Þessar myndir verða frumsýndar á Skjaldborg 2024

Skjaldborg, hátíð íslenskra heimildamynda, hefur opinberað myndaval sitt í ár. 

Alls verða frumsýndar 13 nýjar heimildamyndir. Einnig verður sýnt úr sex heimildamyndum í vinnslu. Hátíðin stendur um hvítasunnuhelgina næstu á Patreksfirði, dagana 17.-20 maí.

Nánari upplýsingar eru hér.

Verkin eru sem hér segir:

HEIMILDAMYNDIR:

FJALLIÐ, ÞAÐ ÖSKRAR
Leikstjórn: Daníel Bjarnason. Framleiðsla: Þórunn Guðlaugsdóttir
Þann 16. janúar árið 1995 féll mannskætt snjóflóð á sjávarþorpið Súðavík. Í þessari hjartnæmu heimildamynd eru sagðar sögur þriggja einstaklinga sem upplifðu hamfarirnar frá mismunandi sjónarhornum. „Fjallið það öskrar“ er heiður til vestfirðinga, minning um þau líf þeirra sem fórust og vitnisburður um styrk samfélags sem stóð saman á myrkum tímum.

GÖNGIN
Leikstjórn: Björgvin Sigurðarsson og Hallur Örn Árnason. Framleiðsla: Hallur Örn Árnason
Um aldarmótin grasseraði grafíti um alla Reykjavík. Tjáningarform sem að gerendur álita list en yfirvöld skemmdarverk. En í undirgöngunum við Klambratún réð Jói ríkjum. Opinber starfsmaður sem hafði eigin sýn á málefnið.

HANNA, SHE IS A REBEL
Leikstjórn: Laura Andrea López Estrada. Framleiðsla: Eduardo Naranjo
Hanna Pálsdóttir er 83 ára íslensk kona sem sneri lífi sínu við þegar hún hætti sem bankastarfsmaður og innritaði sig í listaskóla til að verða málari. Þessi heimildarmynd fylgir Hönnu í gegnum sköpunarferlið við undirbúning fyrir nýjustu sýningu sína þar sem hún rifjar upp líf sitt sem aktívisti og útibússtjóri áður en málaralistin bankaði upp á í lífi hennar. Fyrir þessa konu er það aldrei of seint til að byrja aftur.

KÚREKI NORÐURSINS, SAGAN AF JOHNNY KING
Leikstjórn: Árni Sveinsson. Framleiðsla: Árni Þór Jónsson, Ada Benjamínsdóttir, Halldór Hilmisson, Lárus Jónsson & Andri Freyr Viðarsson
Gamall íslenskur kántry-söngvari sem er á krossgötum í lífinu gerir eina loka tilraun til að fara aftur á bak. En um leið þarf hann að gera upp fortíðina sem er eins og myllusteinn um háls hans.

PURRKUR PILLNIKK: SOFANDI VAKANDI LIFANDI DAUÐUR
Leikstjórn: Kolbeinn Hringur Bambus Einarsson. Framleiðsla: Kolbeinn Hringur Bambus Einarsson & Tómas Sturluson
Hljómsveitin goðsagnakennda Purrkur Pillnikk kemur saman til að taka upp fjörutíu ára gamlan óútgefin söngvasveig: Orð fyrir dauða.

TURN OF THE CENTURY
Leikstjórn: Kjartan Trauner. Framleiðsla: Kjartan Trauner
Turn of the Century er nostalgísk tilraunamynd unnin í kringum plötuna Dream is Murder með íslensku hljómsveitinni Team Dreams. Myndin er samsett úr áður óséðu efni frá og í kringum aldamótin tvö þúsund í bland við nýrri tökur af hljómsveitinni. Turn of the Century gefur einstaka sýn inn í líf ungs fólks á Íslandi í kringum aldamótin.

YFIR EYÐIMÖRK
Leikstjórn: Agnes Lára. Framleiðsla: Agnes Lára
Við stígum inn í endurminningar Sigurveigar Guðmundsdóttur þar sem hún rifjar upp áhrifamikla dauðastund Theódóru Þuríðar Jónsdóttur á berklahælinu á Vífilstöðum eftir að hafa legið þar með henni í 6 mánuði til ársins 1928. 44 árum síðar lifnar ósögð saga Theódóru við og verður að táknmynd verndar andspænis hörmulegum náttúruhamförum.

MEMOIR OF A MORPHED CINEMATIC REALITY VOL. 2
Leikstjórn: Bryn Nóel Francis. Framleiðsla: Bryn Nóel Francis
Mordechai situr á móti maka háns, tökumanninum, í leit að heimili. Á meðan minnist háni fortíðarinnar, fagnar minningum og syrgir; minnist hefða, siða, og gilda. Allt fólkið og sögur þeirra eru geymdar í minningu Rabbi, mitt habibi, minn ástkæri Mordechai Eli Mkrtchyan Ben Ezra.

DÓRÓFÓNN?
Leikstjórn: Nikulás Tumi Hlynsson. Framleiðsla: Nikulás Tumi Hlynsson, FAMU International
Ferðalag sem kannar Dórófóninn, leit að skapara hans og árekstrar við hið óumflýjanlega rugl sem virðist fylgja þessu sérkennilega hljóðfæri.

KIRSUBERJATÓMATAR
Leikstjórn: Rakel Andrésdóttir. Framleiðsla: Rakel Andrésdóttir
Stutt teiknimynd um sumarið sem ég var send í sveit til þess að týna og flokka kirsuberjatómata.

VÉLSMIÐJA 1913
Leikstjórn: Arnar Sigurðsson. Framleiðsla: Elfar Logi Hannesson
Líf Kristjáns hefur snúist um vélsmiðjuna á Þingeyri frá því hann kom þangað inn sem lítill strákur að færa bróður sínum kaffi. Nú þegar hann er orðinn áttræður verða tímamót í lífi hans og smiðjunnar sjálfrar. Meira en aldargamlar vélar hennar munu varla standast tímans tönn í hnattvæddum heimi fjöldaframleiðslu.

HVÍTAR ARKIR
Leikstjórn: Kristveig Halldórsdóttir. Framleiðsla: Kristveig Halldórsdóttir
Fjallað verður um á myndrænan hátt hvernig handunninn pappír er búinn til úr náttúrulegum cellulósa eða plöntutrefjum. Sýnt er hvernig þessi handverkskunnátta, sem fyrst varð til á 6. öld í Kína, er notuð enn þann dag í dag með því að skrásetja vinnsluferlið frá hráefni til lokaafurðar.

TURNINN
Leikstjórn: Sigríður Dögg Ásgeirsdóttir. Framleiðsla: Sigríður Dögg Ásgeirsdóttir
Ásgeir Eiríksson endurbyggði gamlan súrheysturn foreldra sinna á ættarjörðinni, drifinn áfram af minningu um fegurð náttúrunnar og tengingu við forfeðurna. Barnabarn hans kemur í heimsókn og þeir eyða stund saman í turninum þar sem þeir hugleiða í augnablikinu og rifja upp endurbyggingu turnsins.

VERK Í VINNSLU:

ACTING NORMAL WITH CVI
Leikstjórn: Bjarney Lúðvíksdóttir. Framleiðsla: Eyjafilm
Dagbjört er metnaðarfullur söngnemi sem les ekki nótur, heldur lærir þær með eyranu, en það dugar ekki til að útskrifast. Í leit að svörum uppgötvar hún 26 ára að hún hefur verið blind frá fæðingu með heilatengda sjónskerðingu (CVI). Loksins kom skýring! En nei, henni er samt neitað um prófskírteini.

FRIÐLAND
Leikstjórn: Hrund Atladóttir. Framleiðsla: Sýróp
Ferðalag inn í tímaleysið sem ríkir í friðlandinu á Hornströndum með fimmtíu ára millibili. Með því að blanda saman gömlu myndefni frá fyrsta ári friðunar 1975 við nýjar upptökur, myndast samtal milli fortíðar og nútíðar. Og vekur upp spurningar varðandi hlutverk villtrar náttúru í framtíðinni.

LÝRIKK
Leikstjórn: Haukur M & Ásta Júlía Guðjónsdóttir. Framleiðsla: Hallur Örn Árnason
Ferð inn í heim kvæðamanna og hagyrðinga þar sem aldagamall kveðskapur okkar Íslendinga skemmtir enn fólki. Í gegnum kynni ólíkra einstaklinga sem iðka þetta forna listform kynnumst við því hvernig þessi brothætta kveðskaparhefð snertir okkur enn í dag.

COCA DULCE TABACO FRÍO
Leikstjórn: Þorbjörg Jónsdóttir. Framleiðsla: Hanna Björk Valsdóttir, Akkeri Films
Tilraunakennd heimildamynd um hin heilögu plöntulyf coca og tóbak. Þrátt fyrir að þessar plöntur gegni mikilvægu hlutverki í trúarbrögðum og heimsmynd Amazon indjána eru þær misskildar og lítið um þær vitað í hinum Vestræna heimi.

MEMORY MAN
Leikstjórn: Erlendur Sveinsson. Framleiðsla: Kári Úlfsson
Memory Man fjallar um dag í lífi Jóns sem rekur myndbandavinnsluna við að setja myndbönd Íslendinga á stafrænt form. Varðveita þar með minningarnar sem að væru annars að deyja út. Fjallað er bæði um minningarnar sjálfar sem og sögu tækninnar sem þar er á baki við varðveislu þeirra.

TEMPORARY SHELTER
Leikstjórn: Anastasiia Bortuali. Framleiðsla: Helgi Felixson
Sögur af úkraínskum flóttamönnum sem fá „tímabundið skjól“ í Ásbrú.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR