spot_img

Þessar myndir unnu til verðlauna á Skjaldborg

Skjaldborg, hátíð íslenskra heimildamynda, lauk í gærkvöldi. Klippa um myndirnar á hátíðinni er væntanleg innan tíðar. Hér eru þær þrjár myndir sem hlutu verðlaun. 

Rakel Andrésdóttir.

SKJALDAN:

Dómnefndarverðlaun Skjaldborgar 2024 fyrir heimildastuttmynd hlaut Kirsuberjatómatar eftir Rakel Andrésdóttur.

Í umsögn dómnefndar segir: Dregur upp ljúfsára og skýra mynd af tímabili sem áhorfendur eiga auðvelt með að spegla sig í. Nálgunin er stílhrein, tilgerðarlaus og berskjaldandi og næm útfærsla höfundar hentar viðfangsefninu sérstaklega vel.

Þetta er í fyrsta sinn sem sérstök verðlaun eru veitt fyrir heimildastuttmynd, en verðlaunagripurinn hefur hlotið nafnið Skjaldan. Nýju verðlaununum fylgir verðlaunafé frá tækjaleigunni Kukl að verðmæti 250 þúsund og háhraða vinnsludiskur frá Sensor Films, umboðsaðila fyrir Glyph vinnsludiska á Íslandi. Verðlaunagripurinn er hannaður af Rögnu Þórunni Ragnarsdóttur.

Andri Freyr Viðarson og Árni Sveinsson.

LJÓSKASTARINN:

Dómnefndarverðlaun Skjaldborgar 2024 fyrir mynd í fullri lengd hlaut Kúreki norðursins, sagan af Johnny King eftir Árna Sveinsson. Framleiðendur eru Árni Þór Jónsson, Ada Benjamínsdóttir, Halldór Hilmisson, Lárus Jónsson og Andri Freyr Viðarsson.

Í umsögn dómnefndar segir: Myndin nálgast sársaukafulla reynslu af hugrekki og virðingu. Hún vinnur á aðdáunarverðan hátt með væntingar áhorfenda og sagan öðlast dýpri merkingu þegar viðfangsefnið nær óvænt valdi á eigin sögu. Áhorfandinn er skilinn eftir með stórar spurningar um áhrif áfalla, velgengi, karlmennsku og ekki síst leitina að hamingjunni.

Ljóskastaranum, dómnefndarverðlaunum sem fyrst var efnt til 2017, fylgir verðlaunafé frá tækjaleigunni Kukl að verðmæti 500 þúsund, verðlaunafé frá Trickshot að verðmæti 250 þúsund og verðlaunafé frá Phantom hljóð eftirvinnslufyrirtæki að verðmæti 150 þúsund krónur. Verðlaunagripurinn er hannaður af Kristínu Maríu Sigþórsdóttur.

Anton Smári Gunnarsson, Daníel Bjarnason og Þórunn Guðlaugsdóttir.

EINARINN:

Áhorfendaverðlaun Skjaldborgar 2024, Einarinn, hlaut Fjallið það öskrar eftir Daníel Bjarnason. Framleiðandi er Þórunn Guðlaugsdóttir.

Þann 16. janúar árið 1995 féll mannskætt snjóflóð á sjávarþorpið Súðavík. Í þessari heimildamynd eru sagðar sögur þriggja einstaklinga sem upplifðu hamfarirnar frá mismunandi sjónarhornum. „Fjallið það öskrar“ er heiður til vestfirðinga, minning um líf þeirra sem fórust og vitnisburður um styrk samfélags sem stóð saman á myrkum tímum.

Einarinn, áhorfendaverðlaunin hafa verið veitt frá stofnun hátíðarinnar 2007. Verðlaununum fylgir verðlaunafé frá tækjaleigunni Kukl að verðmæti 500 þúsund, verðlaunafé frá Trickshot að verðmæti 250 þúsund og verðlaunafé frá Phantom hljóð eftirvinnslufyrirtæki að verðmæti 150 þúsund krónur. Verðlaunagripurinn er hannaður af Einari Vigni Vatneyri Skarphéðinssyni.

Dómnefnd Skjaldborgar 2024 var skipuð þeim Álfrúnu Örnólfsdóttur, leikstjóra, handritshöfundi og leikkonu, Silju Hauksdóttur, leikstjóra og höfundi, og Snorra Hallgrímssyni, tónskáldi og tónlistarframleiðanda.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR