Kvikmyndaþátturinn Filmselskabet, sem danska sjónvarpið (DR) sýnir vikulega, fjallaði á dögunum um íslenskar kvikmyndir og hversvegna þær væru að gera það eins gott og raun ber vitni á alþjóðegum vettvangi.
Börkur Gunnarsson skrifar fyrir Morgunblaðið um móttökur síðustu myndar Sólveigar Anspach, Sundáhrifanna á Cannes hátíðinni, þar sem hún hlaut SACD verðlaunin fyrir bestu frönskumælandi myndina í Director's Fortnight dagskránni.
Ugla Hauksdóttir, sem á dögunum útskrifaðist úr námi í kvikmyndaleikstjórn frá Columbia University í New York og hlaut þar fyrstu verðlaun fyrir lokamynd sína, segir í viðtali við Vísi að hjartað leiti heim og handrit að kvikmynd í fullri lengd sé í bígerð.
Vefurinn Art of the Title, sem sérhæfir sig í titlasenum kvikmynda og sjónvarpsefnis, tekur fyrir titlasenuna í Ófærð og ræðir við höfund hennar, Börk Sigþórsson.
Úti að aka er heimildamynd um ferð rithöfundanna Einars Kárasonar og Ólafs Gunnarssonar, sem létu draum sinn rætast um að fara þvert yfir Ameríku eftir Route 66 á 1960 árgerð af kadilakk og skrifa um það bók. Með í för voru útgefandinn Jóhann Páll Valdimarsson og kadilakksérfræðingurinn Steini í Svissinum ásamt Sveini M. Sveinssyni kvikmyndagerðarmanni í Plús film sem festi ævintýrið á filmu. Myndin verður frumsýnd í Bíó Paradís á fimmtudag.
Stuttmyndir Guðmundar Arnars Guðmundssonar, Hvalfjörður og Ártún, halda áfram sigurgöngu sinni á kvikmyndahátíðum heimsins. Hvalfjörður var á dögunum valin besta leikna myndin á Zoom – Zblizenia kvikmyndahátíðinni í Jelenia Gora í Póllandi og Ártún besta leikna stuttmyndin á Mediawave kvikmyndahátíðinni í Komárom í Ungverjalandi.