Sjónarmið RÚV að skoða þurfi í hverju og einu tilviki hvort einstaklingur geti talist „sjálfstæður framleiðandi“

Í nýju mati fjölmiðlanefndar er bent á að skilgreiningin á „sjálfstæðum framleiðendum“ í þjónustusamningnum við RÚV sé víðtækari en sú í fjölmiðlalögunum. Útvarpsstjóri telur að þetta þurfi „að sjálfsögðu að vera eins skýrt og kostur er“. Skoða þurfi það í hverju og einu tilviki hvort einstaklingur geti talist sjálfstæður framleiðandi gagnvart RÚV með hliðsjón af ýmsum þáttum. Inn í það mat þurfi að taka ýmis atriði.

Bára Huld Beck skrifar ítarlega fréttaskýringu í Kjarnann um ágreining Fjölmiðlanefndar og RÚV varðandi skilgreininguna á því hvað teljist sjálfstæður framleiðandi og hvað ekki hjá RÚV. Hér verður gripið niður í grein Báru.

Lesa má alla greinina með því að smella hér, eða á heimildarvísun undir þessari færslu.

Samkvæmt þjónustusamningi Ríkisútvarpsins við mennta- og menningarmálaráðuneytið átti Ríkisútvarpið að verja að lágmarki 10 prósent af heildartekjum á árinu 2018 til kaupa af sjálfstæðum framleiðendum, það er til að kaupa eða vera meðframleiðandi að leiknu sjónvarpsefni, kvikmyndum, heimildarmyndm eða öðru dagskrárefni í miðlum Ríkisútvarpsins.

Í greinargerð Ríkisútvarpsins um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu 2018 kemur fram að allt framlag Ríkisútvarpsins til leikins efnis árið 2018 hafi runnið til sjálfstæðra framleiðenda og framleiðslufyrirtækja, eins og á fyrra ári. Í greinargerðinni segir jafnframt að kaup Ríkisútvarpsins af sjálfstæðum framleiðendum árið 2018 hafi verið 884 milljónir króna eða 13,24 prósent af heildartekjum Ríkisútvarpsins það ár, sem er vel yfir því lágmarki sem miðað er við í þjónustusamningi fyrir árið 2018 sem var 10 prósent.

Samkvæmt listanum sem afhentur var Fréttablaðinu námu kaup af sjálfstæðum framleiðendum hins vegar 796.306.285 krónur eða 11,93 prósent af heildartekjum Ríkisútvarpsins 2018, sem einnig er vel yfir því lágmarki sem skilgreint er í þjónustusamningi fyrir það ár. Samkvæmt Ríkisútvarpinu skýrist það af því að listi Fréttablaðsins hafi takmarkast við sjónvarpsefni (þar með talið talsetningu og tækjaleigu) en talan sem birtist í greinargerð RÚV og ársskýrslu hafi tekið til allra miðla. Þá hafi listi Fréttablaðsins grundvallast á svari ráðherra vegna fyrirspurnar til Alþingis. Fram kemur í skýringum RÚV að í samráði við ráðuneytið hafi verið ákveðið að miða aðeins við sjónvarpsefni sem RÚV hafi keypt eða verið meðframleiðandi að í svörum við fyrirspurn Alþingis. Talan í greinargerð RÚV byggist á þjónustusamningnum.

Skilgreining á hugtakinu sjálfstæður framleiðandi ekki að finna í lögum um RÚV eða í þjónustusamningi

Fram kemur í mati fjölmiðlanefndar að hvorki í lögum um Ríkisútvarpið né í samningi um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu 2016 til 2019 sé að finna skilgreiningu á hugtakinu sjálfstæður framleiðandi. Hugtakið er skilgreint svo í lögum um fjölmiðla:

„Sjálfstæður framleiðandi hljóð- eða myndefnis er fyrirtæki sem jafnframt er sjálfstæður lögaðili, óháður viðkomandi fjölmiðlaveitu í þeim skilningi að hann er ekki undir beinum eða óbeinum yfirráðum hennar, hvorki sér né sameiginlega með öðrum, og hefur frelsi til að skilgreina sína eigin viðskiptastefnu.“

Samkvæmt skilgreiningu hugtaksins „sjálfstæður framleiðandi“ í lögum um fjölmiðla geta því einungis fyrirtæki sem jafnframt eru sjálfstæðir lögaðilar talist sjálfstæðir framleiðendur. Þá felur hugtakið í sér að hinn sjálfstæði framleiðandi þurfi að vera óháður Ríkisútvarpinu í þeim skilningi að hann sé ekki undir beinum eða óbeinum yfirráðum þess.

Í matinu segir að svo virðist sem grein í þjónustusamningnum 2016 til 2019 sé þó ætlað að hafa víðtækari skírskotun en hugtakinu sjálfstæður framleiðandi samkvæmt lögum um fjölmiðla. Í viðauka við samninginn sé meðal annars fjallað um sérstök markmið á samningstímanum vegna kaupa af sjálfstæðum framleiðendum en þar segir: „Kaup af sjálfstæðum framleiðendum sem hlutfall af heildartekjum. Um er að ræða kaup á dagskrárefni af sjálfstæðum framleiðendum, meðframleiðslu, aðkeypta þjónustu, þ. á m. vegna talsetningar, leigu á búnaði og fleira.“

Breyta skilgreiningu í nýjum þjónustusamningi

Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar, segir í samtali við Kjarnann að nefndin sé í matinu að benda á það að skilgreiningin á „sjálfstæðum framleiðendum“ í þjónustusamningnum við RÚV sé víðtækari en sú í fjölmiðlalögunum. „Við erum að skoða þetta út frá þessum ákvæðum um það hvort RÚV hafi uppfyllt þjónustusamninginn eða ekki – og lög um RÚV. Það sem við erum að benda á er að það er ekki samræmt orðalag og ástæðuna fyrir því.“

Hún segir enn fremur að nefndin hafi fengið þær upplýsingar að breyta eigi skilgreiningu til samræmingar í nýjum þjónustusamningi sem von er á innan tíðar. Í mati nefndarinnar kemur einmitt fram að mennta- og menningarmálaráðuneytið hafi upplýst hana um að framangreindu samningsákvæði verði breytt í drögum að nýjum þjónustusamningi, með þeim hætti að aðeins verði gerð krafa um kaup af sjálfstæðum framleiðendum. Verði lágmarkshlutfalli og fjárhæðum breytt til samræmis við það.

Lesa má alla fréttaskýringuna með því að smella á heimildarvísunina hér fyrir neðan.

HEIMILDKjarninn
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR