spot_img

Markmiðin með endurvakningu Kvikmyndahátíðar í Reykjavík

Stjórn Heimilis kvikmyndanna ses hefur sent frá sér tilkynningu vegna Kvikmyndahátíðar í Reykjavík, en Heimili kvikmyndanna hlaut nýlega styrk frá Reykjavíkurborg vegna þess verkefnis. Tilkynningin er svohljóðandi:[divider scroll_text=““]

Heimili kvikmyndanna ses, fyrir hönd Kvikmyndahátíðar í Reykjavík sótti um styrk til Reykjavíkurborgar í haust þegar ljóst var að RIFF myndi ekki vera með sína starfsemi í Bíó Paradís vegna viðskiptalegra forsendna eiganda RIFF. Þá hafði átt sér yfirgripsmikið samtal um langt skeið við marga aðila og könnun grundvallar um víðtæka sátt um framtíðarskipulag á kvikmyndahátíð í Reykjavík. Í framhaldi af þessu tók stjórn Heimilis kvikmyndanna þá ákvörðun að sækja um framlag til að endurvekja Kvikmyndahátíð í Reykjavík (KÍR) sem var stofnuð 1996 á grunni Kvikmyndahátíðar Listahátíðar.

Upp úr miðjum desember tilkynnti Reykjavíkurborg um niðurstöðu úr umsóknum um menningarstyrki fyrir árið 2014 og kom í ljós að umsókn Heimilis kvikmyndanna ses fengi úthlutað 8 milljónum króna til að halda Kvikmyndahátíð í Reykjavík, að ráði og eftir umsögn fagráðs sem Bandalag íslenska listamanna skipar til að fara yfir styrkumsóknir til menningarmála.

Nú er verið að vinna að skipan nýrrar stjórnar fyrir sjálfseignarstofnunina Kvikmyndahátíð í Reykjavík. Verður óskað eftir því við bæði Reykjavíkurborg, ráðuneyti Mennta- og menningarmála og Íslandsstofu að þaðan verði skipaðir fulltrúar í stjórn. Auk þess er gert ráð fyrir að fagfélögin þrjú FK, SKL og SÍK munu skipa hvert sinn fulltrúa auk þess sem óháður aðili verði kallaður til að gegna stjórnarformennsku í þessari nýju stjórn. Þetta skipulag er hugsað til að mynda sem breiðasta sátt um starf Kvikmyndahátíðar í Reykjavík og er að hluta sótt í skipulag Listahátíðar í Reykjavík og Icelandic Airwaves.

Stjórn KÍR mun fylgja eftir stefnumörkun fyrir Kvikmyndahátíð í Reykjavík. Meðal þeirra verkefna er að gera framkvæmdasamning um daglegan rekstur hátíðarinnar og skipa dagskrárráð undir forystu reynslumikils erlends dagskrárstjóra. Viðræður eru þegar hafnar við mögulega aðila frá heimsþekktum kvikmyndahátíðum. Dagskrárráð mótar aðaldagskrá KÍR en samhliða mun framkvæmdaraðili stýra rekstri og annarri dagskrá, þ.m.t. hliðardagskrám, erlendu samstarfi, öflugum málstofum, námskeiðum fyrir leika og lærða og annarri dagskrá sem hefur það að markmiði að bjóða upp á það besta í kvikmyndagerð heimsins, efla og styrkja íslensku kvikmyndagreinina og vekja athygli erlendra gesta hátíðarinnar á Íslandi sem tökustað fyrir erlendar kvikmyndir.

KÍR mun starfa eftir reglum FIAPF – alþjóðabandalags samtaka kvikmyndaframleiðenda sem hefur eftirlit með kvikmyndahátíðum með það að markmiði að tryggja hagsmuni kvikmyndaframleiðenda og dreifingar- og söluaðila í meðferð þeirra kvikmyndaverka á kvikmyndahátíðum. Þar er helst er að telja rekstur og stjórnun, aðferðir við val mynda á hátíðir, alþjóðlega skipaðar dómnefndir, þjónustu við blaða- og fréttamenn, öryggi mynda og sýningagæði, náið samstarf við kvikmyndagreinina og fleira. FIAPF er eftirlitsaðili með öllum helstu kvikmyndahátíðum heimsins, eins og hátíðunum í Cannes, Berlín, Toronto, Karlovy Vary, Feneyjum og öllum öðrum A kvikmyndahátíðum í heiminum. KÍR mun jafnframt leita eftir stuðningi FIAPF við undirbúning og skipulag Kvikmyndahátíðar í Reykjavík.

Markmið okkar með endurvakningu Kvikmyndahátíðar í Reykjavík er að skapa viðburð í samvinnu og samstöðu allra sem málið varða og annast framkvæmd hennar og stjórnun á sem faglegastan hátt. Hátíðin mun veita almenningi aðgang að rjómanum af þeim kvikmyndum sem hafa hlotið verðlaun og viðurkenningar á stærstu kvikmyndahátíðum heims þar sem áherslan er lögð á gæði frekar en magn kvikmynda. Það er okkar von að Kvikmyndahátíð í Reykjavík verði sannkallaður gleðiviðburður jafnt fyrir áhorfendur sem og alla sem starfa í kvikmyndagreininni.

Með kærri kveðju,

Stjórn Heimilis kvikmyndanna ses

(Ingvar Þórisson, Hrafnhildur Gunnarsdóttir, Hilmar Sigurðsson, Margrét Jónasdóttir, Anna Þóra Steinþórsdóttir, Friðrik Þór Friðriksson og Ragnar Bragason).

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR