Eftir sautjándu sýningarhelgi (þar af ellefu helgar í sýningum) er Síðasta veiðiferðin nú í öðru sæti aðsóknarlistans, eftir að hafa verið efst frá frumsýningu í mars. Mentor eftir Sigurð Anton Friðþjófsson er í 9. sæti eftir frumsýningarhelgina.
Kvikmyndamarkaðurinn í Cannes stendur nú yfir á netinu. Variety skýrir frá því að vel gangi að selja kvikmyndina Dýrið eftir Valdimar Jóhannesson. Noomi Rapace og Hilmir Snær Guðnason fara með aðalhlutverkin, en myndin verður frumsýnd 2021.
Nordic Film and TV News ræðir við Markelsbræður um velgengni Síðustu veiðiferðarinnar, en myndin er nú kynnt á markaðinum í Cannes sem fram fer á netinu og tekur þátt í Kvikmyndahátíðinni í Haugasundi í ágúst.
Eftir sextándu sýningarhelgi (þar af tíu helgar í sýningum) er Síðasta veiðiferðin enn á toppi aðsóknarlistans þar sem hún hefur verið frá frumsýningu í byrjun mars. Aðsókn nálgast 26 þúsund gesti.
Kvikmyndaskóli Íslands auglýsir eftir aðstoðarrektor, en umsóknarfrestur er til 21. júní. Leitað er að metnaðarfullum einstaklingi sem hefur þekkingu og reynslu af stjórnun og rekstri menntastofnunar.
Fimm stafrænir fyrirlestrar munu fara fram dagana 22. – 26. júní samhliða Kvikmyndamarkaðinum í Cannes (Marché du Film). Íslenskir kvikmyndagerðarmenn og fagaðilar í kvikmyndageiranum sem taka þátt sem fyrirlesarar eru Kristinn Þórðarson, Ásthildur Kjartansdóttir, Hrönn Sveinsdóttir, Marteinn Þórsson og Tinna Hrafnsdóttir.
Fagmiðillinn C21 Media ræðir við teymið á bakvið þáttaröðina Ráðherrann sem sýnd verður á RÚV í haust. Ólafur Darri Ólafsson sem fer með aðalhlutverkið, Nanna Kristín Magnusdóttir annar leikstjóranna og Jónas Margeir Ingólfsson einn handritshöfunda ræða hugmyndirnar bakvið verkið, en auk þess eru sýnd brot úr þáttunum.
Framleiðendur kvikmyndarinnar Tryggð eftir Ásthildi Kjartansdóttur, þær Ásthildur og Eva Sigurðardóttir, hafa gert samning við bandaríska sölufyrirtækið Hewes Pictures um sölu á myndinni á heimsvísu.
Eftir fimmtándu sýningarhelgi (þar af níu helgar í sýningum) er Síðasta veiðiferðin enn á toppi aðsóknarlistans þar sem hún hefur verið frá frumsýningu í byrjun mars. Nú hafa yfir 24 þúsund gestir séð myndina.
Kvikmyndamiðstöð Íslands hefur fjölgað ráðgjöfum með ráðningu leikstjóranna Grétu Ólafsdóttur og Guðnýjar Halldórsdóttur í störf kvikmyndaráðgjafa. Þá hefur Martin Schlüter einnig verið ráðinn til starfa sem framleiðandi hjá KMÍ.
Gamanmyndin Amma Hófí eftir Gunnar Björn Guðmundsson verður frumsýnd þann 10. júlí næstkomandi. Edda Björgvinsdóttir og Þórhallur Sigurðsson (Laddi) fara með aðalhlutverkin.
Stuttmyndin Selshamurinn (Sealskin) eftir Uglu Hauksdóttir er frumsýnd í dag á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Huesca á Spáni. Sökum faraldursins fer hátíðin að mestu fram á netinu og geta allir sem vilja horft á myndina frítt, eftir að hafa skráð sig. Myndin, sem er 13 mínútur að lengd, er aðgengileg til 20. júní.
Bíómyndin Berdreymi, sem framleidd er af Anton Mána Svanssyni, hlaut á dögunum rúmlega 16,8 milljónir króna frá Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum. Guðmundur Arnar Guðmundsson (Hjartasteinn) leikstýrir, en áætlað er að tökur hefjist í lok ágúst.
Eftir fjórtándu sýningarhelgi (þar af átta helgar í sýningum) er Síðasta veiðiferðin enn á toppi aðsóknarlistans þar sem hún hefur verið frá frumsýningu í byrjun mars. Nú hafa yfir 22 þúsund gestir séð myndina.