Héraðið eftir Grím Hákonarson hlaut nýverið 518.000 evru styrk (rúmlega 70 milljónir króna) frá Creative Europe MEDIA til dreifingar í 28 Evrópulöndum.
Tökum er lokið á þáttaröðinni Ráðherrann. Þar leikur Ólafur Darri Ólafsson forsætisráðherra sem glímir við geðhvörf. Fjallað var um gerð þáttanna í Menningunni á RÚV og rætt við aðstandendur.
Gamanmyndahátíð Flateyrar verður haldin í fjórða sinn dagana 19.-22. september. Þar verða sýndar gamanmyndir frá öllum heimshornum auk þess sem boðið verður upp á leiksýningar, uppistand, tónleika og matarveislur. Einnig gefst tækifæri til að gera gamanmynd á 48 stundum og sýna hana á hátíðinni.
Þáttaröðin Flateyjargátan, sem framleidd er af Reykjavík Films og Sagafilm, er tilnefnd til evrópsku ljósvakaverðlaunanna Prix Europa fyrir besta leikna sjónvarpsefnið.
Heimildamyndin Kaf eftir Elínu Hansdóttur, Önnu Rún Tryggvadóttur og Hönnu Björk Valsdóttur verður frumsýnd 5. september í Bíó Paradís. Í myndinni er fylgst með hvítvoðungum stálpast og þroskast og því hvernig foreldrar kynnast börnum sínum í gegnum upplifun í vatni.
Markelsbræður, Þorkell Harðarson og Örn Marinó Arnarson, tóku upp sína fyrstu leiknu bíómynd í sumar og kallast hún Síðasta veiðiferðin. Áætlað er að frumsýna myndina á fyrstu mánuðum næsta árs.
Katrín Björgvinsdóttir útskrifaðist úr leikstjórnarnámi frá Danska kvikmyndaskólanum í vor og frumsýnir lokamynd sína, Dronning Ingrid, í Bíó Paradís á föstudag.
Hvítur, hvítur dagur eftir Hlyn Pálmason er framlag Íslands til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs. Tilkynnt var um tilnefningarnar á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Haugasundi í gær. Vinningshafinn verður tilkynntur við hátíðlega athöfn 29. október í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Stokkhólmi.
Evrópska kvikmyndaakademían hefur tilkynnt um þær 46 evrópsku bíómyndir sem verða í forvali til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna. Hvítur, hvítur dagur eftir Hlyn Pálmason er þeirra á meðal.