Gunnar Theodór Eggertsson fjallaði í kvikmyndapistli í Víðsjá, fimmtudaginn 26. febrúar, um Two Men in Town eftir Rachid Bouchareb heiðursgest hátíðarinnar og Im Keller eftir Ulrich Seidl en báðar eru þær sýndar á Stockfish-kvikmyndahátíðinni í Bíó Paradís sem stendur yfir til 1. mars.
Stockfish hátíðin hefur staðið fyrir sérstökum hátíðarsýningum á myndum sem Sigurður Sverrir Pálsson hefur kvikmyndað. Í fyrrakvöld var Tár úr steini sýnd að Sigurði Sverri viðstöddum og í gærkvöldi Land og synir. Við það tækifæri veitti Félag íslenskra kvikmyndatökustjóra (ÍKS) Sigurði Sverri sérstaka viðurkenningu fyrir störf sín við íslenska kvikmyndagerð. Í kvöld (fimmtudagskvöld) verður svo sýnd kvikmyndin Kaldaljós og mun Sigurður Sverrir svara spurningum gesta á eftir sýningu.
Laufey Guðjónsdóttir framkvæmdastjóri Kvikmyndamiðstöðvar Íslands fer yfir stöðuna í íslenskri kvikmyndagerð í spjalli við vef Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins.
Kjartan Þór Þórðarson er í viðtali við vef Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðins í tilefni stofnunar Sagafilm Nordic í Stokkhólmi á síðasta ári. Kjartan segir stefnuna vera að stækka markaðinn með samstarfi við alþjóðlega framleiðendur.
Gunnar Theodór Eggertsson fjallar um kvikmyndirnar Tangerines, Adieu au langage og What We Do In The Shadows, sem allar eru sýndar á kvikmyndahátíðinni Stockfish sem nú stendur yfir í Bíó Paradís.