Þetta fannst gagnrýnendum besta íslenska bíóið á árinu

Hér eru listar gagnrýnendanna Jónu Grétu Hilmarsdóttur, Ásgeirs H. Ingólfssonar og Kolbeins Rastrick yfir þrjár bestu íslensku kvikmyndir ársins. Lista þeirra yfir bestu erlendu myndir ársins má finna hér.

Topp þrjár íslenskar

Jóna Gréta Hilmarsdóttir, gagnrýnandi Morgunblaðsins:

Volaða land / Godland

Eflaust eru sumir þeirrar skoðunar að Hlynur Pálmason hafi fórnað persónusköpuninni og söguþræðinum fyrir fallegar náttúrumyndir, þ.e.a.s. að hann sé að kafa of djúpt í eigin stíl. Öll atriðin hafa hins vegar vigt án þessa að þjóna endilega söguþræðinum. Hlynur tekur í raun mikla áhættu með því að þora að fara eigin leiðir og hafna hinni hefðbundnu frásagnarframvindu en úr því kemur sannkallað listaverk.

Soviet Barbara, sagan um Ragnar Kjartansson í Moskvu

Leikstjórinn, Gaukur Úlfarsson, fylgir fjöllistamanninum Ragnari Kjartanssyni sem opnar sýningu í nýju listasafni í hjarta Moskvu. Ytri atburðarás er undirbúningurinn að sýningunni en undirliggjandi atburðarás er innrás Rússlands í Úkraínu. Soviet Barbara er þannig heimildarmynd sem fangaði óvart augnablikið þegar Rússland varð, eins og Ragnar orðaði það, „fullkomið fasistaríki“.

Heimaleikurinn

Um að ræða mjög vel heppnaða og mannlega heimildarmynd þar sem dregin er upp sönn mynd af því hvað jákvæðni og samstaða getur komið fólki langt. Leikstjórarnir, Logi Sigursveinsson og Smári Gunnarsson, leyfa áhorfendum að staldra við í litlum bæ og kvikmynda hversdagshetjur því þær sögur eru ekki síður merkilegar.

Ásgeir H. Ingólfsson, gagnrýnandi Heimildarinnar:

Heimaleikurinn

Besta Hollywood-mynd ársins var íslensk heimildamynd sem reynir að svara helstu tilvistarspurningu hvers sveitarfélags: Hver erum við – og getum við eitthvað í fótbolta? Myndin sýnir hvernig fótboltalið getur á dularfullan hátt verið leiðin að hjarta lítilla plássa, draumum þess og þrám.

Á ferð með mömmu

Ferskir vinklar á gamla sögu og skemmtilegt tímaferðalag til malarvega ársins 1980, sérstaklega gaman fyrir okkur sem vorum börn í bílskotti þessara ára og munum mjööög óljóst eftir þessu. Svo er aukabónus að sjá íslenska mynd með alvöru söguvitund, samanber gæludýr skýrð eftir sovéskum valdamönnum.

Volaða land

Framandleikinn sem gróf áferðin og ferkantaður ramminn ljær myndefninu gerir að verkum að jafnvel langþreyttir gagnrýnendur sem eru búnir að fá yfir sig nóg af íslensku landslagsklámi verða bara nokkuð hrifnir og þá fær Ingvar E. Sigurðsson einn eftirminnilegasta mónólóg íslenskrar kvikmyndasögu.

Kolbeinn Rastrick, gagnrýnandi Lestarinnar á Rás 1:

Heimaleikurinn

Það segir mikið um styrkleika og stöðu íslenskrar kvikmyndagerðar að íslenskt verk nái að toppa listann minn í ár. Heimaleiknum tekst að vera eitt af þeim einstöku heimildamyndaverkum sem nær að grípa áhorfandann með snilldarlegri hugmynd og tekst að fylgja henni. Það er ekki oft sem að kvikmyndir og hvað þá heimildamyndir fá áhorfendur til þess að hrópa af spennu og standa upp úr sætum sínum en Heimaleiknum tókst það.

Á ferð með mömmu

Bældur sveitakall er kannski ekki það frumlegasta í íslenskri kvikmyndagerð en Á ferð með mömmu er einstök að vissu leyti. Hún er bara upp full af von og umhyggju fyrir persónunum sínum. Það er lífsgleði og húmor myndarinnar sem gerir hana svo ofboðslega fallega.

Villibráð

Fullkominn klassískur farsi. Misskilningar, rifrildi og framhjáhald, allt heila klabbið mætt í Vesturbæinn.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR