Íslenskar kvikmyndir hlutu alls 33 alþjóðleg verðlaun á árinu 2019. Hæst bera verðlaun til handa Ingvari E. Sigurðssyni fyrir Hvítan, hvítan dag í Cannes (Critics' Week) og aðalverðlaun dómnefndar unga fólksins í Locarno fyrir Bergmál Rúnars Rúnarssonar.
Heimildamyndin Á skjön eftir Steinþór Birgisson er nú í sýningum í Bíó Paradís. Myndin fylgir sköpunarferli nútímalistar eftir af stuttu færi í holdgervingu Magnúsar Pálssonar, eins helsta brautryðjanda og árhrifavalds íslenskrar nútímalistar frá upphafi.
Tónskáldið Kjartan Sveinsson vann til tónskáldaverðlaunanna á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Les Arcs fyrir tónlist sína í kvikmyndinni Bergmál eftir Rúnar Rúnarsson. Hátíðin fór fram dagana 14. - 21. desember í Frakklandi.
Héraðið Gríms Hákonarsonar er meðal átta mynda sem keppa um Drekaverðlaunin á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg sem fer fram dagana 24. janúar til 3. febrúar nk. Hátíðin er sú stærsta á Norðurlöndunum og verður nú haldin í 43. skipti. Drekaverðlaunin eru stærstu peningaverðlaun sem þekkjast á kvikmyndahátíðum, en þau nema einni milljón sænskra króna (rúmum 13 milljónum íslenskra króna).
Hildur Guðnadóttir tónskáld hefur vart tekið við Golden Globe verðlaunum fyrir tónlistina í Joker þegar hún er tilnefnd til BAFTA verðlauna fyrir sama verk. Þá er hún einnig tilnefnd til Grammy verðlauna fyrir Chernobyl en þau verða afhent síðar í janúar. Tilnefningar til Óskarsverðlauna verða kynntar á mánudag en þar er hún á stuttlista fyrir Joker.