„Hrútar“ endurgerð í S-Kóreu og Ástralíu

Hrútar Gríms Hákonarsonar verður endurgerð í S-Kóreu og Ástralíu á næstu árum og hafa samningar þar að lútandi verið undirritaðir.

Vísir segir frá:

Endurgerð Hrúta í Ástralíu er í höndum framleiðslufyrirtækisins WBMC í samvinnu við Screen Australia.

„Í Ástralíu er verkefnið komið frekar langt, búið að endurskrifa handritið og byrjað að máta það við leikstjóra og leikara, en ég má ekkert segja nánar frá því að svo stöddu,“ segir Grímar Jónsson, framleiðandi Hrúta.

Yong Film, framleiðslufyrirtæki Syd Lim, framleiðanda Old Boy, hefur tryggt sér réttinn á endurgerð myndarinnar í S-Kóreu og Grímar segir að persónusköpun Hrúta hafi höfðað mjög til Kóreumannanna.

Þúsundir frömdu sjálfsmorð
„Þau féllu fyrst og fremst fyrir sögu bræðranna. Þýðing fjölskyldunnar, traust og áreiðanleiki eru mjög fyrirferðamikil hugtök í S-Kóreyskri menningu. Saga bræðranna í Hrútum getur gerst hvar sem er, en það er vissulega áhugavert að skoða hluti eins og sauðfjármenningu í þessum löndum. Í Seúl er t.a.m. sheep-cafe, kaffihús þar sem maður getur fengið sér bolla og klappað kindum. Í Ástralíu frömdu þúsundir sauðfjár sjálfsmorð eftir að hafa borðað einhverja baneitraða plöntu sem dreifði sér eftir mikla skógarelda, “ segir Grímar ennfremur.

Aðstæður í Suður-Kóreu og Ástralíu eru um margt ólíkar íslenskum aðstæðum. Bræðurnir, sem Siggi Sigurjóns og Theodór Júlíusson leika, geta t.d. ekki lent í snjóstormi í Ástralíu. Þeir bræður munu því lenda í skógareldum.

„Já, það verður mjög fyndið að sjá þetta. Við munum semsagt sjá þessa íslensku bændur tala kóresku og berjast við hitabylgjur hinum megin á hnettinum,“ segir Grímar og hlær.

Hrútar hafa farið sigurför um heiminn síðan hún vann aðalverðlaun Un Certain Regard flokksins á Cannes kvikmyndahátíðinni 2015. Myndin hefur verið sýnd í kvikmyndahúsum um allan heim, unnið yfir 30 alþjóðleg verðlaun og hlaut 11 eddustyttur 2016.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR