Vefritið Cinema Scandinavia, sem er ástralskt að uppruna og helgað norrænum kvikmyndum og sjónvarpsefni, tínir til nokkrar norrænar hrollvekjur í tilefni Hrekkjavöku. Meðal myndanna sem vefurinn nefnir eru Frost Reynis Lyngdal og Reykjavik Whale Watching Massacre Júlíusar Kemp.
Ýmsir hafa tjáð sig um RÚV-skýrsluna svokölluðu sem birt var í dag. Meðal þeirra sem tjá sig eru Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra, Mörður Árnason varaþingmaður, Egill Helgason í Silfur-dálki sínum, Orðið á götunni, ritstjórn Kjarnans og þingmennirnir Róbert Marshall og Vigdís Hauksdóttir.
RÚV hefur birt viðbrögð við RÚV-skýrslunni á vef sínum. Þar segir meðal annars að skýrslan staðfesti að RÚV ohf. hafi verið undirfjármagnað frá stofnun eins og stjórnendur RÚV hafi ítrekað bent á. Skýrslan sýni einnig að jákvæður viðsnúningur hafi orðið í rekstrinum á undanförnum átján mánuðum.
Skýrsla starfshóps sem falið var að skoða og greina rekstur Ríkisútvarpsins var birt í dag. Þar kemur meðal annars fram að rekstur RÚV ohf. frá stofnun félagsins árið 2007 hafi ekki verið sjálfbær. Gjöld hafa verið meiri en tekjur á tímabilinu í heild og hefur hallarekstur verið fjármagnaður með auknu ríkisframlagi, lántökum og frestun afborgana lána.
Tökur á mynd Óskars Þórs Axelssonar, Ég man þig, hefjast í næsta mánuði á Hesteyri á Vestfjörðum. Byggt er á samnenfdri skáldsögu Yrsu Sigurðardóttur. Ágústa Eva Erlendsdóttir og Þorvaldur Davíð Kristjánsson fara með aðalhlutverkin. Zik Zak framleiðir ásamt Sigurjóni Sighvatssyni.
Skjaldborgarbíó á Patreksfirði, sem verið hefur vettvangur samnefndrar hátíðar íslenskra heimildamynda í mörg ár, safnar nú fyrir stafrænum sýningarbúnaði (DCP) á Karolina Fund hópfjármögnunarsíðunni.
Stuttmynd Guðmundar Arnars Guðmundssonar, Hvalfjörður, heldur áfram að sópa til sín verðlaunum og nálgast þau nú þriðja tuginn. Myndin hlaut um síðustu helgi Val del Omar verðlaunin fyrir bestu alþjóðlegu stuttmynd á Festival Internacional de Jóvenes Realizadores (FIJR) sem fram fór í Granada á Spáni. Hún var einnig sömu helgi valin besta stuttmyndin á Festival de Cine de Santander í Cantabria í norðurhluta Spánar.
Fúsi Dags Kára Péturssonar hlaut kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2015 sem afhent voru í Hörpu í kvöld. Þetta er annað árið í röð sem íslensk kvikmynd vinnur þessi verðlaun.
UPPFÆRT: Því miður er Bille August leikstjóri fastur við störf í Kína og verður því fjarrri góðu gamni í kvöld. Í staðinn mun framleiðandi myndarinnar, Jesper Morthost, svara spurningum eftir sýninguna. Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs verða veitt á morgun þriðjudag í Hörpu, en Stille hjerte er tilnefnd til verðlaunanna. Sýningin er semsagt í kvöld, mánudagskvöld, 26. október kl. 20. Frítt er á sýninguna.
Hrútar Gríms Hákonarsonar hlaut í gærkvöldi aðalverðlaunin á kvikmyndahátíðinni Tofifest í Póllandi. Þetta eru níundu verðlaun myndarinnar á alþjóðlegum vettvangi.
Variety fjallar um velgengni íslenskra kvikmynda á árinu undir fyrirsögninni "'Íslenskir leikstjórar setja mark sitt á alþjóðlega kvikmyndagerð." Í greininni, sem fjallar að mestu um nýafstaðna RIFF hátíð er sú spurning sett fram hvort Íslendingar muni halda áfram að senda frá sér sífellt betri myndir.
Þrestir Rúnars Rúnarssonar hlaut Silver Hugo verðlaunin í flokki nýrra leikstjóra á Chicago International Film Festival í gærkvöldi. Hátíðin er elsta og ein virtasta kvikmyndahátíðin í Bandaríkjunum.
Almennar sýningar hefjast í kvöld á verðlaunaheimildamynd Höllu Kristínar Einarsdóttur, Hvað er svona merkilegt við það? sem fjallar um kvennaframboðin sem birtust á stjórnmálasviðinu á níunda áratug síðustu aldar í kjölfar hinna róttæku kvennabaráttu áratugarins á undan.
"Þrestir er þroskasaga ungs manns, sem er að miklu leyti staðnaður sem barn, og myndin skoðar tímabil í lífi hans þar sem hann neyðist til að horfast í augu við fullorðinsárin, sama hversu glötuð þau kunna að virðast," segir Gunnar Theódór Eggertsson meðal annars í Víðsjá Rásar 1 um mynd Rúnars Rúnarssonar.
Lionsgate, framleiðandi kvikmyndaseríunnar The Hunger Games, hefur tilnefnt fimm unglingsstúlkur úr Reykjavík til úrslita í stuttmyndakeppni í Los Angeles í Bandaríkjunum. Keppt er í myndrænni túlkun á sagnaheiminum.
Heimildamynd Ólafs Rögnvaldssonar og Kolfinnu Baldvinsdóttur, Þeir sem þora, hlaut í gær áhorfendaverðlaunin á EstDocs, sem haldin er í Toronto en tileinkuð myndum frá Eistlandi.