„Dýrið“ og „Vetrarbraut“ hljóta þróunarstyrki frá Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum

Fantasían Dýrið í leikstjórn Valdimars Jóhannssonar og vísindaskáldsagan Vetrarbraut í leikstjórn Þóru Hilmarsdóttur hafa hlotið Nordic Genre Boost þróunarstyrki frá Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum upp á tæplega 2,7 milljónir íslenskra króna hvor.

Valdimar Jóhannsson skrifar handritið að Dýrinu ásamt Sjón og Valdimar mun einnig leikstýra, en um verður að ræða fyrstu kvikmynd Valdimars í fullri lengd. Hrönn Kristinsdóttir mun framleiða fyrir Go to Sheep. Dýrið segir frá barnlausu pari í kringum fertugt, Maríu og Ingvari, og hvernig óvænt breyting á aðstæðum þeirra færir þeim mikla gæfu fyrst um sinn en endar á því að gera út af við þau.

Vetrarbraut er byggð á sögu eftir Þóru Hilmarsdóttur og Snjólaugu Lúðvíksdóttur og skrifar Snjólaug handritið. Þóra Hilmarsdóttir mun leikstýra og verður um að ræða fyrstu kvikmynd Þóru í fullri lengd. Eva Sigurðardóttir mun framleiða fyrir Askja Films. Í Vetrarbraut umlykur myrkur og ískuldi jörðina þegar sólin hverfur á dularfullan hátt. Sara lokar sig af ásamt stjórfjölskyldu sinni og reynir að halda hversdagslegu lífi gangandi þrátt fyrir yfirvofandi heimsenda.  Hún er leiðtogi hópsins en smám saman stígur valdið henni til höfuðs.

61 umsóknir bárust sjóðnum fyrir átakið „Nordic Genre Boost“ og voru Dýrið og Vetrarbraut tvö af aðeins sjö verkefnum frá Norðurlöndunum sem hlutu þróunarstyrk. Ásamt því að hljóta þennan styrk munu aðstandendur verkefnanna taka þátt í tveimur vinnustofum. Fyrri vinnustofan mun fara fram á Night Visions kvikmyndahátíðinni í Helsinki dagana 5. – 9. apríl og síðari vinnustofan mun fara fram í Haugasundi á New Nordic Films samframleiðslu- og fjármögnunarmarkaðnum dagana 22. – 25. ágúst, þar sem verkefnin verða kynnt kaupendum, dreifingaraðilum og fjármögnunaraðilum.

Þriðja árið í röð óskaði Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn eftir umsóknum fyrir „Nordic Genre Boost“,sem er nokkurs konar átak fyrir norræna kvikmyndagerðarmenn með sérstakar tegundir af verkefnum í þróun. Þá er átt við þær tegundir kvikmynda sem ekki hefur verið eins algengt að framleiða á síðustu árum á Norðurlöndunum, t.a.m. hryllingsmyndir, vísindaskáldsögur og fantasíur. Styrkirnir voru veittir í síðasta skipti í ár.

Í fyrra hlutu vísindaskáldsagan East by Eleven eftir Ólaf de Fleur Jóhannesson og The Damned, hryllingsmynd eftir Þórð Pálsson, þróunarstyrk upp á 3 milljónir íslenskra króna hvor.

Árið 2015 hlaut Hálendið, hryllingsmynd eftir Ragnar Bragason byggð á samnefndri skáldsögu Steinars Braga, Nordic Genre Boost þróunarstyrk upp á tæplega 3,5 milljónir íslenskra króna.

Nánari upplýsingar um valið er að finna á heimasíðu Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR