RÚV kynnir nýja stefnu, dramadeild á leiðinni?

Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri.

Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri kynnir nýja stefnu RÚV til 2021 á opnum fundi fimmtudaginn 18. maí. Fundurinn verður haldinn í aðalmyndveri RÚV í Útvarpshúsinu við Efstaleiti og stendur frá kl. 13-16. Vangaveltur eru uppi um hvort meðal annars verði tilkynnt um stofnun sérstakrar „dramadeildar“, en fyrir skömmu auglýsti RÚV eftir handritaráðgjafa fyrir leikið efni.

Þar er meðal annars vísað til stóraukinnar áherslu RÚV á leikið efni á undanförnum árum og handritaráðgjafi sagður eiga að gegna lykilhlutverki við ráðgjöf, verkefnaval og þróun leikins efnis hjá RÚV. Jafnframt er talað um að á starfssviði slíks ráðgjafa sé meðal annars þátttaka í stefnumörkun á leiknum verkefnum og hugmyndavinna því tengd, sem og þátttaka í fagráði RÚV um leikið efni.

Ekki er þó sérstaklega minnst á þetta í tilkynningu frá RÚV, en þar segir meðal annars:

Nýja stefnan er hugsuð sem leiðarstef í starfi stofnunarinnar næstu árin. Framúrskarandi erlendir fyrirlesarar taka þátt í ráðstefnunni, flytja erindi um fjölmiðlun til framtíðar, miðla af reynslu sinni og bregðast við nýrri stefnu RÚV. Öll hafa þau öðlast viðamikla þekkingu í störfum sínum fyrir almannaþjónustumiðla víða um Evrópu. Við bjóðum alla hjartanlega velkomna til fundar við okkur í Útvarpshúsinu. Í boði verða léttar veitingar. Fundurinn verður sýndur í beinni útsendingu á RÚV.is, RÚV 2 og Facebook-síðu RÚV.

Og ennfremur:

Fjölmiðlaneysla almennings hefur tekið stökkbreytingum. Hún tvístrast – sjónvarp er ekki lengur „baðstofan“ nema þegar stórviðburðir í beinni útsendingu eru á dagskrá. Útvarpshlustun er að breytast og vefurinn tekur við mörgum verkefnum, gerir aðrar kröfur og þjónar dreifðum og þá jafnframt minni hópum hverju sinni. Nú er flóknara en áður að ná til allra hópa samfélagsins og uppfylla hlutverk almannaþjónustumiðilsins. Til þess þarf að stokka upp forgangsröðun og hugmyndir okkar um fjölmiðlun.

Ný stefna RÚV er árangur umfangsmikilla rannsókna, rýni á stefnu annarra almannaþjónustumiðla og samtals við starfsfólk, almenning og hagaðila. Stefnan verður leiðarljós Ríkisútvarpsins næstu ár og er uppskriftin að því hvernig RÚV ætlar að halda traustu sambandi við allan almenning til framtíðar.

Önnur vísbending um fyrirhugaða stofnun dramadeildar felst í þeim tveimur fyrstnefndu hér að neðan sem flytja munu tölu á eftir Magnúsi Geir:

Piv Bernth er yfirmaður leikins efnis hjá danska ríkissjónvarpinu en DR hefur verið leiðandi í slíkri framleiðslu á undanförnum árum. Á ráðstefnunni ræðir hún um þau afrek sem DR og Norðurlandaþjóðirnar hafa unnið í framleiðslu og dreifingu á leiknu efni.

Marianne Furevold er aðalframleiðandi og höfundur hinnar geysivinsælu norsku þáttaraðar SKAM. Á ráðstefnunni segir hún söguna af ótrúlegri velgengni þáttanna sem farið hafa sigurför um heiminn og miðlar af árangri NRK í að ná til ungmenna.

Hinir tveir fyrirlesararnir eru ekki síður áhugaverðir:

Helen Boaden starfaði hjá BBC í 34 ár sem fréttastjóri og síðar yfirmaður útvarpsþjónustu. Hún leiddi þróun myBBC, persónusniðinnar þjónustu BBC. Boaden stundar nú fjölmiðlarannsóknir við Harvard-háskóla. Á ráðstefnunni ræðir hún framtíð frétta, mikilvægi traustra og áreiðanlegra frétta almannaþjónustumiðla og áskoranir á tímum sífellt hraðari símiðlunar og ónákvæmni í fréttaflutningi og hverni „hægar fréttir“ geta þjónað almenningi.

Ruurd Bierman leiddi vinnu EBU, Sambands evrópskra fjölmiðla í almannaþjónustu, við Vision 2020 sem lýsir framtíðarsýn fyrir almannaþjónustumiðla. Fjölmargir almannaþjónustumiðlar hafa haft Vision 2020 að leiðarljósi við stefnumótun. Á ráðstefnunni ræðir Bierman áskoranir og mikilvægi almannaþjónustumiðla til næstu fimm ára, á tímum harðnandi samkeppni þegar fjölmiðlaneysla færist í auknum mæli yfir á stafrænt form.

Sjá nánar hér: RÚV 2021 | RÚV

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR