Kolbrún Bergþórsdóttir hjá DV um „Fanga“: Sigur leikkvenna

Nína Dögg Gunnarsdóttir í Föngum. (Mynd: Lilja Jónsdóttir).

„Það eru sérstaklega leikkonunurnar sem skína á skjánum. Þær gefa allt í hlutverk sín og skapa einkar minnisstæðar persónur“, segir Kolbrún Bergþórsdóttir ritstjóri DV um þáttaröðina Fanga.

Kolbrún segir:

Framhaldsþátturinn Fangar veldur ekki vonbrigðum. Sumt í framvindunni var vissulega fyrirsjáanlegt allt frá byrjun. Vissum við til dæmis ekki flest að heimilisfaðirinn væri þrjótur sem hefði verulega slæma hluti að fela? En það er allt í lagi að við vissum það, maður horfir af áhuga, ekki síst vegna góðrar frammistöðu leikaranna. Það eru sérstaklega leikkonurnar sem skína á skjánum. Þær gefa allt í hlutverk sín og skapa einkar minnisstæðar persónur.

Nína Dögg Filippusdóttir og Unnur Ösp Stefánsdóttir eru báðar frábærar. Manni var farið að þykja ansi vænt um Brynju sem Unnur Ösp túlkar svo eftirminnilega og óskaði þess að vel færi fyrir henni. Manni brá því verulega í lok síðasta þáttar. Nína Dögg leikur Röggu, persónu sem maður var í byrjun nokkuð smeykur við því hún var svo hryssingsleg og virtist ísköld. Seinna kom í ljós að bak við hrjúft yfirborð leynist viðkvæmni. Þannig hafa persónur þáttanna dýpkað með hverjum þætti.

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir er í litlu hlutverki í Föngum og er nánast óþekkjanleg. Í hvert sinn sem henni bregður fyrir er ekki hægt að hafa augun af henni. Hún sést reyndar ekki nægilega oft en þegar það gerist stelur hún senunni. Þorbjörg Helga er mjög góð sem aðalpersónan Linda og Halldóra Geirharðsdóttir og Kristbjörg Kjeld standa sig mjög vel. Þetta eru einfaldlega afar vel leiknir þættir.

Síðasti þáttur er á sunnudag. Við mætum við sjónvarpstækið.

Sjá nánar hér: Sigur leikkvenna – DV

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR