spot_img

Hilmar Sigurðsson: Skrúfum frá krananum

Hilmar Sigurðsson forstjóri Sagafilm. (Mynd: Eva Björk Ægisdóttir)

Hilmar Sigurðsson forstjóri Sagafilm segir það raunhæft markmið að fimmfalda kvikmyndagreinina að stærð á næstu þremur árum. Þetta kemur fram í grein hans í Fréttablaðinu.

Hilmar skrifar:

Verkefnin þessi misserin snúast að miklu leyti um að skapa fleiri störf, skapa ferðaþjónustunni aukin verkefni og tekjur á nýjan leik, auka tækifæri yngra fólks til spennandi starfa, auka gjaldeyristekjur og ekki síst að skapa grundvöll fyrir auknum tekjum ríkissjóðs til framtíðar. Á Íslandi hefur á undanförnum árum byggst upp arðbær, umhverfisvænn og hugvitsdrifinn iðnaður sem uppfyllir öll þau skilyrði sem þarf til að hægt sé að ná framangreindum markmiðum. Kvikmyndaiðnaðurinn.

Greinin er vön því að þenjast út og dragast saman hratt og örugglega og getur margfaldað sig í stærð á stuttum tíma. Kvikmyndagreinin starfar í kerfi þar sem allt er uppi á borðum frá fyrsta til síðasta dags þegar kemur að fjárfestingum hins opinbera. Um æðar hagkerfisins hafa runnið margfaldar þær fjárhæðir sem endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar nema. Árlega veltir framleiðsla kvikmynda- og sjónvarpsefnis 27 milljörðum og veitir að meðaltali um 1.800 manns atvinnu á ári samkvæmt nýlegum tölum Hagstofunnar. Samkvæmt sömu úttekt hefur ríkissjóður fengið fjárfestingu sína í kvikmyndagreininni vel ríflega til baka en hreinar útflutningstekjur greinarinnar nema 50% meira en heildargreiðslur til hennar. Þar er um að ræða beinharðan gjaldeyri inn í íslenskt efnahagskerfi. Þá eru ótaldar beinar skatttekjur ríkissjóðs vegna starfseminnar sem eru umtalsvert hærri en fjárfesting hins opinbera.

Um allan heim eru kvikmyndaverkefni í algjöru frosti. Hér á Íslandi sjáum við til sólar en þrjár stórar leiknar íslenskar sjónvarpsþáttaraðir verða í tökum í lok mánaðar. Þær eru allar fjármagnaðar að mestu með erlendu fjármagni, þó að í þeim öllum sé töluð íslenska. Greininni er í lófa lagið að hefja undirbúning við að laða að enn fleiri erlend verkefni en það vantar litla gulrót til hreyfa málin hratt. Markmiðunum að ofan má ná að hluta með tímabundinni hækkun á endurgreiðslu í 35% og með hækkunum á framlögum til kvikmyndasjóðs. Það er raunhæft markmið að fimmfalda þannig greinina að stærð á næstu þremur árum. Ríkissjóður situr eftir með meira fjármagn en hann var með áður. Svo ekki sé talað um landkynninguna og af leiddu jákvæðu áhrifin á ferðaþjónustuna og hagkerfið allt. Skrúfum frá krananum.

Sjá nánar hér: Skrúfum frá krananum

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR