar í bata en það hefur krafist mikillar vinnu, sjálfsaga, fræðslu og funda. Bataferlið hófst þó ekki fyrr en ég áttaði mig á því að ég ætti við vandamál að stríða, að ég hafði alist upp í óheilbrigðu samfélagi, þar sem annað kynið var hetjan og hitt nánast ósýnilegt.

Nokkrar kynslóðir kvenna hafa um áraraðir barist fyrir auknu vægi kvenna í kvikmyndagerð. Það er ánægjulegt að við séum nú loksins hér að ræða málin, konur og karla, kollegar, augliti til auglitis. Kannski er þetta upphafið af bataferli kvikmyndageirans.

Wift vill þakka Baltasar Kormáki fyrir að taka upp okkar málstað, sem er í raun málstaður okkar allra sem vinnum í þessum geira.

Allt sem ég mun segja í þessum inngangi hefur önnur kona sagt á undan mér í pistli, viðtali eða greinaskrifum í áraraðir, mörgum sinnum, kynslóð eftir kynslóð. Ég ætla aðeins að endurtaka það sem þær sögðu einu sinni enn þar sem ég er vongóð um að nú muni raddir þeirra heyrast.

En af hverju skiptir kyn máli í kvikmyndagerð?

Rannsóknir á vegum Geena Davis institute on gender and media hafa leitt í ljós að sýnileiki kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi hefur mótandi áhrif á samfélagið sem sýndi sig t.a.m. þegar að réttameinatæknideildir amerískra háskóla fylltust af konum eftir að sýningar á CSI hófust þar sem réttameinatækninn var kona. Rannsóknir hafa líka sýnt að því fleiri konur sem eru fyrir aftan myndavélina því fleiri konur eru fyrir framan hana og haldast hlutföllin þar í hendur.

Við vitum þ.a.l. að kvikmyndir og sjónvarpsefni þar sem konur eru í lykilhlutverkum hafa eflandi áhrif á konur.  Hvað má þá segja um ósýnileika kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi. Hvaða áhrif hefur fjarvera kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi á konur og hvaða skilaboð sendir það til samfélagsins? Getur verið að ósýnileiki kvenna sé ákveðið form af þöggun, að verið sé að senda þau skilaboð til kvenna frá unga aldri að þær séu ekki mikilvægur hluti af samfélaginu, þeirra skoðun sé ekki jafn gild og strákanna, að þær geti ekki verið vísindamenn, forstjórar, stjórmálamenn og svo framvegis? Er verið að senda þau skilaboð að karlar spili mikilvægara hlutverk í okkar samfélagi og konur séu einungis til þess gerðar að þjóna og þóknast hinu kyninu? Gæti þessi speglun á raunveruleikanum átt þátt í viðhorfi karla til kvenna, jafnvel ýtt undir kynbundið ofbeldi? Gæti þessi fjarvera kvenna, hafi átt þátt í að gera mig og samfélagið allt að karlrembu?

Nú stendur yfir lengsta tímabil í sögu kvikmyndamiðstöðvar þar sem kona hefur ekki leikstýrt kvikmynd, en það eru 7 ár síðan að síðasta kvikmynd eftir konu kom út.

Mikið hefur verið rætt um að konur sæki ekki um hjá Kvikmyndasjóði Íslands og hefur þá verið bent á tölur frá árinu 2013-2015. En förum eitt ár aftur í tímann, til ársins 2012 þegar að 7 konur sóttu um framleiðslustyrki fyrir kvikmynd í fullri lengd en aðeins 6 karlar, engin kona fékk framleiðslustyrk það árið. Og ef við tölum um upphæðir, hvernig lítur þetta út þá. Frá árunum 2000-2012 fór 87% af fjármagni kvikmyndamiðstöðvar til karla og aðeins 13% til kvenna af þessu opinbera féi.Í þessu samhengi er mikilvæga að líta í upphæðir þegar við tölum um prósentur ekki bara hlutfall umsækjenda.

Konur standa mun betur í stuttmynda- og heimildarmyndargerð en af einhverjum ástæðum hefur konum gengið ver að sækja fram í kvikmyndum í fullri lengd en þar eru einnmitt hæstu styrkirnir. Getur verið að kvikmyndasjóður treysti síður konum fyrir háum upphæðum og að það sé skýringin á lakri stöðu kvenna þegar að kemur að leiknum myndum í fullri lengd? Eru gerðar meiri kröfur til þeirra um menntun og reynslu en karla almennt? Gæti það útskýrt að konur eru í miklum meirihluta í Háskólum landsins, (svo miklum meirihlutua að í sumum deildum Háskólanna hefur þurft að setja karlakvóta til að fá fleiri karla inn). Þær eru aldrei nógu vel menntaðar, nógu reyndar eða hæfar.

Oft er talað um að gæðin skipti mestu máli við úthlutun styrkja. Útfrá hvaða sjónarhorni eru gæðin mæld. Við höfum alist upp við að flestar kvikmyndir séu sagðar út frá sjónarhorni karla, er það kannski almennt talið „besta“ sjónarhorni, eitthvað sem við erum vön? Sjónarhorn kvenna er eitthvað nýtt og kannski óþægilegt, ekki álitið jafn „gott“.

Kvenleikstjórar á Íslandi fóru úr 18% síðustu tíu árin fyrir stofnun kvikmyndamiðstöðvar í 9.2% 10 árin eftir stofnun hennar.Við vitum ekki hvers vegna en allt þetta þarf að skoða. Tölfræðin er eitthvað sem þarf að rannsaka og greina svo að bransinn geti lært af henni og brugðist við.

Sænski og Norski sjóðurinn hafa um árabil unnið markvisst að því að jafna hlutföllin sem þeim hefur nú tekist með því að setja sér markmið og taka til aðgerða.  Anna Serner forstöðukona sænsku kvikmyndamiðstöðvarinnar hefur boðist til þess opinberlega að koma og veita þeim kvikmyndamiðstöðvum fræðslu sem kjósa að fara þeirra leið. Sænski sjóðurinn hóf aðgerðir í júní 2012 með það að markmiðið að ná jöfnum hlutföllum við lok ársins 2015. Sjóðurinn náði markmiði sínu ári fyrr, árið 2014 á aðeins tveimur árum. Anna hefur sagt að þótt að þau hafi náð markmiðinu árið 2014 þarf jafnréttisbaráttan að halda áfram og vera mæld með tímanum. Svo að aðgerðaráætlun Svía er ekki lokið, nú þarf að aðlaga hana aftur. Það er enginn tími til að slaka á. Hún minnir líka á að kvikmyndasjóðir þurfa endalaust að hafna verkefnum en núna hafni þeir bara aðeins fleiri karlaverkefnum og færri kvennaverkefnum. Anna segir jafnfram að í sænska kvikmyndasamningnum hefði verið ákvæði þar sem fram kemur að hlutföll úthlutana ættu að vera 40/60 körlum í hag og því var breytt í að hlutföllin ættu að vera jöfn, hún mælir með því að við setjum inn ákvæði í nýjan kvikmyndasamningi um að hlutföllin eigi að vera jöfn. Sumir vilja meina að vandamálið liggi í kvikmyndaskólum, þar sem stúlkur eru í miklum minnihluta og að það þýði lítið fyrir kvikmyndamiðstöð að reyna að gera eitthvað í málunum. Anna serner og sænska kvikmyndamiðstöðin náðu að jafna hlutföllin án þess að fara í sérstakar aðgerðir með kvikmyndaskólum. Getur verið að kvikmyndasjóður sé bæði hænan og eggið?

Svíar eru heppnir að eiga konu eins og Önnu Serner sem hefur stýrt þessum breytingum. Ég velti fyrir mér hvað gerist þegar hún hættir en hún starfaði áður í auglýsingabransanum þar sem hún tók til svipaðra aðgerða og þar fór allt í sama horf um leið og hún hætti.

Ég held að aðkoma stjórnvalda þurfi að vera mjög skýr og veita kvikmyndasjóði aðhald burt sé frá því hvaða stjórnandi er við völd. Ég held að við þurfum að vera með fimm ára markmið eins og sænski sjóðurinn og á meðan eru allir á tánum og á þessu fimm tímabili þarf að rannsaka áhrif aðgerðanna og hegðun kvikmyndbransans árlega og veita ráðgjöfum fræðslu.

Miðað við framgang mála hingað til mun taka okkur 600 ár að ná jafnrétti, við erum ekki lengra komin en það. Við erum öll sammála um að núverandi staða er óþolandi og hvorki bransanum né landinu til sóma. Okkar skoðun er sú að ástandið lagist seint og illa, NEMA það sé farið í sértækar aðgerðir hjá Kvikmyndamiðsttöð. Það sendir út nauðsynleg skilaboð til áhorfenda, framleiðslufyrirtækja, sjónvarpsstöðva, verðandi kvikmyndagerðarkvenna, allra.

Annað er samþykki á óbreyttri stöðu.

Þegar uppi er staðið viljum við vera stolt af íslenskri kvikmyndagerð, að hún sé framsækin, opin og margtæk. Það er okkur öllum í hag. Það eru okkur öllum í hag að konur jafnt sem karlar segi sögur, segi sögur saman, vinni saman sem jafningjar. Þannig segjum við betri sögur, búum til betri persónur og gerum betra bíó. Þegar uppi er staðið, er það ekki það sem við viljum öll.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR