The Irishman eftir Martin Scorsese verður frumsýnd í Bíó Paradís þann 22. nóvember næstkomandi, en viku síðar kemur hún á Netflix sem stendur á bakvið gerð hennar. Það er óneitanlega tímanna tákn að nýjasta mynd eins fremsta leikstjóra Bandaríkjanna skuli sýnd í örfáum kvikmyndahúsum (og gjarnan listabíóum) um veröld víða í skamman tíma áður en hún kemur á efnisveitu.
Ingvar E. Sigurðsson var valin besti leikarinn á elstu kvikmyndahátíð Kanada, FNC kvikmyndahátíðinni í Montreal á dögunum, fyrir Hvítan, hvítan dag. Fyrir hafði hann unnið Rising Star verðlaunin í Cannes og einnig verðlaun í Transilvaniu, Rúmeníu.
"Afar skemmtileg kvikmynd sem fjallar á djúpviturlegan, fallegan og sprenghlægilegan hátt um uppvöxt, eftirsjá og fjölskyldusambönd," segir Brynja Hjálmsdóttir meðal annars í umsögn sinni um Agnesi Joy Silju Hauksdóttur í Morgunblaðinu. Brynja gefur myndinni fjóra og hálfa stjörnu.
Arína Vala Þórðardóttir hjá Engum stjörnum, gagnrýnendavef Kvikmyndafræði Háskóla Íslands, skrifar um Hvítan, hvítan dag Hlyns Pálmasonar og segir frásagnaraðferðina listilega en viðfangsefnið, karlmannskrísu, varla ferskt, áhugavert eða þarft árið 2019.
"Ofboðslega góð kvikmynd. Einföld og látlaus en samt svo yfirþyrmandi víðfeðm og djúp að mann skortir eiginlega orð," segir Þórarinn Þórarinsson meðal annars í fimm stjörnu dómi í Fréttablaðinu um Agnesi Joy Silju Hauksdóttur.