Viðhorf | Þegar íslenska alþýðukómedían sneri aftur

Útlit er fyrir að 2020 verði ár gríns og glens í íslenskum kvikmyndum og þáttaröðum og veitir kannski ekki af á þessum síðustu og verstu.

Að minnsta kosti fjórar gamanmyndir og fjórar gamanþáttaraðir hafa verið sýndar eða eru væntanlegar á árinu og langt síðan jafn mikið af slíku efni hefur komið fram innan tiltekins árs. Afsakið, ég leiðrétti þetta: aldrei hefur jafn mikið af slíku efni komið fram innan tiltekins árs.

Fleiri slík verkefni eru í tökum eða forframleiðslu. Leita þarf allt aftur til níunda áratugar síðustu aldar til að finna eitthvað sambærilegt.

Hvaða verk eru þetta?

Síðasta veiðiferðin reið á vaðið í marsbyrjun. Myndin fór vel af stað (um 13 þúsund gestir eftir þrjár sýningarhelgar), en þá var kvikmyndahúsunum lokað í um sex vikur. Því var spurning hvort áhorfendur myndu taka við sér þegar bíóin opnuðu á ný. Það reyndist heldur betur vera, þegar þetta er skrifað hafa um 26 þúsund séð myndina.

Vissulega er samkeppnin gagnvart öðrum myndum lítil sem engin enda hefur myndin verið í fyrsta sæti aðsóknarlistans frá frumsýningu. Ljóst er þó að áhugi gagnvart myndinni er mikill. Aðstandendur hafa kynnt systurverkefni myndarinnar, Síðasta saumaklúbbinn, sem fer í tökur í sumar í leikstjórn Göggu Jónsdóttur.

Þeir Örn Marinó Arnarson og Þorkell Harðarson, höfundar Síðustu veiðiferðarinnar, eru framleiðendur annarrar gamanmyndar, Amma Hófí, sem frumsýnd verður 10. júlí.

Það eru ákveðin tímamót því mig rekur ekki minni til þess að íslensk kvikmynd hafi áður verið frumsýnd yfir hásumarið. Sá tími er yfirleitt helgaður blokkbösterum frá Hollywood. Þeir láta á sér standa þessa dagana sökum farsóttarinnar og því verður fróðlegt að sjá hvort Íslendingar hópist í bíó til að sjá Eddu Björgvins og Ladda leika ellismelli sem ræna banka með hjálp Steinda Jr.

Steindi leikur einnig í gamanþáttaröðinni Eurogarðurinn ásamt Auðunni Blöndal, Jóni Gnarr, Halldóri Halldórssyni, Önnu Svövu Knútsdóttur og fleirum. Tökum er lokið en þættirnir, sem gerast í Húsdýragarðinum, verða sýndir á Stöð 2 í vetur. Glassriver framleiðir.

Laddi er síðan í aðalhlutverki í gamanþáttaröðinni Jarðarförin mín sem Glassriver framleiðir einnig og Kristófer Dignus leikstýrir. Sýningar hófust í vetur í Sjónvarpi Símans og hefur þáttunum verið vel tekið, en þeir fjalla um dauðvona mann sem ætlar að skipuleggja og vera viðstaddur sína eigin jarðarför.

Glassriver stendur einnig að fleiri gamanþáttum. Vegferðin er sex þátta gamansería sem Baldvin Z leikstýrir. Ólafur Darri Ólafsson og Víkingur Kristjánsson leika vini sem treysta böndin á ferðalagi um landið. Þættirnir verða sýndir á Stöð 2 seint á árinu. Þá fer þriðja syrpa Venjulegs fólks í tökur á næstu dögum og verður sýnd í Sjónvarpi Símans í vetur. Vala Kristín Eiríksdóttir og Júlíana Sveinsdóttir leika aðalhlutverkin og skrifa handrit ásamt Fannari Sveinssyni sem einnig leikstýrir.

Í dag er svo frumsýnd gamanmyndin Mentor eftir Sigurð Anton Friðþjófsson, sem áður hefur sent frá sér tvær ódýrar gamanmyndir á undanförnum árum, Webcam og Snjó og Salóme. Mentor segir af ungri stúlku sem vill gerast uppistandari og biður fornfrægan grínista að hjálpa sér. Sonja Valdín og Þórhallur Þórhallsson (Sigurðssonar-Ladda) leika aðalhlutverk.

Þá er væntanleg önnur ódýr gamanmynd, Hvernig á að vera klassa drusla, frumraun Ólafar Birnu Torfadóttur. Myndin fjallar um vinkonupar sem fer að vinna á sveitabæ yfir sumarið og lendir í allskonar ævintýrum. Ásta Júlía Elíasdóttir og Ylfa Marín Haraldsdóttir fara með aðahlutverkin. Til stóð að frumsýna í mars en því var frestað sökum farsóttarinnar.

Verða íslenskar gamanmyndir fastur liður?

Kannski er þetta uppsöfnuð þörf. Örn Marinó og Þorkell höfðu þetta að segja um stöðuna í nýlegu viðtali:

Markmið okkar er að framleiða gamanmynd á sex mánaða fresti. Okkur finnst að hér þurfi að gera allskonar myndir. Of mikil áhersla á listrænar myndir fælir áhorfendur frá og þannig skaðast innlend kvikmyndagerð. Fjölbreytni í framboði mynda er lykilatriði fyrir þjóðarbíó og að líta niður á gamanmyndir ætti að heyra fortíðinni til.

Það er rétt hjá Markelsbræðrum að hreinræktaðar gamanmyndir hafa löngum verið sjaldséðar í íslenskri kvikmyndagerð. Jafnvel má segja alltaf, því þó hægt sé að benda á slatta af slíkum myndum frá áttunda áratuginum, Með allt á hreinu, Stella í orlofi og Líf-myndir Þráins Bertelssonar, auk þáttaraða eins og Fastir liðir eins og venjulega sem RÚV endursýnir þessa dagana, hafa megináherslur legið annarsstaðar. Undantekningar á síðari tímum má að sjálfsögðu finna.

Sumpart er ástæða skorts á gamanefni í kvikmyndum og sjónvarpi sú að fáir gefa sig að því, kannski vegna þess að slíkt efni er afar erfitt að búa til þannig að það gangi upp!

Annað er að það ferðast síður enda oft bundið við menningarlegan kunnugleika og meirihluti íslenskra kvikmynda og sjónvarpsefnis er fjármagnaður með þátttöku annarra landa. Það hefur verið snúið að fjármagna verk innanlands eingöngu því markaðurinn er lítill og fjárfesting sjóðsins nær skammt.

Staðan hefur þó að einhverju leyti breyst vegna tækninnar, á undanförnum áratug eða svo hefur verið tæknilega mögulegt að fullvinna ódýrara efni þannig að það standist faglegar kröfur. Endurgreiðslukerfið hjálpar líka. Sjóðurinn hefur hinsvegar verið að styðja þessi verkefni mjög takmarkað, en sjónvarpsstöðvarnar hafa tekið þátt, sem og dreifingaraðilar.

Áhugi almennings gagnvart þessu efni mun skipta verulegu máli. Bæði fjárhagslega en einnig vegna þess að þessi verk þurfa meðbyrinn sem góð aðsókn (eða áhorf) skapar. Slíkt á auðvitað við um öll verk en er sérstaklega knýjandi í grínefninu, þar sem krafan um beina svörun er mjög skýr.

Íslenska alþýðukómedían er snúin aftur, allavega í bili. Hvort hún verði áfram fastur liður fer eftir viðbrögðunum.

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR