Lestin um JARÐARFÖRINA MÍNA: Djúpstæð áhrif áfalla móta viðhorfið til lífsins

Jarðarförin mín varpar ljósi á augljósustu og duldustu afbrigði hversdagsleika samtímans á séríslenskan hátt svo áhorfendur gráta og hlæja með, segir Katrín  Guðmundsdóttir sjónvarpsrýnir Lestarinnar. Þáttaröðin er í sex hlutum og sýnd í Sjónvarpi Símans.

Katrín skrifar:

Sem einskonar sammannleg en samt svolítið tabú íhugun er tilhögun eigin jarðarfarar mjög sniðug hugmynd að sjónvarpsþáttaröð þar sem markhópurinn er stór og almennur, enda eiga flestir samleið með viðfangsefninu. Hugmyndin er jafnvel enn betri ef séreinkenni samfélagsins sem verið er að miðla sögunni til eru dregin fram um leið til þess að skapa samkennd og skilning á meðal nágranna. Jarðarförin mín, ný íslensk sjónvarpsþáttaröð sem sýnd er í Sjónvarpi Símans um þessar mundir, er afurð þessarar góðu hugmyndar en hún flettir í senn ofan af sálrænum afleiðingum áfalla, kynslóðabili og neyslumenningu Íslendinga.

Jarðarförin mín segir marglaga áfallasögu leiðindapúkans Benedikts sem greinist með illkynja heilaæxli samhliða því að fara á eftirlaun eftir 30 ára starf á sama vinnustaðnum. Þegar í ljós kemur að lífslíkurnar eru tæpar horfist hann í augu við litlaust lífshlaup sitt og ákveður að halda sína eigin jarðarför áður en hann gengst undir hættulega skurðaðgerð. Áhorfendur fylgja Benedikt í gegnum sorgarferlið frá a til ö, allt frá kveðjuhófinu í vinnunni, greiningunni og öðrum læknisheimsóknum til jarðarfararinnar sjálfrar, sem heldur honum uppteknum í tómarúminu sem hefur myndast eftir starfslokin ásamt því að dreifa athygli hans frá dauðanum sem er yfirvofandi.

Sagan er afskaplega skýr og er bæði skilaboðum og andrúmslofti miðlað til áhorfenda með fjölbreyttum eiginleikum kvikmyndalistarinnar. Til að mynda á atburðarrásin sér stað í árstíðaskiptum hausts og veturs, sem er táknrænt fyrir staðsetningu Benedikts í lífsskeiði hans. Stef þáttaraðarinnar er að hluta til spilað á orgel, sem skapar hugrenningatengsl við kirkjutónlist, jarðarfarir og sorg og þá óma sígild íslensk lög sem fjalla um lífið og dauðann, svo sem Söknuður, Vetrartíð og Til eru fræ.

Persónusköpunin er ekki síður skilmerkileg og standa persónur alla jafna fyrir nokkrar af alræmdustu erkitýpum íslensks nútímasamfélags. Til dæmis fer ekkert á milli máli strax í upphafi hversu fastheldinn Benedikt er þegar yfirmaður hans fer með erindi um hann í kveðjuhófinu. Myndflétta sýnir sömuleiðis tilbrigðalausa rútínu hans, sem einkennist af sundferðum, golfi og snitseláti. Hann notar alltaf sama búningsklefann, pirrar sig yfir útlendingum sem þvo sér ekki án sundfata og vill ekki fyrir nokkra muni leggja sér neitt vegan til munns. Allt bregður þetta upp mynd af óhamingjusömum miðaldra manni sem er ógnað af því sem hann þekkir ekki og reiðir sig á öryggi vanafestunnar.

Andlega frelsaðri fyrrverandi eiginkonu, syni og neyslusjúkri tengdadóttur er svo stillt upp sem andstæðu við íhaldssamt lífsviðhorf Benedikts og eru séreinkenni þeirra jafnframt dregin fram til að ítreka áreksturinn á milli þessara tveggja afla; hins gamla og hins nýja. Birtist það einna helst í tilætlunarsömum áformum þeirra um að Benedikt leggi út hluta af ævisparnaði sínum fyrir útborgun í fasteign handa syni sínum og fjölskyldu, þar sem þau telja ógjörning að safna fyrir því sjálf, þrátt fyrir að búa í hönnunarfrumskógi í Garðarbæ, umvafin Omaggio vösum og Iittala kertastjökum. Gamli maðurinn tekur það sannarlega ekki í mál og er ágreiningurinn á milli feðganna – og enn fremur kynslóðanna – drifkrafturinn í framvindu þáttanna, þótt yfirskriftin sé vissulega jarðarför Benedikts og skipulagning hennar.

Samband Benedikts við son sinn er tvímælalaust í forgrunni Jarðarfararinnar minnar. Samskipti þeirra einkennast af skilningsleysi, þrjósku, gremju og miklum sársauka; tilfinningum sem áhorfendur margir hverjir geta tengt við í tengslum við eigin sambönd og samskipti í samfélaginu, þvert á kynslóðir og ekki. Hægt og rólega flettist hins vegar ofan af viðspyrnu Benedikts og við gerum okkur grein fyrir því að hann er alls ekki meðfæddur leiðindapúki, heldur eru þráheldnir eiginleikarnir afleiðing fjölda áfalla og áfallastreitu. Heilaæxli, starfslok og hjónaskilnaður er ekki einu sinni tæmandi listi af hremmingunum sem dunið hafa á honum í gegnum tíðina og eftir því sem líður á þáttaröðina skiljum við Benedikt betur og fyrirgefum honum jafnvel framferði hans.

Jarðarförin mín sýnir áhorfendum hversu djúpstæð áhrif áföll geta haft á persónu okkar og hvernig reynsluheimur fólks mótar viðhorf þess til lífsins. Á bak við hvern leiðindapúka er alltaf einhver upplifun eða atvik sem hefur gert hann þannig og öll höfum við gengið í gegnum eitthvað sem skýrir af hverju við högum okkur eins og við gerum. Benedikt hefur neitað sér um allt gott í lífinu af því honum finnst hann ekki eiga það skilið. Þar sem hann hefur aldrei gert upp fortíð sína getur hann ekki notið líðandi stundar og yfirfærir í kjölfarið angist sína á fólkið sem stendur honum næst. Sonurinn gerir sér ekki grein fyrir áfallasögu föður síns og þá skortir hann skiljanlega innsýn í þau viðhorf og venjur sem viðhöfðust í samfélaginu áður fyrr, svo sem áðurnefnda þöggun og bælingu tilfinninga.

Margir hafa upplifað áföll sambærileg þeim sem tekin eru fyrir í þáttaröðinni og þótt eins konar tilfinningabylting hafi riðið yfir íslenskt samfélag á síðustu árum takast flestir enn á við harm af þessu tagi hver í sínu horninu. Jarðarförin mín veitir íslenskum áhorfendum tækifæri til að upplifa tilfinningaferlið sem fer í gang hjá nágranna okkar og fjölskyldu hans þegar dauðinn skyndilega blasir við. Hún varpar ljósi á bæði augljósustu og duldustu afbrigði hversdagsleika samtímans á séríslenskan hátt, og við hlæjum og grátum með – bara af því við tengjum svo mikið.

Sjá nánar hér: Djúpstæð áhrif áfalla móta viðhorfið til lífsins

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR