Leifur hjá True North: Fjórar Hollywood-myndir með augastað á Íslandi

Frá tökum á kvikmyndinni Oblivion með Tom Cruise við Jarlhettur sumarið 2012.

Leifur Dagfinnsson framleiðandi hjá True North segir áhuga erlendra framleiðenda mikinn á að koma hingað í sumar en bregðast verði við samkeppninni frá öðrum löndum og hækka endurgreiðsluhlutfall.

RÚV segir frá:

Minnst fjögur erlend kvikmyndaverkefni eru nú að skoða það alvarlega að koma til Íslands til að halda tökum áfram eftir að hafa þurft að stöðva tökur í kórónuveirufaraldrinum, samkvæmt heimildum fréttastofu og í einhverjum tilvikum gætu tökurnar staðið í meira en mánuð.

Þá er mikið um fyrirspurnir og í einhverjum tilvikum hafa tökuliðin áhuga á að taka upp í kvikmyndaverum hér á landi. Það er eitthvað sem ekki hefur þekkst hér á landi áður.

Leifur Dagfinnsson, kvikmyndaframleiðandi hjá True North, segir Ísland í dauðafæri. „Ég held að þó þetta sé ekki nema mánuður, frá 15. maí til 15. júní, að þá opnar þetta strax á umræðuna að Ísland sé opið fyrir þennan iðnað og það skiptir mjög miklu máli. Svo verður spennandi að sjá hvað gerist þegar slakað verður frekar á þessum takmörkunum og Ísland opnar enn frekar.“

Samkeppnin er hörð í þessum geira og nú þegar eru lönd sem Ísland er í baráttu við annað hvort að skoða að hækka endurgreiðslu til kvikmyndaverkefna eða hafa þegar gert það eins og Spánn.

Leifur bendir á að þessi iðnaður komi ferðaþjónustunni, sem nú á undir högg að sækja, mjög vel. Um þrjátíu prósent af veltu svona kvikmyndaverkefna fari til hennar.

En þótt Ísland sé í algjöru dauðafæri sé hætta á því að færið fari forgörðum ef stjórnvöld bregðist ekki við. „Tíminn er núna. Eins og oft á Íslandi þá getum við brugðist fljótt við eins og dæmin sýna og þetta er enn eitt tækifærið. Þarna er ekki verið að borga út pening heldur kemur hann fyrst inn í landið. Þetta er algjörlega sjálfbært kerfi og myndar gríðarlega miklar skatttekjur fyrir land og þjóð.“

Sjá nánar hér: Fjórar Hollywood-myndir með augastað á Íslandi

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR