Langt er síðan Klapptré skýrði frá því að verið væri að gera ástralska kvikmynd byggða á Hrútum Gríms Hákonarsonar. Stikla myndarinnar hefur nú litið dagsins ljós.
Dreifingarfyrirtækið Utopia mun dreifa heimildamyndinni House of Cardin í N-Ameríku frá næsta hausti, en myndin fjallar um tískufrömuðinn Pierre Cardin. Margrét Hrafnsdóttir (Margret Raven) er meðal framleiðenda myndarinnar sem frumsýnd var á Feneyjahátíðinni síðastliðið haust. Variety skýrir frá.
Snorri Þórisson hjá Pegasus undirbýr ásamt forsvarsmönnum kanadíska fyrirtækisins Buffalo Gal Pictures í Winnipeg gerð kvikmyndar um íshokkílið Fálkanna en beðið er eftir grænu ljósi frá Kvikmyndasjóði Íslands. „Gangi fjármögnun eftir hér geta tökur hafist á næsta ári og frumsýning yrði þá um ári síðar,“ segir Snorri í viðtali við Morgunblaðið.
Leifur Dagfinnsson framleiðandi hjá True North segir áhuga erlendra framleiðenda mikinn á að koma hingað í sumar en bregðast verði við samkeppninni frá öðrum löndum og hækka endurgreiðsluhlutfall.