Zik Zak kvikmyndir er meðframleiðandi að mynd Sólveigar heitinnar Anspach, Sundáhrifin (The Together Project), sem sýnd er á Director's Fortnight í Cannes. Zik Zak kynnir einnig verk Ísoldar Uggadóttur, Andið eðlilega, sem fer í tökur í september.
Ásgrímur Sverrisson leikstjóri og handritshöfundur kvikmyndarinnar Reykjavík er í viðtali við kvikmyndavefinn Cinema Scandinavia þar sem hann ræðir um mynd sína, hugmyndirnar að baki henni sem og stöðuna í kvikmyndabransanum almennt.
Tökum á Vetrarbræðrum (Vinterbrödre), fyrstu bíómynd Hlyns Pálmasonar er lokið. Þær fóru fram á sex vikum í Faxe í Danmörku. Framleiðendur kynna nú myndina í Cannes en gert er ráð fyrir að hún verði frumsýnd undir lok árs.
Sjö íslenskar heimildarmyndir verða sýndar á Poltava Film Festival sem fram fer dagana 26. til 29. maí n.k. í Úkraínu. Einar Þór Gunnlaugsson kvikmyndagerðarmaður er einn aðstandenda hátíðarinnar.