spot_img
HeimViðhorfStjórna erlendar streymisveitur bráðum innlendri kvikmyndaframleiðslu?

Stjórna erlendar streymisveitur bráðum innlendri kvikmyndaframleiðslu?

-

María Sólrún Sigurðardóttir leikstjóri, handritshöfundur og fyrrum ráðgjafi hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands birtir grein þar sem hún veltir vöngum yfir því hvort stefnubreytingar sé að vænta í áherslum Kvikmyndamiðstöðvar.

Í grein Maríu í Kjarnanum segir:

Á dög­unum var aug­lýst eftir mann­eskju til að veita Kvik­mynda­mið­stöð Íslands for­stöðu. Sú sem gegnt hefur starf­inu und­an­farna ára­tugi mun láta af störfum í lok febr­ú­ar.

Ég hef heyrt margt kvik­mynda­gerð­ar­fólk halda því fram að með starfs­aug­lýs­ing­unni marki mennta­mála­ráðu­neytið nýja stefnu í gerð kvik­mynda og sjón­varps­efn­is. Ég las umrædda starfs­aug­lýs­ingu og hafði svo sam­band við ráðu­neyt­is­stjóra mennta­mála­ráðu­neyt­is­ins. Sím­talið gerði mér ljóst að það er ærin ástæða að upp­lýsa fólk um mögu­lega stefnu­breyt­ingu í kvik­mynda og sjón­varps­málum hér á landi og hvaða áhrif stefnu­breyt­ingin getur haft á menn­ingu okkar Íslend­inga.

Í starfs­aug­lýs­ing­unni gerir ráðu­neytið vissu­lega kröfu um að nýr for­stöðu­að­ili Kvik­mynda­mið­stöðvar Íslands hafi þekk­ingu á kvik­myndum og sjón­varps­efni. Það sem stingur hins vegar í stúf er að þess er sér­stak­lega getið að við­kom­andi þurfi að hafa stað­góða þekk­ingu á mál­efnum ljós­vaka­miðla sem og helstu straumum og stefnum í afþrey­ing­ar­efni. Þessi nýja áhersla á afþrey­ing­ar­efni og ljós­vaka­miðla, þ.e. útvarp og sjón­varp, kemur mér og öðru fag­fólki í kvik­mynda­geir­anum í opna skjöldu.

Ráðuneytisstjórinn tjáði mér að það væri ekk­ert leynd­ar­mál að heim­ur­inn væri að breyt­ast og að almenn­ingur sækt­ist einna helst í streym­isveitur nú til dags. Mér varð ljóst að ráðu­neyt­is­stjór­inn gerir sér ekki grein fyrir því alþjóð­lega póli­tíska vanda­máli sem yfir­taka streym­isveitna hefur und­an­farið haft með í för með sér um allan heim.
Okkar íslenski menn­ing­ar- og við­skipta­ráð­herra fór fyrir nokkru í ferð til Hollywood til að aug­lýsa landið sem ódýran töku­stað fyrir þar­lenda fram­leiðslurisa. Innan Evr­ópu­sam­bands­ins og Kanada er hins vegar í dag verið að þróa aðferðir til vernda eigin sjón­varps- og kvik­mynda­gerð gegn arðráni sem þess­háttar útsölur geta haft í för með sér. Und­ir­rituð var stödd á heims­þingi hand­rits­höf­unda í Kaup­manna­höfn á dög­un­um, þar sem heyra mátti sorg­ar­sögur frá fyrstu hendi. For­maður kanadísku rit­höf­unda­sam­tak­anna, frægir danskir þáttar­aða­höf­undar og fleiri, lýstu því hvernig erlendar streym­is­þjón­ustur hafa í auknum mæli yfir­tekið inn­lendan markað land­anna.

Hættan er sú að fag­fólki í sjón­varps- og kvik­mynda­gerð verði settar afar þröngar skorð­ur, að það þurfi að mæta fyr­ir­fram gefnum for­múlum eða „straumum og stefn­um“. Þekkt er að launa­kröfum og -skil­yrðum er ekki sinnt, inn­lend verk­efni kom­ast ekki í fram­leiðslu þar sem stóru erlendu for­múlu­verk­efnin taka yfir allt tækni­fólk­ið, fjár­fram­lög til inn­lendra verk­efna minnka. Erlend stór­fyr­ir­tæki eru farin að stjórna bæði atvinnu­grein­inni og menn­ing­unni áður en lag­ara­mm­inn nær að taka við sér. Þessar nýj­ung­ar, ,,straumar og stefn­ur“ eru greini­lega að ryðja sér til rúms á Íslandi í dag.

Ég vil beina því til stjórn­valda að það er afar mik­il­vægt að okkar litla og við­kvæma íslenska kvik­mynda- og sjón­varps­menn­ing, og iðn­að­ur­inn í kring­um, hana fái vernd og stuðn­ing til að halda áfram að þróa sína eigin rödd og eigin fram­leiðslu. Þó að ráðu­neyt­is­stjór­inn og aðrir leik­menn eins og hann skemmti sér kannski fyrst og fremst yfir sjón­varps­þátt­röðum á streymi­veitum þessa dag­ana, þá er list­grein kvik­mynd­ar­innar ennþá mik­il­vægur grunnur sem bæði þróun kvik­mynda- og sjón­varps­menn­ingar og iðn­grein­anna byggir á.

Allt nám fyrir list­rænt fag­fólk mið­ast ennþá fyrst og fremst við kvik­mynda­gerð. Afrakstur íslenskrar kvik­mynda­gerðar birt­ist svo oft í keppnum á alþjóð­legum kvik­mynda­há­tíðum að athygli vek­ur. Ólíkur iðn­aður stóð áður á bak við fram­leiðslu kvik­mynda ann­ars­vegar og sjón­varps­efnis hins­veg­ar. En end­ur­vakn­ing sjón­varps­þáttar­að­ar­innar upp úr alda­mót­unum byggir einmitt á láréttu frá­sagn­ar­formi kvik­mynd­ar­innar og leitar gjarnan í smiðju kvik­mynda­gerð­ar­fólks þegar kemur að list­rænni sköpun efn­is­ins. Mér skilst að nem­endur nýstofn­aðrar kvik­mynda­deildar Lista­há­skóla Íslands hafi orðið hissa þegar háskóla-, iðn­að­ar- og nýsköp­un­ar­ráð­herra mætti í heim­sókn og lagði áherslu á alla þá frá­bæru mögu­leika sem nem­endur gætu fengið við alþjóð­leg verk­efni eins og True Det­ect­ive á Íslandi. Nem­end­urnir hafa kannski vænst þess að ráð­herr­ann tal­aði um íslenska kvik­mynda­gerð. Varla getur mein­ingin verið sú að rándýr mennt­un, sem skól­inn býður uppá, þjóni fyrst og fremst þeim til­gangi að skapa ódýrt vinnu­afl fyrir erlend gróða­fyr­ir­tæki?

­Evr­ópsku kvik­mynda­verð­launin voru veitt í Hörpu á dög­un­um. Flott og metn­að­ar­full hátíð. Þar mátti heyra annan fram­leið­anda verð­launa­kvik­mynd­ar­innar TRI­ANGLE OF SAD­NESS minn­ast á það í ræðu að enn sjá evr­ópskir fram­leið­endur fyrst og fremst hlut­verk sitt í að styðja við þá sem skapa efn­ið, á meðan fram­leið­endur hinum megin við Atl­ants­hafið væru aðal­lega að fylla leiðslur efn­isveitn­anna. Vin­sældir ensku­mæl­andi myndefnis í dag, hvort sem er á kvik­mynda­tjaldi, sjón­varps- eða tölvu­skjá, eru að miklu leyti byggðar á yfir­töku Banda­ríkj­anna á iðn­að­inum og dreifi­kerf­inu eftir sigur í seinni heims­styrj­öld­inni. Íslend­ingar eiga stundum erfitt með að taka það í mál til séu betri baunir en ORA græn­ar. Sú hugsun stafar af gömlum vana sem varð til vegna tak­mark­aðs fram­boðs og því sem haldið var að okkur ára­tugum sam­an. Sama mætti segja um þá sjón­varps- og kvik­mynda­fram­leiðslu sem helst er haldið er að okkur í dag. Rétt eins og íslenskri tón­list hefur tek­ist að fanga athygli fyrir að fara eigin og ótroðnar slóð­ir, eiga okkar kvik­myndir og sjón­varps­efni að fá að gera það áfram líka og er það mik­il­væg­ara en nokkru sinni fyrr að vernda fram­leiðslu­um­hverfið til þess hér á landi.

Hver sem nýr stjórn­andi íslensku Kvik­mið­stöðv­ar­innar verð­ur, bíður henn­ar/hans vanda­samt en mik­il­vægt verk­efni. Hann/hún mun fljótt fá að vita frá kol­legum sínum á hinum Norð­ur­lönd­unum að aðal­vanda­málið sem þau standa frammi fyrir þessa dag­ana er að finna leiðir til spyrna við því að pen­ing­arnir úr sjóðnum fari ekki allir í þróun á verk­efnum fyrir erlendar streym­isveit­ur.

Höf­undur er leik­stjóri og hand­rits­höf­und­ur.

HEIMILDKjarninn
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

ÞAÐ NÝJASTA Á KLAPPTRÉ

Fáðu nýjasta efnið á Klapptré í pósthólfið þitt tvisvar í viku, á mánudögum og fimmtudögum.

Þú getur afskráð þig hvenær sem er.

NÝJUSTU FÆRSLUR