spot_img

Menning í pulsupökkum

Símon Birgisson leggur útaf umræðu um aðgengi almennings að löglega fengnu menningarefni á Eyjunni og segir meðal annars:

Öflugasta „stafræna efnissveitan“ með íslenskt efni í dag er vefurinn ruv.is. Og Sarpurinn svokallaði. Rúv stendur sig vel að vernda íslensk menningarverðmæti. En því miður virðist verndunarstefnan oft felast í því að almenningur hafi ekki aðgang að þessum sömu menningarverðmætum. Þegar opna á safnið er það gert við hátíðlega athöfn, ákveðnir molar handvaldir og sýndir í sjónvarpinu en eftir sem áður er bróðurpartur verðmætanna falinn í skúffu.

Í staðinn hafa sjálfstæðir aðilar, einstaklingar á Youtube til dæmis, komið miklum menningarverðmætum á framfæri við almenning. Það er frábært að geta horft á Hemma Gunn þættina á Youtube, gömul tónlistarmyndbönd, grínþætti, áramótaskaup eða fréttatíma frá 1990. Þarna eru einstaklingar að störfum sem hafa fyrir því að færa gömlu VHS myndböndin sín á stafrænt form og hlaða upp á Youtube.

Þegar einn af þessum aðilum Humperdinkus hlóð upp talsverðu magni af íslenskum kvikmyndum á dögunum komst það í fréttirnar. Allt í einu hafði fólk ókeypis aðgang að myndum á borð við Karlakórinn Heklu og Sódóma Reykjavík. Kvikmyndagerðarmenn mótmæltu og myndirnar voru teknar út.

Í þessu tiltekna dæmi tapa allir. Bæði kvikmyndagerðarmenn og almenningur. Það er kvikmyndagerðarmönnum til bóta að myndir þeirra séu aðgengilegar á netinu. Og það eru hagsmunir almennings að geta séð gamlar íslenskar kvikmyndir, að nemar hafi auðvelt aðgengi að menningarsögunni, kennarar og fræðimenn.

Það má ekki gleyma því að einusinni fylgdu margar þessarar sömu mynda ókeypis með SS-pulsupökkum í Bónus. Íslensk kvikmynd var semsagt jafn verðmæt og nokkrar pylsur. En í dag má sama mynd ekki fara á Youtube og alls ekki vera opin almenningi á Rúv.is.

Því miður eru það höfundarréttarmál sem eru að drepa listir en ekki niðurhal almennings á menningarverðmæt. Aukið niðurhal síðustu ár er einfaldlega dæmi um gríðarlegan áhuga fólks á menningu og að hefðbundnir fjölmiðlar og efnisveitur hafa ekki náð tökum á nýrri tækni.

Hópurinn á vegum menntamálaráðuneytisins hittir naglann á höfuðið. Það þarf að auka framboð á íslensku menningarefni með stafrænum hætti. Og ef Rúv gerir það ekki eða aðrar opinberar efnisveitur þá verða notendur að treysta á sjálfstæða aðila á Youtube eða deilisíður. Nema Sláturfélag Suðurlands finni leið til að miðla íslenskum kvikmyndum stafrænt með hverjum keyptum pylsupakka. Þá færi ég að grilla.

Sjá nánar hér: Menning í pulsupökkum « Símon Birgisson.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR