Sölumessan Scandinavian Screening er haldin hér á landi í fyrsta skipti dagana 6.-8. júní en þangað mæta stærstu kaupendur sjónvarpsefnis í heiminum og skoða norrænt efni. Messan er haldin að undirlagi norrænu sjónvarpsstöðvanna. Í tilefni þessa hefur RÚV fengið Kim Christiansen, ritstjóra og umsjónarmann samframleiðslu heimildarmynda hjá DR Sales, til að halda fyrirlestur um sölu heimildamynda.
Félag íslenskra kvikmyndatökustjóra (ÍKS) ákvað á síðasta aðalfundi að bjóða nýjum meðlimi, Árna Filippussyni, í félagið. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu, en Árni verður ellefti meðlimur þess.
Anton Máni Svansson framleiðandi, sem var einn þátttakenda í Producers on the Move verkefninu í Cannes, ræðir við Morgunblaðið um reynslu sína og verkefnin framundan. Fram kemur í viðtalinu að Hjartasteinn hafi nú selst til yfir 50 landa og að næsta verkefni hans verði íslenskur spennutryllir í leikstjórn Hlyns Pálmasonar.
Þórir Snær Sigurjónsson finnur fyrir því að það sé meiri áhugi á íslenskum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum en áður var, mun meiri en þegar hann byrjaði að vinna sem kvikmyndaframleiðandi. Hann segir að það sé meðal annars fyrir tilstuðlan Netflix.
RÚV hefur auglýst eftir fólki til að taka að sér gerð næsta Áramótaskaups. Frestur til að skila inn umsókn er til og með 12. júní. Viðkomandi fá 30 milljónir króna til verksins.
Tökur á leikinni kvikmynd í fullri lengd um Guðmundar- og Geirfinnsmálin hefjast á næsta ári, en á bak við myndina standa leikstjórinn Egill Örn Egilsson (Eagle Egilsson), framleiðendurnir Ingvar Þórðarson og Júlíus Kemp og tónlistarmaðurinn Damon Albarn sem mun semja tónlist fyrir myndina. Myndin hefur fengið heitið Imagine Murder eða Lifun á íslensku.
Ólafur Egill Egilsson hefur verið ráðinn í stöðu handritaráðgjafa hjá dagskrárdeild sjónvarps á RÚV. Ólafur Egill var valinn úr hópi 79 umsækjenda og tekur þegar til starfa.
Í öðrum þætti The Handmaid's Tale þáttaraðarinnar sem nú er í sýningum á efnisveitunni Hulu, gefur að heyra tónverk Þorkels Sigurbjörnssonar, Heyr himnasmiður, við sálm Kolbeins Tumasonar goðorðsmanns og skálds frá upphafi 13. aldar. Lagið er fengið af plötu Hildar Guðnadóttur, Saman, en svo virðist sem hvorki Þorkels né Kolbeins sé að neinu getið í upplýsingum um þáttinn - og raunar ekki Hildar heldur.
RVK Studios kynnir Varg Barkar Sigþórssonar fyrir kaupendum á yfirstandandi Cannes hátíð. Myndin er í eftirvinnslu. Screen segir frá og birtir jafnframt fyrsta rammann úr myndinni.
Benji The Dove, bandarísk endurgerð á íslensku kvikmyndinni Benjamín dúfa frá 1995, sem byggð var á verðlaunasögu Friðriks Erlingssonar, verður frumsýnd síðar á þessu ári. Þetta segir Erlingur Jack, einn framleiðenda myndarinnar í samtali við DV.
Skjaldborg, hátíð íslenskra heimildamynda, fer fram 2.-5. júní næstkomandi á Patreksfirði. Tilkynnt hefur verið um þær myndir sem taka þátt í hátíðinni, en hún er nú haldin í tólfta sinn.
Teikinimyndin Lói - þú flýgur aldrei einn verður kynnt kaupendum í Cannes nú í vikunni. ARRI Media International, sem annast sölu myndarinnar á heimsvísu, hefur tilkynnt um þrjár sölur nú á hátíðinni og hefur þá myndin verið seld til um 60 landa.