Viðhorf | Ríkisútvarp okkar allra – til framtíðar

Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri.
Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri.

„Útvarpið á að vera háskóli alþýðunnar, leikhús hennar, kirkja og sönghöll, heimild nýrra tíðinda og sannrar frásögu, skemmtistaður hennar og athvarf úr einveru og fásinni.“ Svo mælti Helgi Hjörvar, formaður útvarpsráðs, í árdaga útvarpsins fyrir meira en áttatíu árum. Þessi grundvallarmarkmið Ríkisútvarpsins hafa í grunninn ekkert breyst þrátt fyrir gífurlegar tækniframfarir og samfélagsbreytingar frá fyrstu útsendingu árið 1930.

Hvers vegna Ríkisútvarp?

Ríkisútvarpið hefur frá upphafi notið víðtæks stuðnings almennings sem ein helsta menningar- og lýðræðisstofnun þjóðarinnar og það hefur fylgt henni á mikilvægustu stundunum í sögu hennar. Hlustunar-, áhorfs- og traustsmælingar sýna að staða Ríkisútvarpsins er sem fyrr sterk, sama hvort borið er saman við fjölmiðla hérlendis eða erlendis. Þjóðir Evrópu hafa valið að hafa almannafjölmiðil líkt og við. Almenn sátt ríkir um mikilvægi slíkra fjölmiðila, ekki síður nú en fyrir næstum hundrað árum. Hvers vegna? Jú, almannafjölmiðlar, líkt og Ríkisútvarpið, hafa ákveðnum skyldum að gegna umfram einkarekna fjölmiðla, skyldum við hlustendur og áhorfendur. Allir samfélagsþegnar eiga rétt á þjónustu Ríkisútvarpsins, jöfnu aðgengi að óhlutdrægum fréttum, gagnrýninni umræðu og gæðaefni á íslensku sem erindi á við samtímann. Öflugt Ríkisútvarp er enn jafn mikilvægt þrátt fyrir blómlega flóru nýrra samskiptaforma og einkarekna fjölmiðla á markaði. Ríkisútvarpið þjónar almenningi og stuðlar að jöfnuði, sanngirni og samkennd í stóru sem og smáu. Við viljum að Ríkisútvarpið sé sameinandi afl í æ sundurleitara þjóðfélagi.

Hvert stefnum við?

Framtíðarsýn stjórnar og starfsfólks er að Ríkisútvarpið verði áfram öflugur almannamiðill í þjónustu þjóðarinnar allrar, með aukinni áherslu á menningar- og samfélagshlutverk hans. Við viljum vera virkur þátttakandi í að byggja upp og styrkja samfélag okkar, styðja og auka þekkingu, hæfni og lífsgæði einstaklinga og þjóðfélagshópa. Við viljum sinna menningu þjóðarinnar enn betur en gert hefur verið, í útvarpi, sjónvarpi og á vef. Við erum staðráðin í að efla innlenda dagskrárgerð. Sér í lagi þarf að bæta framboð á íslensku leiknu efni og gæðaefni fyrir börn á íslensku enda verður á næstu árum gerð enn ríkari krafa um að Ríkisútvarpið bjóði nýjum kynslóðum Íslendinga upp á vandað íslenskt efni þegar erlent afþreyingarefni á erlendum tungumálum er á hverju strái. Einnig er nauðsynlegt að gera átak í varðveislu þjóðararfsins og miðlun hans úr gullkistu Ríkisútvarpins. Þar er samtímasaga Íslendinga skráð og að henni verður að hlúa. Við höfum þegar hafið undirbúning að úrbótum á þjónustu við landsbyggðina og stefnum að auknum fréttaflutningi og dagskrárgerð utan höfuðborgarsvæðisins samhliða öflugri svæðismiðlun. Þannig styrkjum við hlutverk RÚV sem útvarp allra landsmanna. Þegar hafa verið stigin stór skref í átt til meira jafnréttis í starfseminni – en betur má ef duga skal enda viljum við að Ríkisútvarpið sé í fararbroddi í jafnréttismálum.

Forsjálir hugsjónamenn stóðu að stofnun Ríkisútvarpsins fyrir meira en áttatíu árum. Þá var byggt upp viðamikið dreifikerfi sem síðan hefur gegnt lykilhlutverki í miðlun dagskrárefnis auk þess sem það hefur verið mikilvægur hlekkur í almannavörnum þjóðarinnar. Á næstu árum þarf að gera úrbætur á dreifikerfinu til að það geti þjónað nýjum kynslóðum. Jafnhliða tæknilegri uppbyggingu þarf að huga að faglegum vinnubrögðum og starfsháttum RÚV og opna samtalið við þjóðina um Ríkisútvarp okkar allra.

Útvarpsgjaldið stendur undir rekstrinum

Ríkisútvarpið er eign þjóðarinnar og allir landsmenn hafa skoðun á því hvernig það getur best þjónað skyldum sínum. Allt frá stofnun Ríkisútvarpsins hefur reglulega verið tekist á um rekstrar- og tilvistargrundvöll þess á vettvangi stjórnmálanna. Árleg óvissa um fjármögnun hefur sett mark sitt á reksturinn, tækniþróun og stefnumótun til langs tíma. Mikið hefur verið hagrætt í starfsemi Ríkisútvarpsins á síðustu árum og á þessu ári hefur verið leitað leiða til að létta á skuldsetningu félagsins sem á rætur sínar m.a. í gömlum lífeyrissjóðsskuldbindingum. Stjórn RÚV hefur talið að samræmi þurfi að vera á milli þeirrar þjónustu sem vænst er af félaginu og þeirra þjónustutekna sem er ætlað að standa undir þeirri þjónustu.

Á undanförnum árum hefur ríkið árlega tekið til sín hluta af útvarpsgjaldinu og nýtt í óskyld verkefni þrátt fyrir óbreyttar lagakvaðir um víðtæka þjónustu og skuldbindingar RÚV. Útvarpsgjaldið sem hver einstaklingur greiðir er nú sambærilegt að krónutölu við það sem þekkist hjá öðrum norrænum ríkisfjölmiðlum. Það er nokkru lægra en hjá BBC og fleiri sambærilegum ríkisstöðvum í Evrópu. Stjórn RÚV hefur óskað eftir því að félagið fái útvarpsgjaldið óskert eins og kveðið er á um í útvarpslögum. Þannig mætti tryggja áframhaldandi öflugt Ríkisútvarp, með sambærilegar skyldur og hlutverk og verið hefur. Óbreytt útvarpsgjald dugir til að standa undir enn öflugri dagskrá og til að bæta dreifikerfið svo það nái til alls landsins. Ekki er þörf á að hækka útvarpsgjaldið frá því sem nú er eða veita sérstök fjárframlög til RÚV.

Traust og metnaður

Aðhald og ábyrgð í rekstri, samhliða vönduðum starfsháttum, er eitthvað sem við ætlumst til af öllum opinberum fyrirtækjum. Árangur almannafjölmiðils eins og Ríkisútvarpsins verður hins vegar á endanum mældur af trúverðugleika hans og því dýrmæta trausti sem þjóðin, eigendurnir, ber til hans. Til að viðhalda því trausti þarf Ríkisútvarpið að eiga daglegt samtal við þjóðina, efna til stórhuga og metnaðarfullra verka og standa ávallt vaktina þegar mikið liggur við. Ríkisútvarpið á að virkja samtakamátt þjóðarinnar á stórum stundum, setja ný viðmið og skara fram úr, leiða nýsköpun og taka áhættu, og síðast en ekki síst á Ríkisútvarpið að vera forvitin, gagnrýnin, gagnvirk og sjálfstæð stofnun. Tilgangurinn er í raun enn hinn sami og útvarpsstjóri, Vilhjálmur Þ. Gíslason, lýsti við upphaf útsendinga Sjónvarpsins fyrir fjörutíu og átta árum, „að tengja þjóðir og einstaklinga í skilningi og friði, vera vettvangur heilbrigðra skoðanaskipta, leiksvið margra lista, verkstæði fjölbreyttra framkvæmda, staður stórra drauma.“ Svo að þessi sýn megi lifa þurfum við að standa áfram vörð um Ríkisútvarp okkar allra.

Magnús Geir Þórðarson
Magnús Geir Þórðarson
Magnús Geir Þórðarson er útvarpsstjóri.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR