Ásgeir H. Ingólfsson skrifar hugleiðingu um inntak og sýn nokkurra nýlegra íslenskra kvikmynda á samfélag sitt. Hann notar kvikmyndirnar Hjartastein og American Honey sem einskonar stökkpall og segir þær "tvær splunkunýjar myndir um unglingsástir og greddu í íslensku krummaskuði og bandarískum smábæjum og vegamótelum. Þær segja okkur heilmikið um þá kvöl og gleði sem fylgir því að vera ungur – en bara önnur þeirra segir okkur eitthvað að ráði um samfélagið sem hún sprettur úr."
Stundin birti á dögunum ítarlegt viðtal við Ragnar Bragason leikstjóra þar sem hann fer yfir feril sinn, segir frá upprunanum, ræðir um Fanga og einnig framtíðarplön.
Hjartasteinn eftir Guðmund Arnar Guðmundsson hlaut á dögunum Scope100 dreifingarverðlaunin í Portúgal og Svíþjóð sem tryggir myndinni dreifingu í báðum löndum. Myndin hlaut svo um helgina dómnefndarverðlaun ungmenna og sérstök verðlaun dómnefndar á Festival International du Premier Film d'Annonay í Frakklandi.
Fantasían Dýrið íleikstjórn Valdimars Jóhannssonar og vísindaskáldskapurinn Vetrarbraut í leikstjórn Þóru Hilmarsdóttur hafa hlotið Nordic Genre Boost þróunarstyrki frá Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum upp á tæplega 2,7 milljónir íslenskra króna hvor.
Heimildamyndin Línudans eftir Ólaf Rögnvaldsson verður Íslandsfrumsýnd á Stockfish hátíðinni sem fram fer dagana 23. febrúar til 5. mars. Myndin, sem frumsýnd var á Lubeck hátíðinni s.l. haust, fjallar um baráttu bænda og landeigenda gegn lagningu Blöndulínu 3 sem Landsnet hyggst leggja frá Blönduvirkjun til Akureyrar, um Vatnsskarð, Skagafjörð, Öxnadalsheiði og Hörgárdal.