Hjartasteinn Guðmundar Arnars Guðmundssonar vann til tvennra alþjóðlegra verðlauna um síðustu helgi, í Svíþjóð og Mexíkó. Aðalleikarar myndarinnar, Baldur Einarsson og Blær Hinriksson, voru viðstaddir sitthvora hátíðina og veittu verðlaununum viðtöku.
Þættirnir Líf eftir dauðann verða frumsýndir á RÚV um páskana, en þar leikur Björn Jörundur Friðbjörnsson miðaldra poppara sem á að keppa fyrir Íslands hönd í Eurovision, en allt fer úr skorðum þegar móðir hans deyr. Leikstjóri er Vera Sölvadóttir og semur hún einnig handrit ásamt Lindu Vilhjálmsdóttur. Stikla verksins hefur verið opinberuð.
Skjaldborg, hátíð íslenskra heimildamynda, fer fram á Patreksfirði dagana 2.-5. júní næstkomandi. Hátíðin hefur nú auglýst eftir myndum en umsóknarfrestur er til 24 apríl.
Kvikmyndin Víti í Vestmannaeyjum verður tekin upp í Vestmannaeyjum nú í sumar. Áheyrnarprufur verða haldnar í Reykjavík 1. apríl í Langholtsskóla. Leitað er að strákum og stelpum á aldrinum 9 - 11 ára til að leika og koma fram í myndinni.
Velta í framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsefnis nam alls tæplega 20 milljörðum króna á árinu 2016 og hefur aldrei verið hærri eins og sjá má af meðfylgjandi grafi. Aukning frá fyrra ári nemur hvorki meira né minna en 83,6%.
Heimildamyndin 15 ár á Íslandi eftir Jón Karl Helgason verður frumsýnd í Bíó Paradís þann 22.mars næstkomandi. Myndin fylgist með lífi taílenskrar fjölskyldu á Íslandi síðastliðin 15 ár.
Þeir Markelsbræður, Örn Marinó Arnarson og Þorkell Harðarson, eru þessa dagana í Aþenu að undirbúa tökur á heimildaþáttaröðinni Stolin list (Booty). Þáttaröðin mun fjalla um stöðuna á menningarlegum hornsteinum sem hafa verið teknir frá upprunaþjóðum og komið fyrir á höfuðsöfnum fyrrum nýlenduvelda. Líkt og gert var við miðaldahandrit Íslendinga á sínum tíma og Parthenon höggmyndirnar grísku.
Björn Hlynur Haraldsson, sem nú birtist reglulega í annarri syrpu Fortitude, fer með stórt hlutverk í mexíkósku myndinni Me estás matando Susana (Þú drepur mig Susana) þar sem hann meðal annars tuskast á við hinn kunna leikara Gael Garcia Bernal.
Elísabet Ronaldsdóttir er klippari hasarmyndarinnar Atomic Blonde með Charlize Theron í aðalhlutverki. Myndin er væntanleg innan skamms. Elísabet mun síðan klippa ofurhetjumyndina Deadpool 2 með Ryan Reynolds en báðar myndirnar eru að verulegu leyti gerðar af sama teymi og stóð á bakvið harðhausamyndina John Wick með Keanu Reeves.