
María Sólrún Sigurðardóttir leikstjóri sækir í eigin reynslu í mynd sinni Adam, sem sýnd verður á Alþjóðlegri barnamyndahátíð í Bíó Paradís um helgina. Friðrika Benónýsdóttir ræddi við hana fyrir Mannlíf.
Úr viðtalinu:
Þetta leiðir talið að umræðunni um stöðu kvenna í kvikmyndabransanum, hver er reynsla Maríu Sólrúnar af henni?
„Þegar ég var barn var ég handviss um að þetta myndi allt breytast þegar ég væri orðin fullorðin, þá yrði sko komið jafnrétti milli kynjanna,“ segir hún og andvarpar. „Sérstaklega eftir að mæður okkar voru búnar að fara niður á Austurvöll 1975. En ég hef svo sannarlega horft upp á misrétti milli kynjanna í bransanum. Það er ekkert endilega bara körlunum að kenna, kerfið er svo rótgróið. Ég get auðvitað bara talað út frá sjálfri mér: Ég átti börnin mín og hefði ekki viljað missa af því en það fer vissulega mikill tími og kraftur í það, hvað þá að vera einstæð móðir. Og manni fannst maður kannski vera að missa af lestinni þegar strákarnir fóru að taka fram úr manni. Ég var búin að gera eina mynd en svo komu þeir með næstu mynd og næstu og næstu og þá gefst maður pínulítið upp, finnst ekki taka því að keppa við þá. Maður fær líka að heyra það að bransinn segi við einhvern framleiðanda sem ætlar að fara að vinna með þér „Bíddu, hún hefur nú ekkert gert í tíu ár. Getur hún þetta nokkuð lengur?“ Við konur þurfum bara að skapa okkur okkar eigin vettvang og hunsa þetta viðhorf. Þetta var mitt val og ég get alveg komið aftur. Það er heldur ekki eins og ég hafi verið fjarverandi í bransanum þennan tíma, ég var alltaf að skrifa handrit að stórum sjónvarpskvikmyndum. Starf leikstjórans er auðvitað meira dóminerað af karlmönnum en við ættum frekar að ýta á það að kerfið taki okkur inn á okkar forsendum. Kvikmyndasjóður hérna heima hefur til dæmis staðið sig mjög vel í því. Hér hafa konur fengið styrki til að gera sínar fyrstu myndir í fullri lengd eftir fimmtugt, sem er algjörlega frábært.“
Leikstýrði syninum án orða
María Sólrún er sjálf rúmlega fimmtug og Adam er hennar fyrsta mynd í fullri lengd síðan 2004, hvað ýtti henni af stað aftur?
„Að börnin voru farin að heiman,“ segir hún og hlær. „Ég var alveg búin að vera með leikstjórnarverkefni í þessi fjórtán ár sem voru komin vel áleiðis og það var komin milljón evra í eitt þeirra þegar það sprakk. Og ég var kannski búin að fá leiða á því að eltast við það að rúlla upp verkefnum eftir þessu munstri. Að vera með handrit sem við erum að þróa og umskrifa og umskrifa aftur og svo koma einhverjir frá sjónvarpsstöðvunum og verða að fá að segja sitt og svona gengur það fram og til baka. Mig langaði að leyfa sköpunargáfunni að fá meiri útrás og gera þetta öðruvísi fyrst ég var að þessu á annað borð. Gera þetta á mínum eigin forsendum og fjármagna það sjálf. Ég sleppti því til dæmis að skrifa handrit, sem sumum þykir skrýtið þar sem ég hef hingað til aðallega unnið við að skrifa handrit. Ég vildi bara gera þetta skemmtilegt, vera með smávegis tilraunastarfsemi. Við byrjuðum með hugmynd og karakter sem var með stórt vandamál sem okkur fannst snerta okkur. Við fórum pínulítið í þetta eins og heimildarmyndagerðarmenn, fylgdumst með karakternum og því sem hann var að takast á við. Svo klipptum við það efni sem við vorum komin með og langaði þá að gera meira, þannig að þetta varð þriggja ára ferli, þar sem við vorum að taka og klippa, taka meira og klippa það. Svoleiðis vinnubrögð getur maður vanalega ekki fjármagnað og leyft sér.“
Og ennfremur:
Við tölum um það í sjónvarpsþáttum samtímans að fjalla um konur og ég spyr, eins og auli, hvort María haldi að það sé komið til að vera, eða hvort konur fái bara sviðsljósið núna af því það er búið að þrýsta svo harkalega á kvikmyndafyrirtækin. Það þykir henni fáránleg spurning.
„Ég held að þetta sé komið til að vera,“ segir hún ákveðin. „Þetta er eins og að spyrja svart fólk hvort þessar myndir með áherslu á reynslu svartra séu ekki bara tískufyrirbæri. Kannski eru orðnir margir þættir um konur núna, en í vinnu minni sem ráðgjafa hjá kvikmyndasjóði hef ég ekki orðið vör við það að konur séu að taka kvikmyndagerðina yfir. Það eru enn fleiri karlar sem sækja um, þannig að í augnablikinu er alla vega engin hætta á að þeim verði bolað út.“
Ég heyri á Maríu Sólrúnu að henni finnst þessi umræða út í hött en ég þrjóskast við og spyr hvort hún sem kona sem gjörþekkir kvikmyndabransann trúi því í alvöru að hlutföll kynjanna jafnist út. Það sljákkar aðeins í henni.
„Sko. Það er alveg öruggt að tilhneigingin er sú að bransinn vill fara að sýna það að hann sinni ákveðnum skyldum. Það er alveg réttlætanlegt að spyrja hversu mikið sé á bak við það. En ef við konur sjálfar erum svolítið duglegar að nota tækifærið í leiðinni til þess að forma bransann pínu hagstæðar fyrir okkur, þannig að þú getir átt fjölskyldu og eignast börn en samt fengið að hafa rödd í þessum bransa, þá helst þetta svona. Ég trúi því. Það þýðir ekki endilega að konur þurfi að fara að gera kvikmyndir svona seint eins og ég, heldur skiptir máli að þú þykir hafa einhverja vikt í greininni þótt þú sért ekki að unga út efni sem leikstjóri eins hratt og einhverjir aðrir. Mér finnst allavega núna vera að koma fram fleiri hugrakkar stelpur með sterka rödd hér á Íslandi. Ég er ekki að meina að þær stelpur sem komu á undan hafi ekki verið hugrakkar með sterka rödd, en þeim hefur fjölgað sem er mjög jákvætt.“
Konur skila sér síður út á markaðinn
María Sólrún segir sömu tiltektirnar vera í gangi í kvikmyndaiðnaðinum í Þýskalandi, þar sé jafnvel talað um að setja kvóta þannig að sum stóru kvikmyndafyrirtækin séu búin að setja sér það markmið að fimmtíu prósent leikstjóra þeirra séu konur. Og áhrifin sjáist víðar.
„Kvikmyndahátíðin í Berlín tók þetta mjög alvarlega í ár, buðu miklu fleiri kvikmyndum gerðum af konum en áður hefur tíðkast. Þannig að umræðan hefur alveg áhrif. Það hefur lengi verið þannig í kvikmyndaskólum í Þýskalandi að konur eru næstum helmingur nemenda en það hefur ekki skilað sér út á markaðinn. Það er þess vegna sem ég tala svona mikið um að við þurfum að leyfa okkur að gera þetta á eigin forsendum og vera ekki hræddar um að missa af lestinni ef við eignumst börn og fjölskyldu og það dregur úr afköstunum í einhvern tíma. Það er aldrei of seint að snúa aftur.“
Sjá nánar hér: Bað börnin að hjálpa sér að deyja – Mannlíf