Engar stjörnur um „Hvítan, hvítan dag“: Varla ferskt né þarft viðfangsefni

Ingvar E. Sigurðsson og Ída Mekkín Hlynsdóttir í Hvítum, hvítum degi.

Arína Vala Þórðardóttir hjá Engum stjörnum, gagnrýnendavef Kvikmyndafræði Háskóla Íslands, skrifar um Hvítan, hvítan dag Hlyns Pálmasonar og segir frásagnaraðferðina listilega en viðfangsefnið, karlmannskrísu, varla ferskt, áhugavert eða þarft árið 2019.

Arína Vala skrifar meðal annars:

Það sem einkennir kvikmyndina einna helst er fagurfræði hennar og formgerð, en áhorfandi getur ekki annað en skynjað listilegar sjónrænar frásagnaraðferðir hennar eins og ferskan andvara innan um þær kvikmyndahefðir sem löngum hafa tíðkast í íslenska bíóinu. Höfundareinkennum Hlyns hefur verið líkt við aðferðir Dags Kára og Kristínar Jóhannesdóttur, hvers kvikmyndir litast af framúrstefnu og frumleika við meðferð kvikmyndamiðilsins, og ber að fagna því að þeim sem metnað hafa til formrænnar endurnýjunar bætist hér liðsstyrkur. Þrátt fyrir það festist Hvítur, hvítur dagur gjarnan í því sama boxi og hún hugsar sig annars svo listilega út fyrir; sagan um hinn aðþrengda íslenska karlmann í tilfinningakrísu virðist vera kvikmyndaleikstjórum þjóðarinnar svo hugleikin að jafnvel framúrstefnulegustu kvikmyndahöfundar standast ekki mátið á að koma með sinn vinkil á frásögnina. Hægt væri að telja upp óteljandi dæmi, en niðurstaðan er ekki flóknari en svo að umfjöllunarefni Hvíts, hvíts dags getur varla talist ferskt, áhugavert eða þarft árið 2019.

Handritið hvílir einna helst á sambandi Ingimundar og afastelpu hans, Sölku, og stendur hún að sögn leikstjórans fyrir skilyrðislausa ást í lífi Ingimundar, sem er annars svo upptekinn af margfalt flóknari tegund af ást; rómantískri ást sem er jafnframt náskyld hatri. Barnslegt sakleysi hennar stendur utan við rótlausan og ábyrgðarsnauðan fullorðinsheiminn og heldur Ingimundi jarðbundnum, en þrátt fyrir tilraunir hans til að hlífa henni frá eigin sálarástandi byrjar stíflan smám saman að bresta þegar líður á myndina. Bera má kennsl á fyrstu einkenni þess í súrrealísku og kómísku atriði þar sem Salka horfir á barnaefni í sjónvarpinu, og geimfari úr brotlentu geimskipi fer þar á tilþrifamikinn hátt með með dómsdagsspár sem eru fjarri því að vera við hæfi barna. Hávaðinn í barnaefninu rennur saman við hundsgelt og símhringingar þar til áreitið verður nánast óbærilegt, í samræmi við hugsanirnar sem sækja á Ingimund. Þetta endurspeglar vanhæfni Ingimundar til að hlífa Sölku frá angist sinni, vandamál sem ágerist eftir því sem líður á myndina.

Það er raunar samband Ingimundar og Sölku sem heldur sögunni uppi, en þegar vikið er frá Sölku í síðasta þriðjungi kvikmyndarinnar til þess að Ingimundur geti hefnt sín á viðhaldi eiginkonu sinnar skín karllægni hins langþreytta viðfangsefnis í gegn. Hin látna eiginkona, sem fær ekki að vera meira en nafnlaus og hlutgerð kynvera, er aðeins notuð sem tól í frásögninni til að kynda undir reiði Ingimundar. Þótt umræðan um skaðsemi eitraðar karlmennsku sé mikilvæg og þörf er hún einnig vandmeðfarin, og í þessu tilviki er hún smættuð niður í ómerkilega deilu tveggja karla sem telja sig báðir hafa eignarhald yfir sömu konunni. Þessi tilhneiging til að halda konum í skugga karllægra kynóra er að sjálfsögðu hluti af stærra samfélagslegu meini, en úreltar klisjur á borð við ofannefnda íslenska landsbyggðarkarlmenn í tilfinningakreppu eru afkvæmi þess á sama tíma og þær taka þátt í að viðhalda því.

Myndin tekur þó við sér þegar Sölku er að lokum skeytt harkalega saman við fullorðinsheiminn í dramatísku uppgjöri, en þá er líkt og Ingimundi takist loks að horfast í augu við fáránleika þeirra aðstæðna sem hann hefur komið sér og sínum nánustu út í. Þetta gerir honum kleift að slíta sig lausan frá þráhyggjum sínum; hann bindur enda á samtalið við hina dauðu sem tákngerist þegar hann gengur úr þokunni inn í biksvört göng með afastelpuna sína í fanginu. Hinn blindandi hvíti dagur verður að hverfandi punkti á bak við þau.

Sjá nánar hér: H19 | Kvikmyndafræði Háskóla Íslands

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR