Lói - þú flýgur aldrei einn í leikstjórn Árna Ólafs Ásgeirssonar hlaut aðalverðlaun Alþjóðlegu barnamyndahátíðarinnar í Kristiansand í Noregi í dag. Þetta eru fyrstu alþjóðlegu verðlaun myndarinnar en hún tekur þátt í ýmsum hátíðum þessar vikurnar. Á undanförnum vikum hefur myndin verið tekin til sýninga í ýmsum löndum og er nú á topp tíu listum í Rússlandi, Mexíkó og Argentínu og hefur halað inn yfir 200 milljónir króna. Nú um helgina bætast fleiri lönd við.
Stikla kvikmyndarinnar Kona fer í stríð eftir Benedikt Erlingsson hefur verið opinberuð. Myndin verður frumsýnd í Critic's Week flokknum á Cannes hátíðinni þann 12. maí en hér á landi þann 22. maí.
Börkur Sigþórsson leikstjóri hefur verið ráðinn til að leikstýra þremur fyrstu þáttunum af sex í nýrri spennuþáttaröð fyrir BBC, sem nefnist Baptiste. Þættirnir eru afleggjari af spennuþáttunum vinsælu The Missing. Þetta kemur fram á vef RÚV.
Hildur Guðnadóttir tónskáld var verðlaunuð fyrir tónlistina í bresku kvikmyndinni Journey's End á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Beijing í Kína um helgina. Þetta kemur fram á vef RÚV.
Þórarinn Þórarinsson skrifar í Fréttablaðið um Adam eftir Maríu Sólrúnu Sigurðardóttur og segir hana litla, hugljúfa og látlausa mynd sem risti djúpt á mjúklegan og hlýjan hátt.
"Einlæg og íhugul mynd sem nær að draga fram hugarástand aðalpersónunnar á lifandi og listrænan hátt", segir Gunnar Theodór Eggertsson um Adam eftir Maríu Sólrúnu Sigurðardóttur í Lestinni á Rás 1.
Jón Gnarr segir vinnuframlagi íslenskra handritshöfunda ekki gert nógu hátt undir höfði. Leikstjórar sjónvarpsþátta og kvikmynda fái yfirleitt allan heiðurinn af verkinu. Þrátt fyrir þrotlausa vinnu sem stendur yfir mánuðum og jafnvel árum saman fá handritshöfundar varla nafns síns getið. DV fjallar um þetta og leggur út af Fésbókarfærslu Jóns.
EFA Young Audience áhorfendaverðlaunin hafa farið fram frá árinu 2012 og tekur Ísland nú þátt í fyrsta skipti. Hátíðin fer fram þann 6. maí í Bíó Paradís. Gert er ráð fyrir að dagskrá hefjist kl. 9 og lýkur henni með verðlaunafhendingu sem hefst kl. 18 að íslenskum tíma.
Víti í Vestmannaeyjum eftir Braga Þór Hinriksson er áfram í þriðja sæti aðsóknarlistans eftir fimmtu sýningarhelgi og er heildarfjöldi áhorfenda kominn að 30 þúsund manns.
Útvarpsstjórar norrænu almannaþjónustumiðlanna fimm kynntu á dögunum „Nordic 12“ sem er nýtt samstarf um framleiðslu og sýningu leikins efnis á almannastöðvum Norðurlandanna. Skarphéðinn Guðmundsson dagskrárstjóri RÚV segir í spjalli við Klapptré að þetta muni skjóta fleiri stoðum undir fjármögnun íslensks efnis sem og tryggja aðgengi þess á hinum Norðurlöndunum.
Vilius Petrikas kvikmyndagerðarmaður er einn þeirra sem fá tilnefningu til Daytime Emmy verðlaunanna bandarísku fyrir framúrskarandi kvikmyndatöku þáttanna Ocean Treks sem meðal annars voru myndaðir hér á landi.
Baltasar Kormákur og Reykjavík Studios opnuðu formlega nýtt kvikmyndaver í Gufunesi á sumardaginn fyrsta, en tökur á annarri syrpu Ófærðar hafa staðið þar yfir að undanförnu. Klapptré ræddi við Baltasar um rekstargrundvöllinn og hvernig hann sér þetta allt fyrir sér.
Anna Hildur Hildibrandsdóttir hefur starfað í tónlistarbransanum í um tvo áratugi - sem umboðsmaður hljómsveita, framkvæmdastjóri ÚTÓN og undanfarin ár sem framkvæmdastjóri Nordic Music Export. Á síðasta ári söðlaði hún um og sneri sér að kvikmyndaframleiðslu. Klapptré spurði hana hvernig það hefði komið til.
Guðrún Þ. Stephensen leikkona lést í dag, 87 ára að aldri. Hún fæddist í Reykjavík 29. mars 1931 og var frumburður hjónanna Dórótheu Breiðfjörð og Þorsteins Ö. Stephensen.
Hvítur, hvítur dagur, næsta kvikmynd leikstjórans Hlyns Pálmasonar í fullri lengd er nú í þróun og er eitt af aðeins sjö verkefnum sem valin hafa verið í nýtt átak hjá Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum sem kallast „Nordic Distribution Boost“.
Cineuropa ræðir við Hrönn Sveinsdóttur framkvæmdastjóra Bíó Paradísar um starfsemina og þær áskoranir sem fylgja því að reka kvikmyndahús sem leggur áherslu á listrænar kvikmyndir, klassíkina og tilheyrandi kvikmyndarómantík.
Víti í Vestmannaeyjum eftir Braga Þór Hinriksson er nú í þriðja sæti aðsóknarlistans eftir fjórðu sýningarhelgi og er heildarfjöldi áhorfenda kominn að 28 þúsund manns.
Sagafilm Nordic, sem staðsett er í Stokkhólmi og stýrt af Kjartani Þór Þórðarsyni, tekur þátt í fjármögnun tveggja norrænna þáttaraða sem nú er í undirbúningi. Þetta eru annarsvegar Cold Courage sem kynnt var á nýlokinni MIPTV messunni og norræna streymisveitan Viaplay mun sýna - og hinsvegar finnska serían Layla sem kynnt verður á Series Mania fjármögnunarmessunni í Lille í Frakklandi í byrjun maí.