Fáar konur taka þátt í gerð þeirra fjögurra kvikmynda sem teknar verða á Íslandi í sumar með styrkjum frá Kvikmyndamiðstöð Íslands. Í samtali við RÚV segir formaður WIFT (konur í kvikmyndum og sjónvarpi) það þjóðfélagsmein að konur geti ekki speglað sig í íslenskum kvikmyndum.
Afinn í leikstjórn Bjarna Hauks Þórssonar verður frumsýnd 25. september. Sigurður Sigurjónsson fer með aðalhlutverkið en í öðrum helstu hlutverkum eru Sigrún Edda Björnsdóttir, Þorsteinn Bachmann, Steindi Jr. og Tinna Sverrisdóttir.
Tökur á bíómyndinni Bakk í leikstjórn Gunnars Hanssonar og Davíðs Óskars Ólafssonar, hefjast í ágústbyrjun og standa fram í september. Myndin segir frá tveimur æskuvinum sem ákveða að bakka hringinn í kringum Ísland til styrktar langveikum börnum.
Útsendingar nýrrar sjónvarpsstöðvar, iSTV, hefjast í kvöld. Stöðin sýnir eingöngu íslenskt efni. Hægt verður að horfa á stöðina gegnum myndlykla Símans og Vodafone til að byrja með og fljótlega á netinu.
"Kraftmikil, launfyndin og manneskjuleg mynd," segir Ásgeir H. Ingólfsson meðal annars í umsögn sinni um myndina sem fengið hefur góðar móttökur á hátíðinni.
Mark Adams hjá Screen skrifar um París norðursins eftir Hafstein Gunnar Sigurðsson sem heimsfrumsýnd var í gærkvöldi á Karlovy Vary kvikmyndahátíðinni í Tékklandi. Adams er hæstánægður með myndina og segir hana koma sterklega til greina í verðlaunasæti á hátíðinni.
Fjórða Sveppamyndin verður frumsýnd í Sambíóunum í október næstkomandi. Tökur hefjast 21. júlí og eru sömu aðalleikarar og í flestum fyrri myndum um ævintýri Sveppa, þ.e. Sverrir Þór Sverrisson, Guðjón Davíð Karlsson og Vilhelm Anton Jónsson.