„Bergmál“ vann til verðlauna í Locarno

Live Hide framleiðandi, Rúnar Rúnarsson leikstjóri og Lilja Snorradóttir framleiðandi taka á móti verðlaunum fyrir Bergmál í Locarno.

Bergmál eftir Rúnar Rúnarsson hlaut í dag aðalverðlaun dómnefndar unga fólksins á kvikmyndahátíðinni í Locarno í Sviss.

Í ræðu sinni þakkaði Rúnar dómnefndinni traustið og sagðist einstaklega stoltur af að taka við þessum verðlaunum fyrir hönd þeirra hundruði einstaklinga sem komu að því að gera kvikmyndina Bergmál.

Síðan Bergmál var heimsfrumsýnd síðastliðinn sunnudag við standandi lófaklapp í 3000 manna kvikmyndahúsinu FEVI í Locarno, hafa kvikmyndagagnrýnendur og áhorfendur lofað myndina. Ákveðið var að bæta við sýningum á hátíðinni vegna mikillar aðsóknar sem og fjölda áskorana frá áhorfendum.

“Nógur var heiðurinn fyrir Bergmál að hafa komist í gegnum nálaraugað við að vera valin á þessa mikilvægu hátíð en nú er maður hálf orðlaus, okkur hefði aldrei þorað að dreyma um þvílíka byrjun fyrir myndina okkar,” segir Rúnar Rúnarsson leikstjóri Bergmáls.

Síðan stuttmynd Rúnars, Síðasti bærinn, var tilnefnd til Óskarsverðlauna 2006 hafa kvikmyndir Rúnars ferðast um helstu hátíðir heimsins og unnið yfir 130 alþjóðleg kvikmyndaverðlaun.

“Íslensk kvikmyndagerð er orðin þekkt stærð í heiminum og er þessi vegferð Bergmáls enn önnur staðfesting á gæðum og ótrúlegum árangri íslensks kvikmyndargerðarfólks,” bætir Rúnar við.

“Bergmál er listrænt djörf en á sama tíma einstaklega falleg og manneskjuleg mynd sem sameinar svo margt. Húmor, sorg og fegurð. Íslensk Jólamynd” sagði Lilja Snorradóttir framleiðandi.

Sena sér um dreifingu á Íslandi, en Bergmál fer í almennar sýningar í nóvember.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR