Mikil efnahagsleg umsvif fylgja endurgreiðslunni en vandi fylgir einnig

Niðurstöður úttektar breska ráðgjafafyrirtækisins Olsberg SPI um efnahagslegan ávinning af íslenska kvikmyndaendurgreiðslukerfinu, sem kynntar voru á kvikmyndaráðstefnu í Hörpu þann 5. apríl, hafa verið opinberaðar.

Hér má finna skýrsluna á ensku: Economic Impact Study of Iceland’s Production Incentive.pdf

Hér er úrdráttur á íslensku: Efnahagsleg áhrif endurgreiðslukerfis í kvikmyndagerð á Íslandi.pdf

Efnahagsleg áhrif endurgreiðslukerfisins

Í úrdrættinum segir meðal annars: Framleiðsluverkefni í kvikmyndagerð sem hlotið hafa endurgreiðslur hafa í för með umtalsverð efnahagsleg áhrif. SPI áætlar að á tímabilinu 2019 til 2022 hafi endurgreiðsluhæf framleiðsluverkefni í kvikmynda- og sjónvarpþáttagerð varið á bilinu 9,7–28,9 milljörðum króna á Íslandi á hverju ári. Úttektin leiddi einnig í ljós að 86% útgjaldanna hefðu ekki átt sér stað á Íslandi ef ekkert endurgreiðslukerfi væri fyrir hendi.

Rekstrartekjur í kvikmynda- og sjónvarpsgeiranum næstum tvöfölduðust á árunum 2017–2021.

Á árunum 2019–2022 námu efnahagsleg umsvif (e. Economic output) kvikmynda-og sjónvarpsverkefna sem hlutu endurgreiðslur samtals 237,9 milljörðum króna (verðlag 2023).

Þessi tala inniheldur ekki framleiðsluverkefni sem hefðu átt sér stað á Íslandi þótt endurgreiðslukerfið hefði ekki verið fyrir hendi.

Á árunum 2019–2022 skiluðu endurgreiðsluhæf kvikmynda- og sjónvarpsverkefni 18,8 milljörðum króna í beinum vergum virðisauka (e. gross value added), 22,8 milljörðum króna í óbeinum og 41,2 milljörðum króna í afleiddum vergum virðisauka – samtals 82,7 milljörðum króna í aukinni verðmætasköpun.

Á árunum 2019–2022 er áætlað að heildaratvinnutekjur þeirra sem störfuðu hér á landi við í tengslum við endurgreiðsluhæf framleiðsluverkefni hafi numið 48,9 milljörðum króna. Um er að ræða 8,6 milljarða króna í beinum atvinnutekjum, 10,5 milljarða króna í óbeinum atvinnutekjum og 29,7 milljarða króna í afleiddum atvinnutekjum.

Á árinu 2022 er áætlað að bein störf við endurgreiðsluhæf verkefni hafi verið 890. Til að um 1.480 óbein störf hafi notið góðs af endurgreiðslukerfinu og 1.830 afleidd störf.

Á heildina litið hefur endurgreiðslukerfið skilað sér með umtalsverðri efnahagslegri arðsemi (e. Return on Investment / RoI). Á árunum 2019–2022 var vergur virðisauki (e. Gross Value Added / GVA) hverrar krónu sem fór í gegnum endurgreiðslukerfið 6,8 krónur sem leiðir af sér að fyrir hverja krónu sem fór í gegnum endurgreiðslukerfið var ávinningurinn fyrir íslenskt efnahagslíf 6,8 krónur miðað við bein, óbein og afleidd áhrif.

Áhyggjur af mönnun, hækkandi launakostnaði og útilokun smærri verkefna 

Út frá þeim gögnum sem safnað var í tengslum við úttektina má álykta að endurgreiðslukerfið hafi haft jákvæð áhrif á innlenda kvikmyndageirann í heild og verið til hagsbóta t.d. fyrir tökulið, birgja og innviði á staðnum og opnað fyrir möguleika á alþjóðlegum fjárfestingum í greininni.

Má þar sérstaklega nefna að:
• Endurgreiðslukerfið hefur haft jákvæð áhrif á kunnáttu og getu innan skapandi greina. Önnur afleiðing endurgreiðslukerfisins birtist í aukinni almennri fagmennsku hjá íslensku kvikmyndagerðarfólki.
• Aukin tökustarfsemi á Íslandi hefur leitt til aukinnar eftirspurnar eftir innviðauppbyggingu í greininni og haft jákvæð áhrif á þjónustufyrirtæki og fyrirtæki sem útvega tækjabúnað fyrir framleiðsluna.
• Endurgreiðslukerfið hefur stuðlað að því að fleiri framleiðsluverkefni voru tekin upp á Íslandi, sem leitt hefur til aukins áhuga á landinu – sem hefur haft jákvæð áhrif á ímynd landsins og ferðaþjónustuiðnaðinn sem heild.

Þrátt fyrir að áhrif endurgreiðslukerfisins á innlenda framleiðslugeirann hafi verið heilt yfir jákvæð dró frumrannsóknarvinnan fram nokkur atriði sem valda smærri og sjálfstæðum framleiðendum nokkrum áhyggjum. Það er einkum í tengslum við aukin áhrif erlendra verkefna á aðgengi að kvikmyndagerðarfólki og hækkandi launakostnað og annan kostnað sem smærri, sjálfstæðir innlendir framleiðendur hafa átt erfitt með að mæta miðað við þann þrönga fjárhagsramma sem þeir búa gjarnan við. Einnig hafa komið fram áhyggjur yfir því að endurskoðað endurgreiðslukerfið gagnist ekki að öllu leyti öllum framleiðsluverkefnum, svo sem listrænum verkefnum, heimildamyndum (sem oft ná ekki lágmarksútgjaldaþröskuldi til að uppfylla skilyrði hvatakerfisins um 35%), þrátt fyrir að hvatinn geti verið veigamikill þáttur í fjármögnun slíkrar framleiðslu. Innlend, sjálfstæð kvikmyndaframleiðsla er mikilvægur þáttur í velgengni Íslands í greininni og ætti að njóta áframhaldandi stuðnings frá m.a. KMÍ.

Hvað varðar uppbyggingu endurgreiðslukerfisins og umsóknarferlið er íslenska kerfið auðskilið og einfalt í notkun fyrir innlenda og erlenda framleiðendur. Þeir sem fengu aðgang að endurgreiðslukerfinu greindu þó frá því að bæta mætti samskipti við umsjónaraðila kerfisins, og sumir sem veittu ráðgefandi álit lögðu til að einnig mætti nýta endurgreiðslukerfið til að koma til móts við umhverfisleg og félagsleg sjónarmið (t.d. með frekari hvötum fyrir framleiðsluverkefni sem starfa á umhverfisvænan og samfélagslega ábyrgan hátt).

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR