Lilja er dóttir Ingólfs Margeirssonar heitins, blaðamanns og rithöfundar og norska þýðandans Tone Myklebost. Ásgeir H. Ingólfsson menningarblaðamaður fjallar um hana og myndina í Tengivagninum á Rás 1 og segir meðal annars að Myklebost hafi “þýtt yfir 50 íslenskar bækur á norsku eftir höfunda á borð við Sjón, Jón Kalman, Einar Kárason, Einar Má, Auði Övu, Gerði Kristnýju, Gyrði og Laxness – og fékk nýlega fálkaorðuna fyrir þýðingar sínar. Lilja eyddi fyrsta áratug ævinnar til skiptis í Noregi og á Íslandi, en hefur síðan verið búsett í Noregi að mestu og lært kvikmyndagerð í London og Prag. Og eftir meira en 20 stuttmyndir er þetta fyrsta myndin í fullri lengd.”
Myndin hlaut verðlaun gagnrýnendasamtakanna FIPRESCI, verðlaun Europa Cinemas Label og verðlaun kirkjudómnefndarinnar. Þá var Helga Guren valin besta leikkonan í aðalkeppnisflokki og einnig fékk myndin sérstök dómnefndarverðlaun, í raun silfurverðlaunin.
Um myndina, Elskling, segir Ásgeir:
En það er erfitt að koma beint orðum að því hvað gerir myndina svona magnaða. Hún er létt og leikandi í byrjun. Við fáum rómantíkina þegar þau Maria og Sigmund eru að draga sig saman. Það er hún sem á frumkvæðið. Maria er óörugg og frökk um leið, einhver einkennileg blanda sem Helga Guren lætur ganga upp.
Síðan spólum við sjö ár og nokkur börn fram í tímann. Hamingjan virðist enn til staðar, en það er eitthvað farið að falla á hana. Við sjáum litlu hlutina hægt og rólega verða stóra, óyfirstíganlega. En við skynjum líka að það eru ákveðnir hlutir sem við sjáum ekki – af því Maria vill ekki sjá þá sjálf. Þetta er fyrst og fremst hennar saga, hennar ferðalag – og þegar á líður fer hún að átta sig betur á hversu djúpt þetta ristir allt saman. Þetta snýst um miklu meira en bara sambandið.
Hún reynist svo heppin að lenda á virkilega færum sálfræðingi sem virðist vita hvað hún er að gera, en hún hefði vissulega betur leitað til hennar miklu fyrr. Upp úr því kemur eitt eftirminnilegasta atriði myndarinnar; uppgjör hennar við móður sína. Þá áttar maður sig á því að trámað nær langt aftur. Þetta er tráma sem erfist og María veit að hún þarf að slíta keðjuna – keðju áfalla sem konur í ættinni hafa erft hver frá annarri.
Ég veit ekki alveg hvernig væri rétt að snara titlinum á íslensku. Elskan væri rökrétt þýðing – en enski titillinn, Loveable, fangar líka einhvern kjarna – það að vera verðug ástar. Það er fyrst og fremst það sem María þarf að sannfæra sjálfa sig um að hún sé.
En er einhverjum um að kenna? Myndin nær að dansa listilega eftir því þrönga einstigi. Bæði virðast eiga sinn þátt í hjónabandserfiðleikunum, en ekki síður bara lífið. Þetta virðist einfaldlega vera ómögulegt púsluspil, sérstaklega fyrir tvo listamenn sem bæði eru verktakar. Á meðan annar makinn hefur eitthvað að gera er hinn dæmdur til að vera heima og sjá um börn og buru – og það reynist vera hún, hún sem fær aldrei tækifæri til að elta sína eigin drauma, fær aldrei tíma – er fyrst og fremst alltaf þreytt. Síþreytt yfir heimi sem hefur logið að manni möguleikanum á ást og öðrum draumum – en um leið búið til kerfi sem virðist gera nánast ómögulegt að láta bæði rætast. Til þess eru einfaldlega ekki nógu margir klukkutímar í sólarhringnum.
Það sem lætur myndina svo ganga upp er hárfín og athugul myndatakan, fínofinn textinn, prýðilegur leikur gervalls leikhópsins – og aðalleikkonan Helga Guren. Helga er stærsta tromp myndarinnar, algjör náttúrukrafur sem tekst auðveldlega að halda manni föngnum allan tímann, með andlit sem gerbreytist reglulega, jafnvel í sömu senu, eftir því sem tilfinningarnar flökta. Hún er algjört náttúruafl í þessu hlutverki.
https://www.youtube.com/watch?v=UtElY0Soxvs&t=131s&ab_channel=Cinemaldito