Kvikmyndamiðstöð hleypir af stað tilraunaverkefni í sjálfbærri kvikmyndagerð

Í samræmi við markmið Kvikmyndastefnu 2020-2030, um aukna sjálfbærni í kvikmyndagerð, hleypir Kvikmyndamiðstöð Íslands af stokkunum tilraunaverkefni til eins árs, þar sem markmiðið er að safna gögnum um kolefnislosun við framleiðslu á völdum verkefnum.

Kvikmyndamiðstöð Íslands hefur af því tilefni gengið til samstarfs við Green Producers Club um notkun á kolefnisreiknivél, og undirrituðu Gísli Snær Erlingsson, forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar, og Mads Astrup Rønning, stofnandi Green Producers Club, samstarfssamning þess efnis í Grósku hugmyndahúsi í Reykjavík í gær, 9. apríl.

Brita Synnøve Holt Vistnes verkefnastjóri hjá Green Producers Club, Anton Máni Svansson formaður SÍK, Anna María Karlsdóttir ráðgjafi hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands, Karólína Stefánsdóttir frá ráðgjafafyrirtækinu USE SEE, Gísli Snær Erlingsson forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar og Mads Astrup Rønning stofnandi GPC.

Kolefnisreiknivélin nefnist Green Producers Tool (GPT), sem notuð er í miklum mæli á Norðurlöndum. Tekið hefur verið tillit til svæðisbundinna þátta í útreikningum á kolefnislosun og er verkefninu ætlað að varpa ljósi á kolefnisspor þeirra sem framleiða kvikmyndir á Íslandi og benda á leiðir til að draga úr kolefnissporinu.

Notkun á reiknivélinni er bundin við aðild að Green Producers Club.

Kjósi framleiðendur verkefna, sem hafa hlotið hafa framleiðslustyrk eða vilyrði um framleiðslustyrk, og fara af stað í tökur á tímabilinu 15. Aapríl 2024 – 1. maí 2025, að nota reiknivélina í sinni starfsemi, mun KMÍ styrkja þá sem nemur aðildargjaldi að klúbbnum til eins árs.

Aðildargjöld miðast við umfang verkefna, sjá eftirfarandi dæmi:

< 100.000.000, -ISK
Aðildargjald: EUR 1.000
100.000.000 – 400.000.000, -ISK
Aðildargjald: EUR 2.000
> 400.000.000, -ISK
Aðildargjald: EUR 4.000
Framleiðendum gefst hér einstakt tækifæri til að tileinka sér umhverfisvæna starfshætti, kjósi þeir að nýta sér þessa reiknivél. KMÍ að sama skapi, með þátttöku við áframhaldandi þróun reiknivélarinnar fyrir séríslenskar aðstæður.

Íslenskt útibú Green Producers Club hefur verið sett á laggirnar og hafa til dæmis Samtök íslenskra kvikmyndaframleiðanda (SÍK) þegar gerst meðlimur að klúbbnum. Munu aðildarfélög SÍK njóta afsláttarkjara á aðildargjöldum.

Kjósi framleiðendur að nota aðrar sambærilegar reiknivélar, mun KMÍ einnig styrkja hvert verkefni, sem nemur notkunargjaldi á þeim vélum, á þessu tímabili.

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR