spot_img

Þessar bíómyndir og þáttaraðir eru væntanlegar 2024

Von er á að minnsta kosti 11 íslenskum bíómyndum og 11 þáttaröðum á árinu 2024. Tekið skal fram að mögulegt er að frumsýningartími einhverra þessara verka færist yfir á næsta ár og í mörgum tilfellum liggur ekki fyrir hvenær verkin koma út innan ársins. Þá er einnig mögulegt að fleiri verk bætist við.

Átta bíómyndir og sex þáttaraðir komu út í fyrra. Eftir sem áður er snúnara að giska á heimildamyndirnar og þær því ekki taldar upp hér.

Bíómyndirnar

FULLT HÚS: Gamanmynd um kammerhljómsveit í fjárhagskröggum. Staðan er svo slæm að hljómsveitin er tilbúin að fremja hvaða svívirðilega glæp sem er til að halda góða tónleika. Sigurjón Kjartansson leikstýrir og skrifar handrit. Þorkell Harðarson og Örn Marinó Arnarson framleiða fyrir Markell Productions. Með helstu hlutverk fara Hilmir Snær Guðnason, Helga Braga Jónsdóttir, Ilmur Kristjánsdóttir, Halldór Gylfason, Guðjón Davíð Karlsson, Vivian Ólafsdóttir, Hannes Óli Ágústsson, Jón Gnarr, Eggert Þorleifsson, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Pétur Magnússon, Unnur Ösp Stefánsdóttir, Sverrir Þór Sverrisson og Edda Björg Eyjólfsdóttir. Væntanleg í janúar.

NATATORIUM: Ung stúlka dvelur hjá ömmu sinni og afa í borginni á meðan hún þreytir inntökupróf í listhóp. Þegar fjölskyldan, sem hefur ekki hist í langan tíma, kemur saman til að fagna inntöku hennar í hópinn koma ljót fjölskylduleyndarmál upp á yfirborðið og kvöldið endar með hræðilegum harmleik. Helena Stefánsdóttir leikstýrir og skrifar handrit. Sunna Guðnadóttir, Heather Millard og Julia Elomäki framleiða fyrir Bjartsýn Films, Silfurskjá og Tekele Productions. Væntanleg 23. febrúar.

EINSKONAR ÁST: Emilý er „content creator“ á þrítugsaldri. Þegar kærasta hennar segist vilja flytja til Íslands og loka opnu sambandi þeirra verður Emilý að horfast í augu við þann kvíða sem býr innra með henni fyrir framtíðina. Samtímis reynir hún að styðja táningsvinnufélaga sinn og leysa úr erfiðleikum sínum. Sigurður Anton Friðþjófsson leikstýrir og skrifar handrit. Júlíus Kemp framleiðir fyrir Kvikmyndafélag Íslands. Væntanleg 19. apríl.

Helga Braga Jónsdóttir og Tanja Björk Ómarsdóttir fara með aðalhlutverkin í Topp tíu möst. Til hægri: Ólöf Birna Torfadóttir | Mynd: Gunnlöð.

TOPP 10 MÖST: Lífsleið miðaldra kona og hortugt flóttafangakvendi ferðast þvert yfir landið á vit ævintýranna meðan þær enn geta. Ólöf Birna Torfadóttir leikstýrir og skrifar handrit. Óskar Hinrik Long Jóhannsson framleiðir fyrir Myrkvamyndir. Meðframleiðendur eru Júlíus Kemp og Ingvar Þórðarson fyrir Kisa. Birta Rán Björgvinsdóttir stjórnar myndatöku, Aleksandr Koluder gerir búninga og Jelena Schally gerir leikmynd. Helga Braga Jónsdóttir og Tanja Björk Ómarsdóttir fara með aðalhlutverk. Væntanleg 17. maí.

LJÓSVÍKINGAR: Þegar tveir aldagamlir vinir fá óvænt tækifæri til að hafa fiskveitingastaðinn sinn opinn árið um kring, kemur annar þeirra út úr skápnum sem trans kona. Snævar Sölvason leikstýrir og skrifar handrit. Júlíus Kemp og Ingvar Þórðarson framleiða fyrir Kvikmyndafélag Íslands. Meðframleiðendur eru Jukka Helle, Markus Selin, Karla Stojáková og Sophie Mahl. Birgit Gudjonsdottir stjórnar myndatöku og tónlist gerir Örn Elías Guðmundsson (Mugison). Með aðalhlutverk fara Björn Jörundur Friðbjörnsson, Arna Magnea Danks, Sólveig Arnarsdóttir og Ólafía Hrönn Jónsdóttir. Arndís Ey gerir búninga og Gus Ólafsson vinnur leikmynd. Væntanleg 27. september.

ANORGASMIA: Tveir ferðalangar, Sam og Naomi, sem hafa aldrei sést áður, festast á Íslandi þegar eldgos stöðvar öll flug. Þau stela bíl til að komast að gosinu og halda inn á hálendið. Þau komast aldrei að gosinu en ferðalagið veldur því að líf þeirra beggja taka nýja stefnu. Jón E. Gústafsson leikstýrir og skrifar handrit ásamt Karolina Lewicka, sem einnig er framleiðandi fyrir Artio. Væntanleg á árinu.

DIMMALIMM: Eva hefur eytt síðustu tíu árum á geðsjúkrahúsi. Nú er hún útskrifuð og þarf að sigrast á bæði ótta sínum og geðveiki svo hún geti aftur tengst dóttur sinni Lulu. Mikael Torfason leikstýrir og skrifar handrit. Framleiðendur eru Arnar Benjamín Kristjánsson, Mikael Torfason og Þórir Snær Sigurjónsson fyrir Obbosí og Zik Zak. Meðframleiðendur eru Freyr Árnason, Kári Steinarsson og Ragnheiður Erlingsdóttir. Mikael myndar sjálfur. Elísabet Ronaldsdóttir og Lína Thoroddsen klippa. Tónlist gerir Gabriel Cazes. Með aðalhlutverk fara Stefanía Berndsen (Elma Stefanía Ágústsdóttir), Ísold Mikaelsdóttir, Ída Mikaelsdóttir og Páll Þór Jónsson. Kári Steinarsson sér um hljóðhönnun og búningahöfundur er Stefanía Berndsen. Væntanleg á árinu.

LJÓSBROT: Hinn fyrsti missir og ferðalagið sem því fylgir. Rúnar Rúnarsson skrifar handrit og leikstýrir. Framleiðendur eru Heather Millard fyrir Rúnar Rúnarsson Compass Films og Halibut. Meðframleiðendur eru Raymond van der Kaaij, Igor A.Nolan, Mike Downey, Xenia Maingot og Sarah Chazelle. Elín Hall fer með aðalhlutverk. Sophia Olsson stjórnar kvikmyndatöku, Andri Steinn Guðjónsson klippir og tónlist gerir Kjartan Sveinsson. Helga Rós V. Hannam er höfundur búninga og leikmynd gerir Hulda Helgadóttir. Væntanleg á árinu.

Egill Ólafsson fer með aðalhlutverkið í Snertingu sem meðal annars er tekin upp í Japan | Mynd: Baltasar Breki Samper.

SNERTING: Þegar sígur á seinni hlutann, leggur Kristófer upp í ferð án fyrirheits, þvert yfir hnöttinn, í leit að svörum við áleitnum spurningum og að ástinni sem rann honum úr greipum, en sem hann bar þó alltaf í hjarta sér. Við förum með honum á vit minninganna og til Japans, þar sem svörin eru að finna. Baltasar Kormákur leikstýrir og skrifar handrit ásamt Ólafi Jóhanni Ólafssyni, en byggt er á bók hins síðarnefnda. Agnes Johansen, Baltasar Kormákur og Mike Goodridge framleiða fyrir RVK Studios og Good Chaos. Frumsýning er óstaðfest.

MISSIR: Hann sefur aldrei. Hann vakir ekki heldur. Hann sér sjálfan sig liggja í rúminu milli svefns og vöku. Vatnið suðar í katlinum. Ari Alexander Ergis Magnússon leikstýrir og skrifar handrit sem byggt er á bók Guðbergs Bergssonar. Framleiðendur eru Friðrik Þór Friðriksson, Guðrún Edda Þórhannesdóttir, Gísli Hauksson, Egil Ødegård og Kristian Van der Heyden fyrir Íslensku kvikmyndasamsteypuna, Evil Doghouse Productions, Harald House og Spellbound Productions. Frumsýning er óstaðfest.

FJALLIÐ: Rafvirkinn Atli býr í Hafnarfirði með konu sinni Maríu, áköfum stjörnuskoðara, og nítján ára dóttur þeirra, tónlistakonunni Önnu. Lífið gengur sinn vanagang og þau stússast hvert í sínu þar til hörmulegt slys setur líf þeirra á hvolf og neyðir þau til að finna nýja leið framávið. Ásthildur Kjartansdóttir skrifar handrit og leikstýrir. Anna G. Magnúsdóttir framleiðir fyrir Film Partner Iceland ehf og Rebella Filmworks ehf. Meðframleiðandi er  Anders Granström. Með aðahlutverk fara Björn Hlynur Haraldsson, Ísadóra Bjarkardóttir Barney, Sólveig Guðmundsdóttir, Þröstur Leó Gunnarsson, Anna Svava Knútsdóttir, Vilberg Andri Pálsson, Björn Stefánsson og Bergur Ebbi Benediktsson. Bergsteinn Björgúlfsson stýrir kvikmyndatöku og Steffí Thors klippir. Gunnar Árnason sér um hljóðhönnun. Myndvinnsla & VFX er í höndum Bjarka Guðjónssonar hjá Trickshot. Leikmyndahönnuður er Sólrún Ósk Jónsdóttir og búningahöfundur Rebekka Jónsdóttir. Væntanleg á árinu.

Þáttaraðirnar

Væntanlegar eru að minnsta kosti 11 þáttaraðir á árinu (sex í fyrra). Sex eru nýjar, fimm snúa aftur. Sérstaka athygli vekur að Sjónvarp Símans stendur að baki sex þessara þáttaraða. RÚV er með þrjár og Stöð 2 tvær.

HÚSÓ: Hekla hefur verið á meðferðarstofnunum meira og minna síðan á unglingsaldri. Hún innritar sig í Húsmæðraskólann til að fá dóttur sína aftur til sín. En mun nám í prjónaskap, bakstri og hreingerningum gera hana hæfa sem móður? Arnór Pálmi leikstýrir og skrifar einnig handrit ásamt Jóhönnu Friðrikku Sæmundsdóttur. Glassriver framleiðir. Með helstu hlutverk fara Ebba Katrín Finnsdóttir, Edda Björgvinsdóttir, Katla Njálsdóttir, Sólveig Guðmundsdóttir, Tinna Gunnlaugsdóttir og Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir. Þættirnir, sex talsins, hefja göngu sína 1. janúar á RÚV.

GESTIR: Einnar nætur gaman fer úrskeiðis þegar þátttakendurnir átta sig á því morguninn eftir að líkamar þeirra hafa víxlast. Ásgeir Sigurðsson leikstýrir og skrifar handrit. Hann leikur einnig aðalhlutverk ásamt Diljá Pétursdóttur. Ásgeir er einnig einn framleiðenda ásamt Halldóri Ísak Ólafssyni, Aron Inga Davíðssyni og Antoni Karli Kristensen, sem einnig er tökumaður þáttanna. Þættirnir eru væntanlegir í Sjónvarp Símans í febrúar.

ÆVINTÝRI TULIPOP 3: Um litríkan vinahóp sem býr á töfraeyjunni Tulipop. Sigvaldi J. Kárason leikstýrir. Signý Kolbeinsdóttir, Sara Daddy og Kate Scott skrifa handrit. Framleiðandi er Helga Árnadóttir fyrir Tulipop Studios. Sigvaldi J. Kárason og Signý Kolbeinsdóttir stýra myndatöku og Dagbjört Lilja Kristjánsdóttir annast klippingu. Tónlist gera Gísli Galdur Þorgeirsson og Máni Svavarsson.Með aðalhlutverk fara Hallgerður Júlía Rúnarsdóttir Hafstein, Kolbrún Helga Friðriksdóttir, Jóhann Sigurðsson, Stormur Björnsson, Dagur Rafn Atlason og Sigurjón Kjartansson. Gunnar Árnason sér um hljóðhönnun, Signý Kolbeinsdóttir gerir búninga og leikmynd. Væntanleg í Sjónvarp Símans á árinu.

SVÖRTU SANDAR 2: Fimmtán mánuðir eru liðnir frá harmleik Svörtu Sanda og áfallið liggur enn þungt á Anítu þar sem hún reynir að vera til staðar fyrir nýfædda dóttur sína. Þegar eldri kona finnst látin koma í ljós atburðir úr fortíð fjölskyldu Anítu sem splundra öllum hennar vonum um eðlilegt líf. Leikstjórar eru Álfheiður Kjartansdóttir, Erlendur Sveinsson og Baldvin Z sem einnig skrifar handrit ásamt Aldís Amah Hamilton, Elías Kofoed Hansen og Ragnari Jónssyni. Framleiðendur eru Arnbjörg Hafliðadóttir, Andri Ómarsson, Andri Óttarsson og Baldvin Z fyrir Glassriver. Meðframleiðendur eru Jan De Clercq, Samuel Bruyneel and Koen Fransen. Þættirnir eru væntanlegir á Stöð 2 á árinu.

SPOR: Ástarsöguþýðandinn Magni er nýkominn úr áfengismeðferð. Fyrrum eiginkona hans, sem er lögreglukona, hringir og biður hann um aðstoð við lausn á morðmáli en fórnarlambið tengist samtökum óvirkra alkóhólista. Smám saman fjölgar líkunum, morðin eru kerfisbundin og hrottaleg og alltaf er einhver einkennileg tenging við samtökin. Fyrr en varir þarf Magni ekki aðeins að glíma við eigin breiskleika heldur fer fólk einnig að týna tölunni í kringum hann – og böndin að berast að honum sjálfum. Þórður Pálsson leikstýrir. Glassriver framleiðir. Þættirnir eru byggðir á samnefndri bók Lilju Sigurðardóttur. Væntanlegir í Sjónvarp Símans á árinu.

RÁÐHERRANN 2: Þegar Benedikt snýr aftur í stjórnmál eftir leyfi vegna geðhvarfa, mætir hann fordómum samfélags sem tortryggir allar hans hugmyndir. Á meðan einkalíf þeirra Steinunnar molnar undan þunga sjúkdómsins, eru öfl innan hans eigin flokks sem nýta heilsuveilu hans til að bola honum frá. Arnór Pálmi Arnarson og Katrín Björgvinsdóttir leikstýra. Handrit skrifa Jónas Margeir Ingólfsson og Birkir Blær Ingólfsson. Framleiðendur eru Hlín Jóhannesdóttir, Erlingur Jack Guðmundsson, Hilmar Sigurðsson, Kjartan Þór Þórðarson og Tjörvi Þórsson fyrir Sagafilm. Gunnar Auðunn Jóhannsson stýrir myndatöku og klippingu annast Gunnar B. Guðbjörnsson og Logi Ingimarsson. Tónlist gerir Kjartan Holm. Með helstu hlutverk fara Ólafur Darri Ólafsson, Aníta Bríem og Þorvaldur Davíð Kristjánsson. Sindri Þór Kárason og Gunnar Árnason sjá um hljóðhönnun, búningahöfundur er Eva Lind Rútsdóttir og leikmynd gerir Drífa Freyju-Ármannsdóttir. Þættirnir átta verða sýndir á RÚV á árinu.

Telma Huld Jóhannesdóttir, Bjarni Snæbjörnsson og Björk Guðmundsdóttir í Flamingo Bar.

FLAMINGO BAR: Vinirnir Bjarki og Tinna Olsen taka ákvörðun um að kaupa subbulegan bar sem er við það að fara á hausinn. Ásamt breyskum starfsmönnum ætla þau að breyta ímynd barsins og snúa rekstrinum við. Vafasamir fastagestir, óvæntar uppákomur og gestir gera þeim virkilega erfitt fyrir. Tekst þeim að bjarga barnum og vinna úr eigin brestum?Aron Ingi Davíðsson og Birna Rún Eiríksdóttir leikstýra og skrifa einnig handrit ásamt Guðmundi Einari, Bjarna Snæbjörnssyni, Telmu Huld Jóhannesdóttur, Björk Guðmundsdóttur og Vilhelm Neto. Með aðalhlutverk fara Bjarni Snæbjörnsson, Björk Guðmundsdóttir, Telma Huld og Vilhelm Neto. Framleiðendur eru Heimir Bjarnason, Aron Ingi & Birta Ósk fyrir Arctic Fox Films. Meðframleiðendur eru Vilhelm Neto, Björk Guðmundsdóttir, Telma Huld og Bjarni Snæbjörnsson. Tökumaður er Anton Kristensen, leikmynd gerir Sara Blöndal, Magnús Ómarsson sér um hljóðhönnun og Heimir Bjarnason og Katrín Briem sjá um klipingu. Studio Fin gerir grafík, markaðsefni og VFX. Þættirnir sex eru væntanlegir á Stöð 2.

FLEIRI PABBAHELGAR: Karen hefur verið einstæð þriggja barna móðir í fimm ár og nú orðin veraldarvön á Tinder. Hún leitar að hinni klisjulegu einu sönnu ást en gæti endað uppi með kjarnafjölskyldu númer tvö sem hún er alls ekki tilbúin fyrir, henni að óvörum. Nanna Kristín Magnúsdóttir leikstýrir og skrifar handrit ásamt Erlu B. Skúladóttur og Sólveigu Jónsdóttur. Framleiðendur eru Birgitta Björnsdóttir og Nanna Kristín Magnúsdóttir fyrir Unga og Vintage Pictures. Þættirnir eru væntanlegir á RÚV.

ICEGUYS 2: Önnur syrpa þessarar þáttaraðar hefur verið boðuð en upplýsingar liggja ekki fyrir á þessu stigi. Fyrsta syrpan kom út á síðasta ári og fjallaði um hina nýstofnuðu strákasveit IceGuys og leið þeirra á toppinn. Strákasveitina skipa þeir Aron Can, Friðrik Dór, Herra Hnetusmjör, Jón Jónsson og Rúrik Gíslason. Þættirnir voru í leikstjórn Hannesar Þórs Halldórssonar, Allans Sigurðssonar og Hannesar Arasonar, sem framleiddu einnig ásamt Söndru Barilli fyrir framleiðslufyrirtækið Atlavík. Handritshöfundur var Sólmundur Hólm. Þættirnir eru væntanlegir í Sjónvarp Símans.

KENNARASTOFAN: Líf grunn­skóla­stýru með áráttu- og þrá­hyggjurösk­un um­turn­ast þegar hömlu­laus tón­list­ar­kenn­ari mæt­ir til starfa. Þetta er róm­an­tísk gam­an­saga um ást­ir og ör­lög kenn­ara. Með aðal­hlut­verk fara Katla Mar­grét Þor­geirs­dótt­ir og Sverr­ir Þór Sverris­son, bet­ur þekkt­ur sem Sveppi. Kristófer Dignus leikstýrir og framleiðir ásamt Jóni Gunn­ari Geir­dal, Guðnýju Guðjóns­dótt­ur og Söru Djeddou Bald­urs­dótt­ur fyrir Kontent. Væntanleg í Sjónvarp Símans á árinu.

SKVÍS: Rúna og Fríða neyðast til að finna sér nýjan meðleigjanda þar sem sá fyrrverandi flutti óvænt út án þess að borga leigu. Eftir þó nokkuð af skrautlega skemmtilegum viðtölum fær Sóley nokkur, herbergið. Sambúðin er þó ekki eilífur dans á rósum þar sem um gríðarlega ólíka en stóra persónuleika er að ræða. Allar þurfa sitt pláss bæði í ástum, vinnu og einkalífi. Tanja Björk Ómarsdóttir, Hlín Ágústsdottir, Ólöf Birna Torfadóttir og Silja Rós Ragnarsdóttir skrifa handrit. Leikstjóri er Reynir Lyngdal. Með aðalhlutverk fara Unnur Birna Backman, Tanja Björk Ómarsdóttir og Silja Rós Ragnarsdóttir. Arnbjörg Hafliðadóttir framleiðir fyrir Glassriver. Væntanleg í Sjónvarp Símans á árinu.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR