Nýjasta bíómynd Baldvins Z, Fyrir Magneu, hlaut á dögunum 1,7 milljón norskra króna í styrk frá Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum. Það samsvarar rúmum 23 milljónum íslenskra króna. Verkefnið, sem fer í tökur síðsumars, hefur einnig hlotið styrk frá Kvikmyndamiðstöð auk þess sem RÚV tekur einnig þátt í fjármögnun.
Bandaríska framleiðslufyrirtækið STXfilms er við það að sigla næstu kvikmynd Baltasars Kormáks, Adrift, í höfn. Fyrirtækið mun væntanlega bæði framleiða og dreifa myndinni í Bretlandi og kynna hana á Berlinale hátíðinni sem hefst í þessari viku. Aðalhlutverkið er höndum leikkonunnar Shailene Woodley og er myndinni lýst sem Gravity á sjó.
"Það eru sérstaklega leikkonunurnar sem skína á skjánum. Þær gefa allt í hlutverk sín og skapa einkar minnisstæðar persónur", segir Kolbrún Bergþórsdóttir ritstjóri DV um þáttaröðina Fanga.
Samkvæmt bráðabirgðatölum frá RÚV var meðaláhorf á lokaþátt Fanga um 50%. RÚV gerir ráð fyrir að heildaráhorf verði í kringum 60% þegar hliðrað áhorf (Frelsi og Sarpur) liggur fyrir. Þættirnir eru aðgengilegir á Sarpinum til og með 7. mars næstkomandi.