Benedikt gagnrýnir Laufeyju

Á Facebook síðu sinni leggur Benedikt Erlingsson leikstjóri og handritshöfundur út af viðtali Nordic Film and TV News við Laufeyju Guðjónsdóttur, fráfarandi forstöðumann Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.

Texti Benedikts er svohljóðandi:

MANNLEGT EN ÓSMEKKLEGT!

Laufey Guðjónsdóttir kveður með drottningarviðtali við fréttablað Nordic Film and TV News. Í lok viðtalsins er Laufey spurð:

On a personal level, are there celebrations of films or talents that you remember with fondness?

Og þá svarar Laufey:

“There are so many moments…it’s hard to choose. It has been going upwards year after year. I’ve been so lucky to work next to so many amazing talents. It took some time for Iceland to win at the Nordic Council Film Prize and that came in 2014 with Of Horses and Men….”

Ég verð að nota þennan vettvang til að halda því til haga að Laufey Guðjónsdóttir veðjaði EKKI á Hross í oss á sínum tíma. Því hún veitti okkur ekki fullan framleiðslustyrk. Við fengum svona “mini” styrk.

Ástæðan sem mér var gefin var að ég væri byrjandi.

Gott og vel, en á sama ári veitti hún öðrum byrjanda ríflegan fullan styrk, og svo öll næstu ár á eftir veitti hún byrjendum fulla framleiðslustyrki fyrir sínar fyrstu myndir og er það vel.

En þessi litli stuðningur við Hrossið varð mér ekki sársaukalaus og af því að ég var með getulausan framleiðanda mér við hlið, þá tók ég lán, með veði í húsi mínu og safnaði fjárfestum. Það voru vinir, fjölskylda og velunnarar sem hlupu undir bagga og þannig náði ég að safna því sem upp á vantaði. Þetta er svona gamalkunnugt stef í íslenskri kvikmyndagerð.

En svo vann ég til Norðurlandaverðlaunanna fyrir Hrossið, fyrstur íslenskra kvikmyndagerðarmanna, eins og Laufey skreytir sig nú með.

Það kom mér því á óvart þegar ég leitaði svo til Laufeyjar árið 2016 með næstu mynd: „Kona fer í stríð“. Þá var okkur einfaldlega hafnað. Okkur tókst þó að kría út úr henni vilyrði fyrir næsta ár 2017, en þá aftur aðeins “mini” styrk og í þetta sinn án skýringa.

Kona fer í stríð vann svo eins og Hrossið til fjölda verðlauna, m.a. Norðurlandaverðlaunanna og hef ég oft skálað við Laufeyju rjóða í kinnum á hátíðum þar sem þessum íslensku myndum hefur verið hampað.

Mér finnst reyndar Laufey vera í fullum rétti að hafna umsóknum og velja hverjum hún veitir fulla styrki, hverjum hálfa og hverjum ekki. Hún hefur til þess óskoraðar lagaheimildir og það er beinlínis vinna hennar að velja.

Hinsvegar finnst mér það ósmekklegt í ljósi þessa og annarra afskipta hennar af mínum verkum að hún í lok ferilsins skreyti sig með “Hrossinu” sem hún studdi ekki að fullu.

Auðvitað er það óskaplega mannlegt en samt ósmekklegt.

Það er mikil gæfa að við búum í ríki sem fjárfestir í menningu og listum. Það er ein stærsta gæfa okkar, sem þjóð, að um þessa stefnu ríki nokkuð breið pólitísk samstaða.

Það er því að sama skapi mikilvægt að vörslumenn og konur þessara mikilvægu sameiginlegu sjóða vandi sig.

Ég óska þess að nýr forstöðumaður KMÍ verði ekki haldinn frestunaráráttu, því það laskar allan undirbúning verkefna, jafnvel þó að jákvæð svör fáist á endanum.

Íslensk kvikmyndagerð hefur verið því marki brennd síðustu 20 árin. Undirbúningur hefst of seint og ástæðan er óútskýrður hægagangur á skýrum svörum frá KMÍ. Þessi meðvitaða eða ómeðvitaða aðferð hefur oft, í besta falli skaðað framleiðsluna, eða í versta falli, eyðilagt fjármögnunarferlið.

Ég óska þess að nýr forstöðumaður innleiði meiri heiðarleika og gegnsæi og þori að standa með ákvörðunum sínum.

Að umsækjendur sem ekki eru þóknanlegir fái heiðarleg svör en séu ekki þreyttir á önglinum, árum saman með Kafka-ískum skrifræðistrixum. Það er mikil sóun á lífsorku.

Og síðast en ekki síst óska ég þess að nýr forstöðumaður eða kona verði ekki jafn þaulsetinn í embætti og Laufey Guðjónsdóttir hefur verið. Það er víti til að varast. Sá eða sú sem fær slíkt vald í hendur má ekki halda því of lengi. 5 ár er langur tími. 10 ár of mikið. Hvað þá 20 ár.

Eins og dæmin um “Hrossið” og “Konuna” sanna getur slíkur hliðvörður fjármunanna gert mistök. Það er eðlilegt.

En sú staða að heil kynslóð listamanna eigi allt undir smekk eða “vináttu” einnar konu (eða manns), um hálfa starfsævina, er bara barbarí og á ekki að viðgangast í okkar samfélagi.

Það er ávísun á þóknunar og þýlindis menningu og er beinlínis hættulegt íslenskri kvikmyndagerð og fer gegn öllum okkar grunngildum.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR