Deilt um styrki til kvikmyndahátíða

Sú ákvörðun menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkurborgar að styrkja Heimili kvikmyndanna ses til að endurvekja Kvikmyndahátíð Reykjavíkur en ekki RIFF eins og undanfarin tíu ár, er umdeild. Áslaug María Friðriksdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og Einar Örn Benediktsson formaður menningar- og ferðamálaráðs og borgarfulltrúi Besta flokksins ræddu þetta mál í Síðdegisútvarpi Rásar 2 í fyrradag.

Áslaug María: Þörf á að ræða málin frekar.
Áslaug María: Þörf á að ræða málin frekar.

Áslaug gagnrýndi að hætt væri að styrkja RIFF og spurði hvort verið gæti faghópur Bandalags íslenskra listamanna, sem tók umsókn Kvikmyndahátíðar Reykjavíkur fram yfir RIFF, væri of tengdur þeim aðilum sem stæðu að Bíó Paradís. Þá taldi hún rétt að ræða málin frekar og frá fleiri hliðum.

Einar Örn: Enginn er áskrifandi að styrkjum borgarinnar, fagleg niðurstaða.
Einar Örn: Enginn er áskrifandi að styrkjum borgarinnar, fagleg niðurstaða.

Einar Örn sagði að farið hefði verið eftir tillögum faghópsins eins og í öllum öðrum tilvikum á kjörtímabilinu. Niðurstaðan hefði einfaldlega orðið þessi, sú umsókn sem þótti betri hafi verið valin. Enginn geti gert ráð fyrir því að vera í einhverskonar áskrift að styrkjum frá borginni. Hann vildi ekki ræða hvort einhverskonar ávirðingar á rekstur RIFF hefðu komið við sögu.

Skýrsla um starfsemi RIFF ekki birt

Fyrir um ári var óvíst um skeið hvort borgin styrkti RIFF í kjölfar skýrslu sem unnin var fyrir borgina um starfsemi RIFF. DV sagði frá málinu 18. febrúar 2013 og kom þar meðal annars fram að blaðið hefði heimildir fyrir því að á fundi menningar- og ferðamálaráðs hafi verið ákveðið að skýrsla eftirlitsnefndar RIFF yrði trúnaðarmál vegna þess að inntak hennar gæti skaðað aðstandendur RIFF og þar með hátíðina sjálfa. Þá birtist eftirfarandi klausa í annarri frétt DV um svipað leyti:

Eva Baldursdóttir, meðlimur eftirlitsnefndarinnar sem vann skýrsluna um RIFF, segir aðspurð að menningar- og ferðamálaráð hafi ákveðið að „minnisblaðið“ yrði trúnaðarmál vegna þess að þar kæmu fram „viðkvæmar upplýsingar“. Annar aðili innan úr stjórnsýslunni, sem ekki vill láta nafn síns getið segir, að upplýsingarnar sem komi fram í skýrslunni séu „erfiðar, óvægnar og viðkvæmar“.

Fór svo að lokum að borgin veitti RIFF styrk líkt og fyrri ár og fjallaði RÚV meðal annars um það hér í febrúar. Rætt er við Einar Örn Benediktsson og kemur meðal annars fram að eftirlitsnefnd á vegum borgarinnar hafi skilað minnisblaði fyrir nokkru þar sem gerðar voru athugasemdir við starfsemi hátíðarinnar:

“Einar segir að þær hafi aðallega snúið að stjórnarfyrirkomulag og starfsmannastefnu fyrirtækisins sem sér um hátíðina. Hann segir að ráðið hafi verið fullvissað um að ráðin hafi verin bragarbót á þessum vanköntum og því vilji Reykjavíkurborg styðja hátíðina áfram eins og hún hafi gert á síðustu árum.”

Hrönn: Engin svört skýrsla um RIFF.
Hrönn: Engin svört skýrsla um RIFF.

Engin svört skýrsla um RIFF?

Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi RIFF og eigandi Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík ehf., segir meðal annars í þessari athugasemd við þessa frétt Vísis á dögunum:

“Í frétt Vísis er líka vitnað til gamallar greinar í DV um svarta skýrslu um RIFF og hún sögð til marks um að hátíðin hafi verið umdeild. Af því tilefni skal tekið fram að engin svört skýrsla hefur verið gerð um RIFF.” 

Baltasar í Kastljósi mánudagskvöldið 14. október 2013.
Baltasar: Skammarleg aðför að RIFF.

Börn í Paradís?

Baltasar Kormákur, sem situr í stjórn RIFF, er ósáttur við ákvörðun borgaryfirvalda og segir í viðtali við mbl.is að hún sé “skammarleg aðför að þessari hátíð, sem hefur ekki gert neitt annað en að breiða út fagnaðarerindið fyrir Reykjavíkurborg.”

Og hann segir einnig í sama viðtali:

„Svo eru allt í einu einhverjir krakkar í Bíó Paradís sem eru betur liðin, og þá er sagt að umsóknin þeirra hafi verið betur unnin. Þetta er svo fáránlegt. Þú ert með tíu ára sögu og þú tekur ekki ákvörðun um kvikmyndahátíð eins og um einhvern atburð sé að ræða sem sé metinn út frá listrænu gildi eða hversu áhugaverð umsóknin er. Í umsókninni liggur 10 ára saga.“

Í stjórn sjálfseignarstofnunarinnar Heimilis kvikmyndanna, sem rekur Bíó Paradís, sitja Ingvar Þórisson, Hrafnhildur Gunnarsdóttir, Hilmar Sigurðsson, Margrét Jónasdóttir, Anna Þóra Steinþórsdóttir, Friðrik Þór Friðriksson og Ragnar Bragason. Öll eiga að baki áratuga starf í kvikmyndagerð, auk þess að hafa starfað lengi að félagsmálum fyrir greinina. Þá var Friðrik Þór fyrsti framkvæmdastjóri Kvikmyndahátíðar Listahátíðar sem hófst 1978 og var einnig forsvarsmaður Kvikmyndahátíðar Reykjavíkur sem starfrækt var á árunum 1996-2001.

Líkt og fram kom hér mun verða stofnuð sérstök stjórn um rekstur Kvikmyndahátíðar Reykjavíkur.


(Athugið: Rétt er að taka fram að ritstjóri Klapptrés var dagskrárstjóri Bíó Paradísar, sem rekið er af Heimili kvikmyndanna, frá upphafi 2010 til 1. apríl 2013. Hann hefur einnig margoft komið að starfi RIFF sem umsjónarmaður “spurt og svarað” sýninga og “masterklassa”).

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR