Benedikt Erlingsson um DÖNSKU KONUNA: Hörmungarklám og popp

Trine Dyr­holm mun fara með titil­hlut­verkið í sjón­varps­serí­unni Danska kon­an í leik­stjórn Bene­dikts Erl­ings­son­ar, sem hann skrifaði í sam­vinnu við Ólaf Egil Eg­ils­son. „Það stefn­ir í að upp­tök­ur geti haf­ist í Reykja­vík næsta vor á Dönsku kon­unni sem er sex þátta sjón­varps­sería sem RÚV og DR koma að ásamt öðrum,“ segir Benedikt í samtali við Morgunblaðið.

Á vef mbl.is segir:

Líkt og tit­ill­inn gef­ur til kynna fjall­ar serí­an um danska konu sem flyt­ur til Íslands og tek­ur yfir fjöl­býl­is­hús þar sem hún svífst einskis til að kenna ná­grönn­um sín­um skandi­nav­íska hugs­un. Ég vil taka það sér­stak­lega fram að þetta er ekki upp­gjör við hjóna­band mitt við mína ynd­is­legu dönsku fyrr­ver­andi eig­in­konu,“ seg­ir Bene­dikt, sem um ára­bil var gift­ur leik­húslista­kon­unni Char­lotte Bøving.

„Ég skrifaði hlut­verkið fyr­ir hana, en á end­an­um sagði hún sig frá verk­efn­inu. Í henn­ar stað kem­ur Trine Dyr­holm, sem er mjög spennt fyr­ir þessu verk­efni. Hún hafði séð Kona fer í stríð og kveikti strax á Dönsku kon­unni þegar hún las hand­ritið,“ seg­ir Bene­dikt og lýs­ir serí­unni sem leyniþjón­ustu­drama.

„Þarna lýst­ur sam­an dönsku, sænsku og ís­lensku leyniþjón­ust­unni. Þetta er mik­il stúd­ía á öllu því fal­lega og góða sem við höf­um lært af Dön­um og einnig því sem við ætt­um að læra en höf­um kannski átt erfitt með, eins og sam­vinnu, samá­byrgð og því að búa sér til stjórn­ar­skrá og setja sér regl­ur og fara eft­ir þeim – sem okk­ur finnst óþolandi.

Danska kon­an kann sinn Kierkega­ard, Grund­tvig og Brand­es og fylg­ir þess­um dönsku hug­sjón­um, en vandi henn­ar er að hún svífst einskis þar sem hún trú­ir því að til­gang­ur­inn helgi meðalið,“ seg­ir Bene­dikt og tek­ur fram að hann muni í vænt­an­legri sjón­varps­seríu bjóða upp á spennu, ást­ir, kyn­líf, dauða, of­beldi og hörm­ung­arklám.

„Og ekki má gleyma mús­ík­inni. Ég lofa flott­um pop­p­lög­um frá átt­unda ára­tugn­um – auðvitað dönsk­um lög­um,“ seg­ir Bene­dikt.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR