Samkvæmt nýframlögðu fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir að verulega dragi úr endurgreiðslum til kvikmyndagerðar á næsta ári og að þær fari enn frekar lækkandi á næstu tveimur árum eftir það.
Katrín Björgvinsdóttir leikstjóri og Mie Skjoldemose handritshöfundur hlutu sérstaka viðurkenningu dómnefndar á Nordic Talents í gær fyrir hugmynd sína að sjónvarpsþáttaröð sem kallast Dronning Ingrid, en þær höfðu áður gert stuttmynd með sama nafni sem var útskriftarverkefni þeirra frá Danska kvikmyndaskólanum.
Baltasar Kormákur mun leikstýra kvikmyndinni Arthur the King á næsta ári. Mark Wahlberg fer með aðalhlutverkið, en þetta verður í þriðja sinn sem þeir Baltasar vinna saman.
Baldvin Z leikstýrir nýrri glæpaseríu sem mun heita Svörtu sandar. Stöð 2 og framleiðslufyrirtækið Glassriver undirrituðu samning um framleiðslu hennar og gamanseríunnar Magaluf. Þetta kemur fram á Vísi og í Fréttablaðinu.
Hvar eru skjóðurnar fullar af peningum handa konum til að gera bíómyndir, spyr Wendy Mitchell hjá Screen, en hún hefur meðal annars um árabil fjallað um íslenska kvikmyndagerð. Í greininni fer hún yfir þá fjölmörgu sjóði og fyrirtæki sem leggja sérstaka áherslu á að fjármagna bíómyndir eftir konur.
"Gerð á sígilda vísu en er jafnframt fersk og frumleg. Hún er æsispennandi en líka hjartnæm og ískrandi kómísk á köflum," segir Brynja Hjálmsdóttir meðal annars í Morgunblaðinu um Hvítan, hvítan dag Hlyns Pálmasonar. Hún gefur myndinni fimm stjörnur.
Gert er ráð fyrir að framlög til Kvikmyndasjóðs haldist óbreytt frá fyrra ári í nýframlögðu fjárlagafrumvarpi. Kvikmyndasafnið fær lítilsháttar hækkun og RÚV einnig.