spot_img

Sjónvarpið læst inni í skáp til að virkja hugmyndaflugið

Anní Ólafsdóttir, annar leikstjóra Þriðja pólsins, er í viðtali við DV þar sem hún ræðir um myndina, framtíðarplön og annað.

Í DV segir:

Anní er alin upp við að hugmyndaflugið sé eins og vöðvi sem þurfi að þjálfa og virkja. Hún er hug­rökk að eðlisfari og óhrædd við að elta drauma sína. „Ég ólst upp hér og þar, hef verið á flakki síðan ég var pínkupons. Bjó í Þýskalandi í nokkur ár sem krakki, og svo á Sauðár­króki í nokkur ár líka og hef búið í flestum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Ég hef verið í Reykjavík núna í nokk­ur ár og farin að skjóta rótum. Sem er góð tilfinning,“ segir Anní, sem hefur menntað sig í ýmiss konar listum. Hún er annar leikstjóri Þriðja pólsins, sem frumsýnd var síðsumars og þykir hafa einstaka sýn bæði sem leikstjóri og klipp­ari. Þriðji Póllinn er heimildarmynd um geðhvörf. Í henni er fylgst með ferðalagi Högna Egilssonar og Önnu Töru Edwards um framandi slóðir í Nepal. Myndin veitir innsýn í hugsun og veruleika fólks sem hefur glímt við sama sjúkdóm.

Hver var mesta áskoruninn við að gera Þriðja pólinn ? „Mesta áskorunin var eiginlega að vinna með svona viðkvæman efnivið, líf fólks. Að fá traust Önnu Töru og Högna til þess að skapa fallegt verk úr lífsögum þeirra. Sem ég vona að ég hafi staðið undir. Svo er auðvitað mikil áskorun sem tekur við á klippiborðiðnu. Að klippa heimildarmynd er mun meira krefjandi og öðruvísi ferli en sjónvarpsþátt eða kvikmynd, þar sem stuðst er við handrit og fyrirfram ákveðnar senur. Mikið af söguboganum verður til á skurðborði klipparans. Það er  rosalega vanmetið starf, að vera klippari. Að loknum tökum er margra klukkustunda efni og úr því þarf að flétta eina 74 minútna mynd. En mér þykir það ferli mjög skemmitilegt, þannig að ég og Eva Lind Höskuldsdóttir, sem klippti myndina með okkur, við eyddum ófáum stundum saman, og vorum eins og tvíburasystur í gegnum ferlið. Hún er algjör töframaður við tölvuna. Davíð Alexander Corno kom einnig að klippingunni, með mjög gott innlegg. Mér finnst mjög skemmttilegt að blanda saman mismunandi fólki til að draga fram ólíka þætti, hvort sem það er í undirbúningi, í tökum eða eftirvinnslu.“

Anní við tökur. Mynd: Aðsend

Vitlaus spóla

„Ég ætlaði alltaf í myndlistar­nám, gera skúlptúra, mála myndir, og mun kannski ein­hvern tíma gera það. En þetta var mjög tilviljanakennt, ég er ekki mikill kvikmyndanörd, eins og margir samnemendur mínir voru í kvikmyndanám­inu, og í bransanum, en ég ólst upp við Disneymyndir og fantasíu. Þegar ég var lítil var sjónvarpið læst inni í skáp, og mikil áhersla lögð á að nota hugmyndaflugið. Þannig að kvikmyndaformið fyrir mér var aldrei eitthvað sem ég spáði mikið í, ég heillaðist af hrollvekjum, útsendingu list­dansskauta á Ólympíuleikun­um og gullöld tónlistarmynd­banda. Ég var alltaf að skrifa smásögur og teikna, kannski svolítið föst í eigin heimi, þar sem runnu saman tónlist, til­finningar, Disney, hrollvekjur, dans, fegurð og drama. Þegar ég var níu ára kom stjúppabbi minn heim frá útlöndum og hafði keypt, að hann hélt, Spice Girls myndina, þegar ég var svo búin að setja spóluna í tækið og ýta á „play” byrjaði eitthvað allt annað. Þetta var mynd um gerð myndband­anna. Ég horfði á þessa spólu aftur og aftur, ætli þar hafi ekki litlu fræi verið sáð.“

Danski herinn

Anní er hálffæreysk og er því með tvöfaldan ríkisborgara­rétt, bæði í Danmörku og á Íslandi. „Ég ætlaði að sækja um í danska hernum en eftir að hafa kynnt mér langt og strangt inntökuferli með tak­mörkuðum möguleika á að komast inn, tók óþolinmæðin mig annað. Fljótlega eftir það heyrði ég vin minn tala um Kvikmyndaskólann, en hann hafði verið að búa til tónlistar­myndband. Ég er mjög hvat­vís, greip þessa hugmynd og skráði mig á handrita­ og leik­stjórnarbraut við Kvikmynda­skóla Íslands.“

Anní var þar komin á sína réttu hillu – langt frá danska hernum. „Kvikmyndagerð er svo víðtækt og opið listform, en það hefur kannski örlítið gleymst og grafist undir öll­um þessum gegnumsósuðu Hollywood tæknibrellu­hasar­myndum. Kvikmynd er lifandi tvívíddarverk í ramma, með endalausum möguleikum. Hreyfimynd tilfinninga, sem eins og önnur list eignast sitt eigið líf í hugum þeirra sem horfa.“

„Útlenskt“ ekki best

Anní segist vera bjartsýn á íslenska kvikmyndagerð, sem hafi sterka rödd. „Núna í sumar var Ísland auðvitað eina landið sem mátti vera í tökum, sökum COVID­19. Við höfum nýtt okkur það mjög vel, held ég. Kvikmyndasaga Íslands er mjög stutt miðað við nágrannalönd, og eins og í flestöllu öðru, miðum við okkur alltaf við Bandaríkin eða Dani. Við setjum oft ein­hvern gæðastimpil á allt sem okkur þykir virka „útlenskt“. Íslenski stíllinn hefur samt fengið mikla athygli og við masterað einhvers konar sauð­kinda­melankólíu.“

Hún nefnir að Ísland sé að ala af sér hæfileikaríka leik­stjóra í hrönnum og það sé bjart fram undan. „Vonandi koma líka fleiri kvenleik­stjórar með verk, hvort sem það eru karlar sem upplifa sig sem kvenmann eða karlar sem voru kvenmenn, eða bara konur sem hafa alltaf verið konur. Kvikmyndaheimurinn hefur verið svo karllægur, og margar konur sem leikstýra eins og karlmenn. Mig langar í kvenleikann. „Fleiri myndir um konur, af konum!“ – Meiri fjölbreytileika, takk. Við eigum svo mikið af flottum, eldri leikkonum, og djúpan suðupott af ósögðum sögum.“

Dofin og dekruð

Anní segist sakna þess að upp­lifunin að horfa á kvikmynd sé viðburður í huga fólks, sem notið sé í hóp.

„Í byrjun þessa árs sagði einhver við mig að hann héldi að bíómyndin væri að deyja út, mér þótti það frekar langsótt, en núna er það að gerast, öll bíó eru lok­uð, kvikmyndahúsin eru tóm, ekkert popp að poppast. Það er rosalegt að missa út bíóin, og á sama tíma hefur eftir­spurnin eftir nýju efni sjald­an verið meiri, í þáttaformi frekar en gamla kvikmynda­forminu. Á breyttum tímum er mikilvægt að hugsa út frá breyttum aðstæðum, fólk vill horfa heima, horfa á netinu. Kvikmyndahátíðir eru ekki til þetta ár, því hvað er kvik­myndahátíð án áhorfenda? Ég fór líka að hugsa hvað bíó­in voru einu sinni, eins og að fara í leikhús, maður puntaði sig. En núna ferðu í bíó þunn­ur í hettupeysu, þegar þú vilt ekki rekast á neinn. Og þetta helst í hendur við offramboð á hasar og fjöldaframleiðslu, við erum orðin dofin og dekr­uð. Kvikmyndin er orðin svo sjálfsögð. Það þarf kannski að nýta þessa bíó­pásu og endurhugsa bíómenninguna. Kannski eftir COVID verða áhrifin þau að fólk þráir að komast í bíó, punta sig, upp­lifa með öðrum í stað þess að hanga inni hjá sér og horfa, eitt í felum. Enginn veit hvað átt hefur, fyrr en misst hefur.“

Að því sögðu er nýjasta verkefnið hjá þessum fram­sækna leikstjóra stuttmyndin Apausalypse. „Hún fjallar um heimspásuna. Hvað það þýðir þegar heimurinn stans­ar (og pásutakkinn kemur í ljós), þetta er hybrid­heim­ildarmynd, sem er eins konar bókmenntaverk þar sem heimspekilegar og óritskoð­aðar hugsanir, spurningar og vangaveltur fá að flæða, jafnt í orðum og dansi, í miðri fyrstu bylgju heimsfarald­ursins. Ég er mjög spennt að klára hana, Ásta Fanney Sigurðardóttir og Ryuichi Sakamoto gera tónlistina,“ segir Anní, sem er með fjölda járna í eldinum og er svo sannarlega ekki á „pásu.“
„Svo er að hefjast vinna við að gera mynd byggða á bók eftir Andra Snæ, Tíminn og vatnið. Svo er ég með ýmsar hugmyndir á blaði, og líka opin fyrir einhverju spenn­andi sem gæti vonandi bankað upp á.“

HEIMILDDV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR