Bandaríska sendiráðið hefur sent frá sér myndband þar sem fjallað er um þá íslensku kvikmyndagerðarmenn sem tóku þátt í nýafstöðnum American Film Market. Meðal þátttakenda sem koma fram í myndbandinu eru Leifur B. Dagfinnsson og Kristinn Þórðarson hjá True North, Konstantín Mikaelsson hjá Senu og Erlingur Jack Guðmundsson hjá Og Films.
Gunnar Theódór Eggertsson fjallar um heimildamyndina Salóme í pistli á Víðsjá á Rás 1 Ríkisútvarpsins. Hann segir viðfangsefnið "skemmtilegan fýlupúka" og að eftir sitji frumleg og forvitnileg heimildamynd.
Í afar athyglisverðri grein í Screen Daily segir framleiðandinn Miranda Fleming, sem nú starfar hjá hópfjármögnunarsíðunni IndieGoGo, frá því hversvegna hópfjármögnun muni skipta afar miklu máli í framtíðinni fyrir framleiðendur sjálfstæðra kvikmynda.
"Við viljum sinna menningu þjóðarinnar enn betur en gert hefur verið, í útvarpi, sjónvarpi og á vef. Við erum staðráðin í að efla innlenda dagskrárgerð. Sér í lagi þarf að bæta framboð á íslensku leiknu efni og gæðaefni fyrir börn á íslensku enda verður á næstu árum gerð enn ríkari krafa um að Ríkisútvarpið bjóði nýjum kynslóðum Íslendinga upp á vandað íslenskt efni þegar erlent afþreyingarefni á erlendum tungumálum er á hverju strái," segir Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri meðal annars í pistli þar sem hann gerir grein fyrir sýn sinni á hvert RÚV skuli stefna og hvernig megi komast þangað.
Breska sölufyrirtækið Taskovski Films mun annast sölu á heimildamyndinni Salóme eftir Yrsu Roca Fannberg á alþjóðavettvangi. Þessi margfalda verðlaunamynd er nú til sýnis í Bíó Paradís.