“Kona fer í stríð” valin á Critic’s Week í Cannes

Halldóra Geirharðsdóttir fer með aðalhlutverkið í Kona fer í stríð.

Kona fer í stríð eftir Benedikt Erlingsson hefur verið valin til keppni í Critic’s Week á kvikmyndahátíðinni í Cannes, sem fram fer í maí. Þetta var tilkynnt í morgun.

Kona fer í stríð segir frá kórstjóra á fimmtugsaldri sem ákveður að bjarga heiminum og lýsir yfir stríði gegn allri stóriðju í landinu. Hún gerist skemmdarverkamaður og er tilbúin til að fórna öllu fyrir móður jörð og hálendi Íslands, þar til munaðarlaus stúlka stígur inn í líf hennar. Að bjarga einu barni eða að bjarga heiminum?

Benedikt Erlingsson leikstýrir og skrifar handritið ásamt Ólafi Egilssyni. Í aðalhlutverki er Halldóra Geirharðsdóttir og í öðrum hlutverkum eru Davíð Þór Jónsson, Magnús Trygvason Eliassen, Ómar Guðjónsson og Jóhann Sigurðsson. Myndin, sem er íslensk/frönsk/úkraínsk samframleiðsla, er framleidd af Marianne Slot, Benedikt Erlingssyni og Carine Leblanc og meðframleidd af Serge Lavrenyuk, Bergsteini Björgúlfssyni og Birgittu Björnsdóttur. Bergsteinn Björgúlfsson sér um stjórn kvikmyndatöku, Davíð Alexander Corno klippir myndina og Davíð Þór Jónsson semur tónlist myndarinnar. Með sölu erlendis fer Beta Cinema.

Kona fer í stríð er áttunda kvikmyndin í fullri lengd eftir íslenskan leikstjóra sem valin er til sýninga á Cannes hátíðinni og önnur kvikmyndin sem sýnd er á Critic’s Week, en sú fyrri var Ingaló eftir Ásdísi Thoroddsen 1992. Hinar eru:

  • Hrútar, 2015, Grímur Hákonarson (Un certain régard)
  • Eldfjall, Rúnar Rúnarsson 2011 (Director’s Fortnight)
  • Voksne mennesker, Dagur Kári 2005 (Un certain régard)
  • Stormviðri, 2003 Sólveig Anspach (Un certain régard)
  • Sódóma Reykjavík, 1993, Óskar Jónasson (Director’s Fortnight)
  • Atómstöðin, 1984, Þorsteinn Jónsson (Director’s Fortnight)

Einnig skal nefna hina norsk/íslensku Vandræðamaðurinn (Den brysomme mannen) eftir Jens Lien sem tók þátt 2006 og frönsk/íslensku stuttmyndina Víkingar eftir Magali Magistry sem tók þátt 2013.

The International Critics’ Week (Semaine de la Critique), er elsta hliðarprógramm Cannes hátíðarinnar, stofnað 1962 og er í umsjá Samtaka franskra kvikmyndagagnrýnenda. Prógrammið sýnir fyrstu og aðrar myndir leikstjóra og leggur því áherslu á að uppgötva nýtt hæfileikafólk.  Bernardo Bertolucci, Leos Carax, Wong Kar-wai, Jacques Audiard, Arnaud Desplechin, Gaspar Noé, François Ozon og Alejandro González Iñárritu eru meðal þeirra leikstjóra sem komu út með fyrstu myndir sínar í þessum flokki.

Aðeins sjö myndir eru sýndar í Critic’s Week, auk sjö stuttmynda. Keppt er um The Critics’ Week Grand Prix, SACD verðlaunin fyrir besta handrit, ACID dreifingarverðlaunin, og France 4 Visionary Award (Prix Revelation), auk þess sem myndirnar koma einnig til greina vegna Caméra d’Or verðlaunanna.

Arctic, Bergmál og Vargur ­einnig á hátíðinni

Arctic, bandarísk kvikmynd sem er meðframleidd af íslenska framleiðslufyrirtækinu Pegasus, verður heimsfrumsýnd á miðnætursýningum hátíðarinnar.

Bergmál, nýjasta kvikmynd Rúnars Rúnarssonar sem er nú í þróun, mun taka þátt á Cannes Atelier, vettvangi fyrir leikstjóra og framleiðendur sem miðar að því að hjálpa því að taka næstu skref í þá átt að koma verkefninu af stað, t.a.m. með því að standa fyrir fundum með mögulegum fjármögnunaraðilum.

Þá verður Vargur, fyrsta kvikmynd Barkar Sigþórssonar í fullri lengd sýnd á markaðssýningu á hátíðinni. Vargur verður frumsýnd hér á landi þann 4. maí næstkomandi.

Sjá nánar hér: Kona fer í stríð Woman at War | La Semaine de la Critique of Festival de Cannes

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR